Evrópuráðsþingið

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 12:06:00 (3814)


     Geir H. Haarde :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni þessarar skýrslu fyrir að hafa vakið máls á ýmsum málum sem hafa óbeint komið til kasta Evrópuráðsins eða aðila á þess vegum og varða löggjöf á Íslandi. Hér er vissulega margt á ferðinni sem ástæða er til að gefa fullan gaum og ég vek athygli á því að á síðasta þingi var til að mynda sjómannalögum breytt vegna sérstakra ábendinga frá nefnd þeirri sem fylgist með framkvæmd Félagsmálasáttmála Evrópu. Það var talið að ákvæði í þeim lögum stangaðist á við þennan sáttmála.
    Ég vek jafnframt athygli á því, eins og fram hefur komið á nýjan leik nú að undanförnu, að af hálfu þessarar eftirlitsnefndar, sérfræðinganefndar, er gerð alvarleg athugasemd við ákvæði laga um Atvinnuleysistryggingasjóð hér á landi, en þannig háttar til að réttur til bóta er skilyrtur því að viðkomandi atvinnuleysingi sé félagi í stéttarfélagi. Ég hef flutt hér á Alþingi frv., að mig minnir í tvígang, sem gengur í þá veru að tryggja mönnum rétt til atvinnuleysisbóta óháð því hvort þeir eiga aðild að stéttarfélagi og hef m.a. reitt fram því máli til stuðnings þessar athugasemdir sérfræðinganefndar Evrópuráðsins að því er varðar ákvæði Félagsmálasáttmála Evrópu. Það mál fór hér í gegnum neðri deild á síðasta þingi og átti skamman veg eftir í gegnum efri deild þegar komið var í veg fyrir að það yrði að lögum. Ég vil vekja athygli á þessu máli á nýjan leik nú í framhaldi af ræðu hv. 3. þm. Reykv. og hvetja eindregið til þess að ríkisstjórnin taki þessi mál öll upp á breiðum grundvelli og hafi sjálf frumkvæði að því að tryggja að ekkert í okkar eigin löggjöf stangist á við þennan Félagsmálasáttmála, hvorki þetta né annað. Ég held að það sé miklu hyggilegra fyrir okkur Íslendinga að eiga sjálfir frumkvæði að því að tryggja að löggjöf okkar sé þess eðlis að hún brjóti ekki í bága við okkar alþjóðlegu skuldbindingar í stað þess að fá athugasemdir og jafnvel ákærur erlendis frá.