Stöðugildi í heilbrigðisþjónustu á Vestfjörðum

90. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 11:24:00 (3808)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað eru dæmi um að einstakar stofnanir hjá ríkinu hafi fleira fólk í störfum en stöðuheimildir gera ráð fyrir. Þær geta greitt það með því að taka af öðru rekstrarfé. Ef um er að ræða fólk, sem af einhverjum ástæðum hefur ekki full starfsréttindi í þeim stöðum sem stöðuheimildir gera ráð fyrir, hefur það því með lægri laun en gert er ráð fyrir í fjárlagaáætlun og geta þær stofnanir haft fleiri einstaklinga í störfum.
    En ég ítreka, eins og hv. þm. veit, enda á hv. þm. sæti í fjárln., að launaáætlanir til stofnananna eru gerðar á grundvelli þeirra stöðuheimilda sem stofnanirnar hafa án tillits til þess hvort allar stöðuheimildir eru mannaðar og án tillits til þess hvort allar stöðuheimildir eru mannaðar af sama réttindafólki og þar er gert ráð fyrir þannig að þar er ekki um að ræða tvíniðurskurð. Það er misskilningur hjá hv. þm. ef hann heldur að launakostnaði vegna ómannaðra stöðugilda sé ekki engu að síður haldið til haga til viðkomandi stofnunar. Ég tel því að fsp. sé á þeim misskilningi byggð að hv. fyrirspyrjandi telji að þær stofnanir sem fullnýta ekki stöðuheimildir sínar séu, ef svo má segja, tvískornar. Fyrst séu teknar af þeim þær launagreiðslur sem þær greiða ekki vegna þess að þar er með einhverjum hætti tímabundin eða varanleg vöntun á fólki til að fylla upp stöðugildin, það sé tekið af stofnununum og síðan komi flati niðurskurðurinn ofan á það. Þetta er misskilningur, hv. þm., eins og hann væntanlega veit ef hann hugsar til baka hvernig fjárlagaáætlanir fyrir stofnanirnar eru gerðar.