Evrópuráðsþingið

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 12:01:00 (3813)


     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka það fram vegna ummæla í ræðu hv. síðasta ræðumanns að að sjálfsögðu voru þær skoðanir sem ég setti fram í þeirri ræðu sem ég flutti aðeins mínar, þær voru ekki skoðanir Íslandsdeildarinnar og ekki bornar undir neinn í henni. En textinn hins vegar sem við leggjum hér fram sem skýrslu er sameiginlegur texti okkar.
    Ég vil taka undir það sem hv. síðasti ræðumaður nefndi að það er ákaflega mikilvægt fyrir Alþingi að fjalla um það á einhverjum vettvangi, hvort sem það er hér í þingsalnum eða annars staðar, hvernig eigi að standa að þátttöku Alþingis í alþjóðasamstarfi. Þetta samstarf milli þjóðþinga fer stigvaxandi, ef þannig mætti að orði komast, það er alltaf verið að setja á laggirnar fleiri og fleiri samstarfssvið þar sem þingmenn koma saman og ræða sameiginleg mál og fjalla um mál sem snerta samstarf ríkjanna. Ein slík stofnun er í fæðingu núna, þ.e. þingmannasamkunda sem tengist Ráðstefnunni um öryggi og samvinnu í Evrópu og einmitt er fjallað um í skýrslu Íslandsdeildarinnar. Þar er bent á að þetta RÖSE-þing svokallað mun koma fyrst saman í Búdapest næsta sumar og það er skýrt frá því í skýrslunni að forsætisnefnd Alþingis hafi að þessu sinni ákveðið að aðalfulltrúar á Evrópuráðsþinginu skuli taka þátt í fundum RÖSE-þingsins í Búdapest í sumar vegna þess að sumarþing Evrópuráðsins verður haldið í þeirri borg rétt áður en RÖSE-þingið hefst. En Alþingi á eftir að taka ákvörðun um hvernig þátttöku okkar í RÖSE-þinginu verður háttað. Þannig má fjalla um enn fleiri málefni sem snerta alþjóðasamstarf þingmanna. Það er ákaflega mikilvægt að um það sé mótuð skynsamleg stefna af Alþingi hvernig að öllu slíku samstarfi skuli staðið.
    Starfsreglur Íslandsdeildarinnar gera ráð fyrir því að menn geti sinnt bæði þátttöku í þingunum og einnig nefndastarfi. Hins vegar er okkur þröngur stakkur skorinn, eins og fram kom, vegna fjárveitinga og við verðum að haga okkar starfi í Evrópuráðsþinginu með hliðsjón af fjárveitingum. Á þinginu sitja þrír kjörnir fulltrúar Íslands. Ísland hefur rétt til þess að hafa þrjá þingfulltrúa en í Íslandsdeildinni eru sex þingmenn og varamenn taka þátt í þingstörfum til skiptis, ef þannig mætti orða það. Á hvert þing eru að jafnaði sendir fjórir þingmenn þannig að það er ávallt einn varamaður á þingstaðnum á meðan fundir fara fram. En aðrar sendinefndir hafa það þannig að þær senda allar sínar nefndir og varamenn eru á þingstaðnum og taka þátt í nefndastörfum á meðan á þinghaldinu stendur. Við förum ekki inn á þessa braut í okkar starfsreglum, töldum okkur ekki fært að hafa þá reglu, setja hana fram, en auðvitað væri það æskilegast að fjárveitingar til Íslandsdeildarinnar tækju mið af því að þátttakan gæti verið sem mest, bæði í þingstörfunum og nefndastörfunum. En málum er ekki þannig háttað nú.
    Ég vil ítreka það sem ég sagði í ræðu minni að starfsemi Evrópuráðsins er farin að hafa mun meiri áhrif hér á landi og beinni áhrif á lagasetningu og framkvæmd mála hér á landi en kannski starfsemi nokkurra annarra alþjóðlegra samtaka sem við tökum þátt í. Það kemur best fram í því að við höfum orðið að breyta réttarfarslöggjöfinni og nú er eitt mál fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu sem varðar almennu hegningarlögin og tvö mál fyrir mannréttindanefndinni, annað sem varðar skattalög og hitt sem varðar atvinnuréttindi og eitt mál í kæru fyrir sérfræðinganefnd vegna Félagsmálasáttmálans. Það er því ákaflega mikilvægt að með þessum málum sé fylgst, ekki síst af löggjafarvaldinu sem setur lög og þarf að taka ákvarðanir um þessa samninga og setja lög í samræmi við þá, og nánar sé fylgst með þessu starfi heldur en áður eftir að menn hafa valið það í ríkara mæli en áður að kæra málefni til stofnana Evrópuráðsins. Þess vegna ítreka ég þá skoðun sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns að um það þarf að ræða alvarlega hvernig að þessu skuli staðið miðað við þann fjárhagslega ramma sem okkur er settur.