Framleiðsla og sala á búvörum

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 13:04:00 (3821)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er til 2. umr. búvörusamningurinn eða frv. til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem er til þess að samþykkja eða staðfesta þann samning sem gerður var á síðasta ári við bændur.
    Eins og fram hefur komið hjá þeim sem hér hafa talað á undan mér var efnislega ekki neinn ágreiningur milli nefndarmanna fyrr en kom að síðustu ákvæðunum til bráðabirgða sem felast í þeim brtt. sem hér hafa verið lagðar fram af meiri hluta landbn. Ég get fyllilega tekið undir það sem þeir hafa hér sagt um það mál. Ég kom inn í þessa vinnu á síðustu dögum vegna veikinda nefndarkonu Kvennalistans og fylgdist því með þessum umræðum og afgreiðslu málsins.
    Ég tek undir það sem sagt hefur verið og ég er því mjög ósammála að fresta þurfi allt að 1 / 6 hluta af launagreiðslum til bænda. Ég tel að hægt hefði verið að finna leiðir með lánum t.d., sem ríkissjóður hefði tekið og greitt vexti af, til þess að hægt hefði verið að standa við laun til bænda. Það hefur enda komið fram hjá hv. 3. þm. Austurl., formanni landbn., að hann er efnislega sammála okkur í minni hlutanum.
    Það er ákaflega einkennilega að verki staðið að ætla sér að fjármagna ríkissjóð að einhverju leyti á síðustu mánuðum þessa árs með því að halda eftir hluta af þeim launagreiðslum sem búið er að semja um við eina stétt. Að það skuli gert aðeins við eina stétt er líka nokkuð einkennilegt.
    Ég vil einnig taka fram að í þessum ákvæðum til bráðabirgða er rætt um að Framleiðnisjóður landbúnaðarins skuli bera kostnað við sölu á kindakjöti sem fellur til haustið 1992. Það er vegna ákvæða í reglugerð sem landbrh. setur vegna mismunandi niðurfærslu á greiðslumarki eftir landsvæðum. Ég er mjög ánægð með það að þetta ákvæði skuli hafa verið sett inn í lögin, þ.e. vísað er í ákvæði í 6. gr. sem er til breytingar á 3. gr. þar sem segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Landbrh. er heimilt að ákveða í reglugerð, . . .  , að niðurfærsla skuli vera mismunandi eftir landssvæðum.`` Jafnframt er heimilt að undanþiggja einstaka framleiðendur niðurfærslu að því marki sem þegar gerðir samningar við ríkissjóðs kveða á um.
    Síðan segir til áréttingar í þessum brtt. á þskj. 461, með leyfi forseta: ,,Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal bera kostnað við sölu á kindakjöti . . .  `` Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur enga möguleika á því að bera kostnað við sölu á kindakjöti sem félli til. Hann er illa á vegi staddur þar sem hann hefur ekki fengð nema helming af því framlagi sem lögin kváðu á um. Við afgreiðslu fjárlaga og bandorms var hann skertur um helming, í stað 700 millj. sem framlagið átti að vera á þessu ári fékk sjóðurinn aðeins 340 millj. Hann mun því engan veginn geta tekið á sig þetta ákvæði og það vil ég benda á.
    Að öðru leyti er ég, eins og ég sagði í upphafi, efnislega sammála þessu frv. Ég tel nauðsynlegt að það fái þinglega meðferð hér þannig að það geti tekið gildi 1. mars nk. Ég legg til að frv. fái skjótan framgang í þinginu. Við í minni hlutanum höfum skilað séráliti sem er á þskj. 466 og búið er að mæla fyrir. Við erum efnislega sammála frv. að öðru leyti en því að við erum ósammála þessu ákvæði til bráðabirgða um laun bænda sem um hefur verið getið. Meiri hluti landbn. hefur ákveðið að taka það samt sem áður með í sínum brtt. þó að greinilega hafi komið fram í máli hv. formanns landbn. að hann sé því eiginlega ekki sammála. En ég legg til að við látum frv. fá hér þinglega meðferð svo það geti tekið gildi 1. mars.