Evrópuráðsþingið

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 11:55:00 (3812)


     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka formanni Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins fyrir hans innlegg hér áðan, en ég vil taka það fram að þar komu fram hans persónulegu skoðanir eins og varðandi framtíðarstarf í ýmsum alþjóðasamtökum. Ég efast t.d. um að Atlantshafsbandalagið eigi mikla framtíð fyrir sér vegna hinna miklu breytinga sem átt hafa sér stað í Evrópu.
    Það sem mig langaði aðallega til að gera að umræðuefni vegna þessarar skýrslu er að ég hef oft velt því fyrir mér í framhaldi af þeirri reynslu sem ég hef fengið í starfinu innan Evrópuráðsins og það er sú aðstaða sem okkur þingmönnum er búin varðandi þetta alþjóðlega starf og hvers við væntum af því og hvernig þingmenn vilja að því standa. Nú er það svo að starfssvið Evrópuráðsins er gríðarlega víðtækt eins og fram kemur í skýrslunni og margar nefndir sem starfa á vegum þess. Regluleg þing eru haldin fjórum sinnum á ári og nefndarfundir mjög oft. En Alþingi Íslendinga er þröngur stakkur skorinn og það fjármagn sem við höfum til umráða í Íslandsdeildinni er því miður afar takmarkað. Það hlýtur að valda því að við spyrjum okkur hvað eigum við að vera að leggja mikið á okkur til að setja okkur inn í öll þau mál sem þarna eru til umræðu, til hvers erum við að þessu? Erum við bara að fara á þessi þing rétt til þess að fylgjast með eða vilja þingmenn vera virkir í þessu starfi? Ég verð að segja það fyrir mig, virðulegi forseti, að ég hef mikinn áhuga á mörgu því sem þarna er á ferðinni en ég fæ illa séð að það sé hægt að sinna þessu starfi eins og ég gjarnan vildi vegna hins þrönga fjárhags.
    Í framhaldi af þessu finnst mér í raun og veru nauðsynlegt að það fari fram umræða meðal þingmanna, hvort sem það á að gerast í viðkomandi nefndum eða hér í salnum, almenn umræða um það hvernig alþjóðasamstarfi okkar skuli háttað og hvernig menn vilja að því standa. Erum við bara að þessu upp á punt eða viljum við gera okkur gildandi í þessu alþjóðasamstarfi? Ég ítreka það að mér finnst að okkur sé allt of þröngur stakkur skorinn því að litlu samfélagi eins og okkar er afar mikilvægt að fylgjast með alþjóðlegri umræðu. Eins og við höfum rekið okkur á er ýmsu ábótavant í okkar kerfi eins og fram hefur komið t.d. varðandi réttarkerfið og formaður Íslandsdeildarinnar nefndi áðan, þá hafa verið gerðar athugasemdir varðandi okkar löggjöf um vinnumarkaðinn. Það er margt sem við getum lært af ríkjum Evrópu og ýmsum öðrum ríkjum og ég vildi sjá það að okkur sé gert kleift að sinna þessu starfi af fullum krafti. Ég vildi að þetta kæmi hér fram og ég ítreka það að mér finnst þörf á að við þingmenn ræðum það hvernig að alþjóðasamstarfi skuli staðið.