Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu 1991

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 13:46:00 (3829)

     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Þessi mál hafa verið allmikið rædd innan nefndarinnar og fyrstu hugmyndir þingmannanefndarinnar gengu út á það að þingmannanefndin sjálf væri í rauninni samskiptaaðilinn við Evrópuþingið þannig að það væri ekki verið að búa til, þrefalt eða fjórfalt batterí í kringum þessi samskipti við Evrópuþingið. Þingmannanefnd EFTA starfar að sjálfsögðu samkvæmt Stokkhólms-samningnum um EFTA og er þessi ráðgjafaraðili innan EFTA. Síðan er í EES-samningnum ákvæði um sameiginlega þingmannanefnd sem hefur ráðgefandi hlutverki að gegna innan Evrópska efnahagssvæðisins. Það náttúrlega er öllum sem um þetta hafa fjallað ljóst að það væri mikill tvíverknaður og kostnaðarauki því samfara ef það væru ekki sömu aðilarnir í þingmannanefnd EFTA og þingmannanefndum Evrópska efnahagssvæðisins. En þegar þetta var rætt kom á daginn að viss vandamál komu upp vegna mismunandi tilnefningar EFTA-þinganna í þingmannanefnd EFTA. Þannig var þetta fyrirkomulag ekkert vandamál fyrir nokkurn aðila nema Finna, en þannig háttar að utanríkismálanefnd finnska þingsins hefur tilnefnt í þingmannanefnd EFTA á meðan við höfum t.d. það fyrirkomulag að það eru þingflokkarnir sem tilnefna í okkar nefnd.
    Niðurstaðan varð sú að reiknað er með að einstök þing tilnefni beint í hina sameiginlegu þingmannanefnd EFTA en þingmannanefndin hefur lagt það til að Stokkhólms-sáttmálanum verði breytt með þeim hætti að það verði tryggt að sömu menn sitji í báðum nefndum. Síðan getur þetta verið spurning um það líka hvort þingmannanefnd EFTA er í sjálfu sér stærri heldur en hin sameiginlega nefnd. En það er ekki búið að kveða upp úr um það enn þá einfaldlega vegna þess að starfsreglur hinnar sameiginlegu nefndar, sem kveða á um fjölda nefndarmanna, hafa ekki enn þá verið samþykktar. En ég get fullvissað hv. 3. þm. Reykv. um að það er fullur vilji fyrir því að haga þessu samstarfi með eins litlum kostnaði og mikilli skilvirkni og unnt er, alla vega af hálfu þingmannanefndar EFTA.