Stöðugildi í heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 11:15:00 (3805)

     Fyrirspyrjandi (Jóna Valgerður Kristjánsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Sá mikli niðurskurður í heilbrigðismálum sem núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir hefur ekki farið fram hjá alþjóð. Margt hefur verið rætt og ritað um þau mál frá því að fjárlagafrv. fyrir árið 1992 leit dagsins ljós. Í þeim niðurskurði hefur verið höggvið á báðar hendur og oft af meira kappi en forsjá. Nú á að skera niður á launalið þrátt fyrir að sjúkra- og heilsugæslustofnanir hafi margar hverjar á liðnum árum verið of fáliðaðar miðað við umfang starfsins. Hjúkrunarfræðinga hefur vantað til starfa, ekki síst úti á landi. Þar hafa lág laun og mikið vinnuálag átt sinn þátt í að ekki hefur verið sóst eftir þeim störfum. Ef fólk með tilskilda menntun býr ekki á staðnum er mjög erfitt að manna stöður og ekki gert mikið af því að laða fólk til flutnings þangað, t.d. með því að útvega húsnæði eða lofa öruggri barnagæslu.
    Nú hefur verið brugðið á það ráð að skera enn niður framlag ríkisins til launagreiðslna á hinum ýmsu heilbrigðisstofnunum. Því væri fróðlegt að heyra frá hæstv. heilbrrh. hvort enn eigi að skera niður launalið til þeirra stofnana þar sem ekki hefur verið hægt að manna stöður á undanförnum árum sökum skorts á menntuðu starfsfólki. Ég spyr því hæstv. heilbrrh.:
  ,,1. Hversu mörg stöðugildi eru í heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum og hversu mörg voru ómönnuð 1. jan. sl.?
    2. Verður þeim heilbrigðisstofnunum þar sem stöður voru ekki fullmannaðar á síðasta ári gert að draga úr launakostnaði á þessu ári í samræmi við áform um flatan niðurskurð á launalið fjárlaga?``