Réttargeðdeild fyrir geðsjúka afbrotamenn

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 11:04:00 (3802)



     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Það er stórt orð Hákot og rétt er það að hugmyndir stjórnvalda um takmarkaða og tímabundna lausn á þessu vandamáli sem hér er til umræðu hafa aldrei verið á þá lund að menn væru að hugsa um að byggja réttargeðdeild eins og þá sem hv. síðasti ræðumaður ræddi um, samanber áformin sem hafa verið og til stóð að leysa þetta mál með, með kaupum á húseign í Kópavogi til samrekstrar með ríkisspítölum til að leysa vandamál þessa fólks. Þar var um að ræða meðferðarheimili fremur en réttargeðdeild þá sem hv. fyrirspyrjandi talaði um hér áðan og það er sama mál sem verið er að leysa í ráðuneytinu nú. Við höfum því ekki gert ráð fyrir að stofnuð yrði réttargeðdeild að Sogni í Ölfusi heldur hefur verið undirbúið að setja þar á stofn ekki vistheimili heldur meðferðarheimili fyrir ósakhæfa, geðsjúka afbrotamenn. Engar áætlanir liggja fyrir í ráðuneytinu, hvorki unnar af mér né öðrum um stofnun og starfrækslu réttargeðdeildar sem að sjálfsögðu hefur miklu víðtækara starfssvið en vistheimili það sem hér um ræðir með þeirri meðferð sem þar á að fara fram.
    Staða undirbúnings vegna breytinga á Sogni er þannig að allri hönnunarvinnu var lokið um miðjan ágúst sl. og samkomulag hafði verið gert við tæknisvið ríkisspítala um að framkvæmdir yrðu á þess vegum. Gert er ráð fyrir að breyting á húsnæðinu taki um þrjá mánuði og eru öll tilskilin leyfi fengin, þ.e. frá skipulagsyfirvöldum og frá eigendum viðkomandi húsnæðis en tafir hafa orðið vegna þess að byggingarnefnd Ölfushrepps synjaði fyrst um leyfi til breytinganna og sveitarstjórn Ölfushrepps samþykkti þá ákvörðun byggingarnefndar. Eins og hv. alþm. er kunnugt vísaði ég málinu til umhvrh. til úrskurðar. Hann felldi sinn úrskurð þannig að synjun byggingarnefndar Ölfushrepps á þeim forsendum sem þar voru gefnar stæðist ekki. Byggingarnefnd Ölfushrepps hefur tekið málið til nýrrar athugunar og fengið allar þær viðbótarupplýsingar sem hún óskaði eftir frá heilbr.- og trmrn. og hún hefur samþykkt að veita leyfið. Sveitarstjórn Ölfushrepps hefur haft það mál eða þá fundargerð byggingarnefndar til afgreiðslu á tveimur fundum sínum. Ég á von á því að lokaafgreiðsla málsins eigi sér stað á fundi sveitarstjórnarinnar sem haldinn verður í kvöld. Það er ekkert því til fyrirstöðu að ef sú samþykkt verður jákvæð eins og ég vonast til þá verði þegar í stað hægt að hefjast handa við framkvæmdir. Það bíða og hafa beðið um nokkurra mánaða skeið þjálfunarpláss fyrir starfsfólk þessarar meðferðarstofnunar á tveimur geðsjúkrahúsum í Svíþjóð þar sem gert er ráð fyrir því að fólkið sem þarna muni starfa fái faglega þjálfun í meðferð sjúklinga af þessu tagi sem standi í a.m.k. sex vikur. Sú þjálfun verður okkur Íslendingum að kostnaðarlausu og hefur verið boðin fram af mikilli velvild og vináttu af forstöðumönnum tveggja geðsjúkrahúsa í Svíþjóð sem hafa slíka sjúklinga til meðferðar.
    Þá er spurt í öðru lagi: ,,Hversu mikla öryggisgæslu og hve víðtæka læknisþjónustu mun réttargeðdeildin veita?``
    Svarið við því er að vistheimilið mun hafa sömu öryggisgæslu og sambærilegar deildir í Svíþjóð og öllu meiri öryggisgæslu að mínu mati eftir að ég hef sjálfur ferðast til Svíþjóðar til að kynna mér hvernig þessum málum er háttað í því geðsjúkrahúsi sem vistar nú fjóra Íslendinga. Ég hef skoðað það og kynnt mér það af eigin raun og rætt við þessa fjóra vistmenn. Ég gerði það í tengslum við fund sem heilbrigðisráðherrar Norðurlanda héldu til undirbúnings Norðurlandaráðsþingi. Ég get fullyrt eftir að hafa kynnt mér það að þær aðstæður sem verið er að bjóða á Sogni eru ekki lakari heldur mun betri en þær aðstæður sem ég kynnti mér þar.
    Læknar og hjúkrunarfræðingar frá Svíþjóð þar sem íslenskir ósakhæfir og geðsjúkir afbrotamenn hafa verið vistaðir hafa verið með í ráðum um þær breytingar sem gera þarf á húsnæðinu að Sogni og hefur verið fallist á allar þeirra tillögur. Meðferðarheimilið mun veita þá almennu læknisþjónustu sem á þarf að halda, þar á meðal geðlæknisþjónustu og verður í því sambandi höfð samvinna við sjúkrahúsið á Selfossi. Viljayfirlýsing bæði heilbrrn. og forsvarsmanna sjúkrahússins á Selfossi liggur fyrir um að sjúkrahúsið muni veita alla þá þjónustu, þar með talda geðlæknisþjónustu, sem meðferðarheimilið þarf á að halda.
    ,,Hve margir vistmenn geta vistast á deildinni hverju sinni?`` Gert er ráð fyrir því að sjö ósakhæfir afbrotamenn geti vistast að Sogni til jafnaðar en að auki verði hægt að vista þar þrjá vistmenn til skammtímavistunar.
    ,,Hve margir starfsmenn verða við réttargeðdeildina?`` Gert er ráð fyrir um 30 starfsmönnum. Í fjárlagafrv. er gert ráð fyrir 41,8 millj. kr. til þessa verkefnis og í heilbrrn. liggja nú þegar fyrir margar umsóknir um störf bæði frá ófaglærðu fólki og faglærðu. Ég sé engin vandkvæði á því, virðulegi forseti, að hægt sé að tryggja þessum vistmönnum alla þá meðferðarþjónustu sem þeir þurfa á að halda, þar á meðal sérfræðilega læknishjálp og sérfræðilega þjálfun. Stefnt verður að því að þetta fólk fái þá fullkomnustu læknisþjónustu og geti útskrifast af meðferðarheimilinu að Sogni þegar heilsa þeirra leyfir.