Framleiðsla og sala á búvörum

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 12:17:00 (3818)

     Frsm. meiri hluta landbn. (Egill Jónsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og tillögum til breytinga við frv. til laga um verðlagningu og sölu á búvörum, sem nýlega hefur verið lagt fyrir Alþingi.
    Frv. byggir einkum og sér í lagi á þeim ákvörðunum sem teknar voru í landbúnaðarmálum við gerð síðasta búvörusamnings, sem ég hygg að muni nú vera u.þ.b. eins árs, og kemur að sjálfsögðu í kjölfar þeirra breytinga sem verða á þessum málum eftir að búvörulögin í núverandi horfi hafa verið í gildi í tæplega sjö ár. Þau framleiðslumarkmið og þær breytingar sem þau kváðu sérstaklega á um falla einmitt úr gildi 1. sept. nk. Það væri út af fyrir sig löng saga að fara yfir það sem hefur gerst á þeim tíma og til þess er ekki tími að þessu sinni en þó er eðlilegt að sú skoðun komi fram frá þeim sem hér hefur orðið að það vekur í rauninni athygli hvað þau markmið og áform sem þá voru ákveðin hafa gengið upp með skýrum hætti. Víst er um það að þrátt fyrir að miklu hafi verið breytt á þessum tíma, ýmislegt hefur ekki gengið eftir svo sem vænta hefði mátt, þá hefur íslenskur landbúnaður komist í gegnum þetta tímabil með sæmilega góðum árangri. En nú verða breytingar á og þetta frv. er einmitt staðfesting á því. Það hefur verið nokkuð í umræðunni að með þessu frv. eða síðasta búvörusamningnum hafa verið teknar nýlegar ákvarðanir og nýjar áherslur í landbúnaðarmálum. Hér er þó í rauninni frekar um staðfestingu að ræða því að stefnunni var breytt árið 1985 og hún miðuð við fimm og síðan sjö ár. Við þær breytingar voru einmitt teknar þær ákvarðanir sem hér eru ýmsar hverjar til staðfestingar eins og að eyða þeim birgðum sem voru til í landinu og miða framleiðslu hefðbundinna greina einvörðungu við sölu á innanlandsmarkaði.
    Eins og ég sagði áðan er þetta frv. fyrst og fremst til þess að færa búvörulögin til þess horfs sem nýr búvörusamningur gerir ráð fyrir. Vert er að undirstrika sérstaklega að þetta frv. er á frekar stirðu lagamáli. Mikil vinna hefur verið lögð í að fara yfir þennan texta og hugsanlega með það fyrir augum að gera framsetningu á honum liprari. En með því að textinn tekur svo rík mið af búvörusamningnum er auðvitað ekki hægt að taka áhættu í því að gera miklar breytingar á. En textinn hefur hins vegar verið afar nákvæmlega yfirfarinn. Mér þykir líka vert að geta þess og beini því sérstaklega til hæstv. landbrh., sem á

eftir að fjalla um þessi mál að greinargerð með frv. --- og held ég að ekki sé mjög algengt að menn geri athugasemd við greinargerðir --- en hún er ónákvæm og í sumum tilvikum bókstaflega röng og stenst ekki miðað við búvörusamninginn. ( Gripið fram í: Þetta er ljótt, Halldór.) Ég held að menn þurfi að horfa á þetta vegna þess að svo er oft um túlkanir á lögum að leitað er til nánari skýringar eftir því hvað greinargerðir hafa frá að segja. Þess vegna undirstrika ég alveg sérstaklega að í greinargerðinni eru afskaplega vondar villur.
    Eins og hér liggur fyrir hefur landbn. ekki átt samleið í þessu máli og hér er ég að sjálfsögðu að mæla fyrir meirihlutatillögum en ekki nefndarinnar í heild. Þó eiga nefndarmenn að mestu leyti samleið, það verður skýrt síðar. Vegna þess að ég var að finna að frágangi í sambandi við frv. sem er til umræðu og skekkjum í greinargerð, þá vil ég líka játa á mig ávirðingar að því leyti að í nál. er sums staðar talað um nefndina en ekki einvörðungu um meiri hlutann. Það verður að sjálfsögðu leiðrétt og lagfært við betri yfirlestur í þinginu.
    Nefndin hafði ekki mikið ráðrúm til þess að fjalla um málið og þar af leiðandi hefur ekki farið fram víðtæk umræða um það meðal hagsmunaaðila. Núna á þessum morgni barst mér t.d. erindi frá afurðastöðvum sláturleyfishafa sem auðvitað hefði verið lagt fyrir landbn. ef við hefðum ekki verið búnir að afgreiða málið frá okkur. Hins vegar vill svo til að bændasamtökin, Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda höfðu stofnað til samstarfs um endurskoðun á búvörulögunum með skipun nefndar sex valinkunnra manna undir forustu formanns Stéttarsambands bænda. Sú nefnd fór mjög nákvæmlega yfir frv. og þannig fékkst vilji eða skoðun bændasamtakanna á frv.
    Auk þess ræddi nefndin við bæði fulltrúa Stéttarsambandsins, Framleiðsluráðs og landbrn. Þannig er um þær tillögur sem hér liggja fyrir að 1. og 2. gr. okkar tillagna er í rauninni tæknilegs eðlis, orðskýringar og lagfæringar, og frá því er greint skýrlega í nál. meiri hlutans. Eins er að flestu leyti um 3. gr. en þó vil ég leggja sérstaka áherslu á að í c- og f-lið eru gerðar undantekningar og settar inn heimildir til að víkja frá meginreglunni um beinar greiðslur. Meginreglan er sú að nái framleiðandi ekki 80% í framleiðslu af greiðslumarki sínu ber að skerða beinar greiðslur. Nú er það svo að allmargir bændur eiga samninga við ríkisvaldið vegna útrýmingar á riðuveiki og í þeim samningum eru að sjálfsögðu kvaðir á ríkisvaldið um vissan stuðning. Hér er lagt til að heimilt sé ef fjármagn verður fyrir hendi að líta fram hjá því við skerðingu að einhverju leyti eða öllu þótt bændur séu innan þessara neðri skerðingarmarka. Þetta á við þá bændur sem eiga samninga um riðuveiki. Raunar er rétt að taka sérstaklega fram að reynist þessi leið fær er um sparnað að ræða fyrir ríkið en ekki það gagnstæða því að ríkið er bundið af samningum í þessum efnum.
    Önnur heimild er tekin inn líka og ástæðan fyrir því er sú að um þessar mundir, og nú í fyrsta sinn sem farið er af stað undir þessum nýju áformum, þá er erfitt að átta sig á því hver fullvirðisrétturinn er. Niðurfærslur og sölur hafa átt sér stað og síðan þarf að flytja greiðslumark úr fullvirðisrétti og af þessari ástæðu þykir rétt að samræma nú beinar greiðslur og greiðslumark þannig að í staðinn fyrir að beinar greiðslur séu einungis innan 80% og 100% af framleiðsluheimildum sé á þessu ári heimilt að fara allt að 105% eins og greiðslumarkið eða framleiðsluheimildin gefur til kynna. Hins vegar er skýrlega tekið fram að þessar heimildir er því aðeins unnt að nota að ekki verði farið yfir grundvallarviðmiðunina upp á 8.600 tonn. Það er hinn skýri samningur milli ríkisvaldsins og bændanna. Í þessu felast að sjálfsögðu engar fjárkröfur umfram það sem samið er um í þessum efnum.
    Ég beini því sérstaklega til hæstv. landbrh. í þessu sambandi að þótt hér séu teknar inn heimildir þá má ekki undir nokkrum kringumstæðum nýta þær öðruvísi en að búið sé að gera full skil og fullnægja öllum skyldum varðandi uppgjör við bændur almennt séð. Ég óttast að þessar beinu greiðslur og það fjármagn sem þar er á ferðinni leiði kannski til þess að ekki verði langt eftir því að bíða að litið verði á þetta sem um félagsmálapakka sé að ræða. Til þess má með engu móti koma. Ég tek sérstaklega fram að ekki hefur verið haggað við þeim rétti sem bændur eiga fullkomlega rétt á og dómar hafa gengið um á grundvelli búvörulaganna um að þeim beri fullnaðaruppgjör á sínum afurðum. Þess vegna má þessi heimild ekki með nokkrum hætti verða til þess að hagga þeim ásetningi.
    Ég vil líka geta þess að samkvæmt tillögu bændasamtakanna lifir enn þá hálf grein af 8. kafla frv. sem að sjálfsögðu er að mestu leyti úreltur og átti að falla úr gildi 1. sept. nk. en það er hálf 37. greinin. Hún felur í sér þá tilhögun sem Framleiðnisjóði landbúnaðarins ber að hlíta við ákvarðanir sínar. Hæstv. landbrh. hefur getið þess að það standi til að endurskoða lögin um Framleiðnisjóð landbúnaðarins. Sú endurskoðun liggur ekki fyrir og þar af leiðandi er nauðsynlegt að hafa þó þessa leiðsögn áfram. Þó að hún sé kannski ekki ýkja víðtæk er þó afturför að fella hana alveg úr samhengi.
    Mér þykir vert að geta þess í þessu sambandi að auðvitað kom það til umræðu að færa inn í búvörulögin þau ákvæði búvörusamningsins sem kveða á um fjárveitingar úr ríkissjóði til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til áframhaldandi uppbyggingar á þeim grundvelli sem hann hefur eftir að vinna. Með því að um fleiri samningsbundnar greiðslur til landbúnaðarins er að ræða í nýgerðum búvörusamningi var í rauninni óeðlilegt og ekki til að styrkja málið að taka þessar greiðslur einar sérstaklega út úr. Þessar greiðslur, þessar tillögur og þetta samkomulag er samningsbundið og auðvitað á að virða það samkvæmt þessum samningi eins og önnur þau ákvæði sem menn gera samninga um hvort heldur sem það er ríkisvaldið eða einhver annar.

    Þá á ég einungis eftir að tala um síðustu grein tillagna okkar. Það er um bráðabirgðaákvæði sem felur í sér að landbrh. er heimilt að færa um 1 / 6 af því fjármagni sem bændum landsins ber samkvæmt samningi sem er undirritaður af fulltrúum ríkisvaldsins og á að koma allt til skila á þessu ári, færa allt að 1 / 6 hluta þess yfir á næsta ár. Það var að því er ég hygg einvörðungu þetta sem gerði það að verkum að leiðir okkar skildu í nefndinni. Sú afstaða minni hlutans, stjórnarandstöðunnar, er að sjálfsögðu fullkomlega eðlileg. Um er að ræða slíka ákvörðun að það hlýtur að teljast fullkomlega eðlilegt að þeir sem styðja ríkisstjórnina beri ábyrgð á henni og er það að sjálfsögðu alveg nógu fast undir tönn fyrir suma hverja.
    Eins og menn kannast við var tekin sú ákvörðun við fjárlagaafgreiðslu að skerða fjárveitingu til beinna greiðslna með tilliti til þess að 1 / 6 hlutinn yrði greiddur í janúar og febrúar. Að sjálfsögðu er ýmislegt hægt að leggja á sig í þessum efnum þegar um er að ræða ákvarðanir sem leiða til árangurs. Fyrst það er metið svo --- og það hlýtur að fara að skýrast --- að það sé árangur í efnahagsmálum að færa 300 millj. kr. sem á að greiða í desember til greiðslu eftir áramótin, í janúar og febrúar, verð ég að segja eins og er að ákvarðanir sem stjórnvöld taka í efnahagsmálum vigta ekki allar afskaplega mikið. Ég hélt satt að segja að ekki breytti afskaplega miklu um afkomu ríkissjóðs hvort slík greiðsla er innt af hendi einum mánuðinum fyrr eða seinna. En auðvitað hefur það mikil áhrif á fólkið sem hefur gengið út frá þessum fjármunum og lifir á þeim.
    Ég hafði það að orði við fjárlagaumræðuna hvort ekki væri skásti kosturinn að stíga skrefið til fulls og viðhafa sams konar vinnubrögð gagnvart öllum almenningi í landinu sem á samninga við ríkissjóð og laga skekkjuna á ríkissjóði með því að draga þannig tveggja mánaða greiðslur hjá öllum almenningi í landinu yfir áramótin og spara þannig um 6--7 milljarða kr. og laga þennan blessaða greiðsluhalla þá um leið. Ég get ómögulega fundið rök fyrir því að frekar eigi að brjóta samninga á einni stétt en almennt er gert í landinu. Ef menn telja sig hafa stöðu til þess að breyta slíkum ákvörðunum einhliða gagnvart einhverri einni stétt, því þá ekki gagnvart öllum landslýð sem á í samningum við þetta ríkisflykki? Frá mínum bæjardyrum séð kemur hvorugt til greina.
    Þetta þykir kannski nokkuð sérkennilegur formáli eða skýring fyrir síðasta tillöguliðnum. En frá mínum bæjardyrum séð felast í honum miklar ákvarðanir. Enn þá hefur ekki verið gengið frá því með formlegum hætti að ríkisvaldið mundi ekki vera bundið af þessum greiðslum. Ef lögin eða frv. hefði farið fram óbreytt hefði ríkissjóði að sjálfsögðu borið að greiða þetta. Það er fastur ástetningur meiri hlutans að breyta í engu frá því sem ákveðið hefur verið í fjárlögum og til þess að spilla ekki þeim mikilvæga efnahagsárangri sem næst með því að taka 1 / 6 hlutann af launum sauðfjárbænda og færa hann yfir á næsta ár. Ekki eru gerðar nokkrar einustu breytingar sem hagga þeim ásetningi. Hins vegar er greinin þannig að þetta er á valdsviði landbrh. Hann hefur þessa heimild til að færa 1 / 6 hlutann af greiðslunum yfir á næsta ár.
    En hæstv. landbrh. tekur líka við skyldum samkvæmt þessari grein og þær skyldur eru í sem stystu máli þær að þessi tilfærsla verður að eiga sér stað án þess að bændur landsins sem hér eiga hlut að máli verði fyrir tjóni eða óþægindum af þessari ráðstöfun. Hér er bæði kveðið á um heimild og líka skyldu. Ég vek alveg sérstaklega athygli á því hvað bændasamtökin, þ.e. milliþinganefndin, sem eins og ég hef sagt áður er skipuð af þessum tveimur höfuðsamtökum í íslenskum landbúnaði, hefur fjallað um þetta viðkvæma mál af mikilli ábyrgð. Í áliti nefndarinnar sem landbn. Alþingis var afhent segir svo um þetta efni:
    ,,Frumvarp þetta mælir fyrir um ákveðið fyrirkomulag á beinum greiðslum til bænda. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1992 var ákveðið að fresta hluta af þeim greiðslum þar til í janúar/febrúar 1993 án þess að um það væri samið við bændur.``
    Þarna er greinilegt ósamræmi milli frv. og fjárlaga. Verði þær leiðir valdar sem breyta samhljóða ákvæðum frv. og búvörusamningsins um skil á beinum greiðslum til bænda er eindregin krafa að um þær leiðir verði samið við samtök bænda. Eins og skýrlega kemur fram í áliti meiri hlutans er niðurlag bráðabirgðaákvæðisins til samræmis við þessa kröfu bændasamtakanna. Þetta er svar meiri hlutans til bændasamtakanna og það eru mjög eindregin tilmæli til hæstv. landbrh., sem ég tel hann raunar bundinn af, að hann hefji sem fyrst viðræður við Stéttarsamband bænda um þetta mál þannig að það megi fara sem best úr hendi. Ég ætla ekki að ræða hverjar leiðir eru.
    Ég undirstrika það sem ég sagði áðan að þó að um sé að ræða heimild til ráðherrans er alls ekki til þess ætlast að meira fjármagn komi til þessara verkefna úr ríkissjóði á þessu ári en tilgreint er í lögum. Það vil ég að liggi alveg ljóst fyrir. En eins og ég sagði áðan eru ýmsar leiðir til að ná fram þeim árangri að bændur geti fengið sinn hlut algerlega óskertan. Annað eins hefur verið gert og um það hef ég fengið plögg og kannski fyrst og fremst með tilstuðlan bændasamtakanna sjálfra að útvega fjármagn til greiðslu á þessum hluta afurðaverðsins og með fulltingi bændasamtakanna sjálfra, enda er ekki nema í mesta lagi um eins til tveggja mánaða lán að ræða. Reyndar eru til fleiri leiðir sem hægt er að beita í þessum efnum. Á þetta legg ég sérstaka áherslu í lok máls míns og ég treysti að sjálfsögðu engum manni betur en hæstv. núv. landbrh. til þess að fá þá lausn í þetta mál sem ég hef lagt sérstaklega áherslu á.
    Ég endurtek svo þakklæti mitt til samnefndarmanna minna fyrir starf þeirra að þessu nál. og ég tek alveg sérstaklega fram að nefndin vann sameiginlega að þessum tillögum alveg til enda og ég lít svo á að það séu þessar pólitísku leikreglur sem gerðu það að verkum að leiðir skildu. Í heild sinni hef ég ekki orðið þess var að um sérstakan málefnaágreining væri að ræða nema að því er varðaði þetta bráðabirgðaákvæði sem ég hef sérstaklega fjallað um.