Réttargeðdeild fyrir geðsjúka afbrotamenn

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 11:13:00 (3804)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil koma á framfæri viðbótarupplýsingum ef ég skyldi hafa talað óskýrt áðan. Á Sogni er gert ráð fyrir að fram fari geðlæknisþjónusta. Einnig er gert ráð fyrir því að með þeirri lausn sem þar verður ákveðin, og ég tel ekki tímabært að kynna fyrr en samningar hafa tekist um hana, verði líka leyst geðræn hjálp við fangana á Litla-Hrauni sem ekki hefur staðið til boða hingað til. Enda þótt þeir afplánunarfangar, sem þurfa á geðrænni hjálp að halda og hafa ekki fengið hana, muni ekki vistast á Sogni þá munu þeir fá þá geðrænu hjálp sem þeir hafa lengi beðið eftir án þess þó að það sé gert í þeim byggingum sem verða á Sogni heldur af þeim geðlækni sem mun sinna þeim málum.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt og tímabært að kynna það samkomulag sem tekist hefur um lausn málsins núna. Ég vil aðeins árétta að gangi það fram þá verður ekki aðeins hinum ósakhæfu afbrotamönnum sem verða á Sogni tryggð geðlæknismeðferð heldur einnig föngum á Litla-Hrauni. Út af fyrir sig mætti halda um það langa tölu og fara um það mörgum orðum hversu heilbrigðiskerfið hefur brugðist þeim þjónustuþætti í mörg undanfarin ár og eru margar ófagrar sögur af afleiðingum þess.