Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 14:34:00 (3843)

     Halldór Ásgrímsson :
    Virðulegur forseti. Við höfum leyft okkur að biðja um umræðu utan dagskrár um efnahagsmál, sérstaklega með tilliti til þess að sá atvinnuvegur sem skapar okkur hvað mestar gjaldeyristekjur á við verulega erfiðleika að etja. Vaxandi atvinnuleysi er í landinu, vinnumarkaðurinn er í uppnámi, aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa margar hverjar verið til þess að skapa meira uppnám á vinnumarkaði en aðallega viljum við gagnrýna aðgerðarleysi hennar.
    Við beinum máli okkar til forsrh. þar sem mál þetta varðar alla ríkisstjórnina. Það er svo þýðingarmikið að við hljótum að biðja um svör við því hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í þessum efnum. Það er skoðun okkar að aðalmarkmið efnahagsmála um þessar mundir eigi að vera að skapa meiri atvinnu í landinu og minnka halla á viðskiptum við útlönd. Slík niðurstaða fæst ekki með samdrætti. Hún fæst ekki með því að stefna meginhluta fyrirtækjanna í landinu í gjaldþrot heldur fæst hún með því að halda framleiðslunni uppi og auka verðmætasköpunina. Það ber að hafa í huga að þrátt fyrir mikinn aflasamdrátt komu 80% útflutningstekna þjóðarinnar frá sjávarútvegi á sl. ári. Ef menn skilja ekki að það er aðalatriðið til þess að viðhalda verðmætasköpun í landinu að halda þeirri atvinnugrein í öllum megindráttum gangandi þá átta menn sig ekki á því umhverfi sem við lifum í um þessar mundir.
    Þau atriði sem við höfum gagnrýnt harðlega hjá núv. ríkisstjórn í þessu efni eru mörg og ég vil nefna nokkur. Í fyrsta lagi er það skattastefnan. Fyrirtæki, sérstaklega í sjávarútvegi, hafa verið skattlögð og hefur verið áætlað að skattahækkanir á þessa atvinnugrein nemi um 650 millj. kr. á árinu 1992. Breytt hefur verið skattlagningarreglum á arði hlutabréfa sem hefur skapað verulega óvissu í sambandi við fjárfestingu í atvinnurekstri. Við þurfum á því að halda um þessar mundir að sem flestir vilji fjárfesta í íslensku atvinnulífi, að menn séu tilbúnir að leggja eitthvað af mörkum í stað þess að hlusta á bölmóð og svartsýni og þá átti ekki að breyta þessum reglum.
    Við höfum gagnrýnt það að nú virðist ekki lengur unnið að því að fella niður aðstöðugjald sem er mjög mikilvægt mál fyrir atvinnuvegina en okkur er jafnframt ljóst að aðrir skattar þurfa að koma í staðinn. Við höfum jafnframt gagnrýnt skattastefnu ríkisstjórnarinnar gagnvart einstaklingum. Skattar hafa verið hækkaðir á einstaklingum en það hefur verið gert með þeim hætti að það hefur vakið mótmæli og uppnám á vinnumarkaði. Sérstaklega hafa skattar verið hækkaðir á barnafólki.
    Við höfum gagnrýnt vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar. Fyrsta verk hennar þegar hún kom til valda var að hækka vexti verulega og það má vera ljóst að íslenskt atvinnulíf þolir ekki þá vexti sem eru nú á íslenskum fjármagnsmarkaði. Ekki er hægt að reikna með því að nokkur atvinnuvegur geti staðið undir þessum vöxtum. Núv. ríkisstjórn hefur eins og í öðru kennt fyrri ríkisstjórn þar um en aðalatriðið er að atvinnulífið þolir ekki þessa vexti og því verður ríkisstjórnin að breyta um vaxtastefnu ef einhver árangur á að nást. Þessi vaxtastefna veldur gjaldþroti og kyrkir atvinnulífið.
    Við höfum gagnrýnt stefnuleysi ríkisstjórnarinnar í skipulagsmálum sjávarútvegsins. Þar koma fram svör sitt á hvað. Alþfl. virðist halda því fram að það eigi að taka upp veiðileyfagjald og ég vil m.a. vitna í það sem annar af formönnum þeirrar nefndar sem nú endurskoðar stefnuna í sjávarútvegi svaraði aðspurður þegar spurt var um hvort veiðileyfagjaldið væri endanlega komið út af borðinu. Svar formannsins var: Nei, veiðileyfagjaldið hefur aldreið verið út af borðinu. Er hægt að bjóða íslenskum sjávarútvegi upp á það í þeirri umræðu sem nú fer fram, jafnvel þótt það sé aðeins frá öðrum stjórnarflokknum, að til standi að leggja á veiðileyfagjald? Er það hægt þegar fulltrúar Alþfl. segja að sjávarútvegurinn geti ekki staðið undir skuldbindingum sínum, þá skuli formaður flokksins koma fram á sjónarsviðið og segja að þær 900 millj. sem nokkrir aðilar skipta á milli sín í sambandi við Aðalverktaka séu aðeins smáaurar, eins og hann sagði í Morgunblaðinu 8. febr., aðeins smáaurar í samanburði við þá 90 milljarða eða svo sem sjútvrh. úthlutar kvótahöfum í sjávarútvegi.
    Er það traustvekjandi þegar fulltrúi Alþfl. í nefndinni sem á að fjalla um þennan vanda skuli annars vegar segja að sjávarútvegurinn geti ekki staðið undir skuldbindingum sínum og þar séu trúlega tapaðir 50 milljarðar af þeim tæplega 100 milljörðum sem iðnaðurinn og útvegurinn skuldar þá sé því haldið fram að beri að innheimta af þessum sama iðnaði 90 milljarða? Hvers konar málflutningur er þetta eiginlega? Er hægt að reikna með því að einhver hafi traust á því sem verði gert í sjávarútvegsmálum? Það er grundvallaratriði að sjávarútvegurinn geti búið við fast skipulag, vissu um framtíðina þannig að þar sé hægt að hagræða með þeim hætti sem til hefur verið stofnað. Þar eru miklir möguleikar en þá möguleika er að sjálfsögðu hægt að eyðileggja með því að tala út og suður í þessu mikilvæga hagsmunamáli.
    Við gagnrýnum ríkisstjórnina fyrir svartsýni, úrræðaleysi og gjaldþrotatal. Í því sambandi hefur mikið verið vitnað til skýrslu Þjóðhagsstofnunar um ástand í sjávarútveginum og lagt út af henni með þeim hætti að 45% af greininni væru jafnvel á gjaldþrotabraut. Þar er miðað við það að þessi atvinnuvegur greiði allar sínar skuldir til baka á 8,4 árum. Menn verða að gera sér ljóst að það er ekki það sama að vera gjaldþrota og vera í greiðsluerfiðleikum. Þeir sem eiga lán hjá viðkomandi aðilum verða að gera upp við sig hvort ekki sé rétt að gefa viðkomandi atvinnugrein tækifæri til að greiða skuldirnar á lengri tíma. Ef menn ætlast til þess að þessi atvinnugrein greiði allar sínar skuldir á næsta átta og hálfu ári geta menn gengið út frá því að svo stór hluti hennar sé gjaldþrota. Það virðist vera af ummælum margra að þannig eigi að ganga fram.
    En fylgir því einhver sérstök blessun að fyrirtæki verði gjaldþrota? Er það lausn mála, þótt ég sé ekki að mæla með því að fyrirtækjum sem ekki hafa rekstrargrundvöll sé hjálpað. Hins vegar verður að meta þennan rekstrargrundvöll með tilliti til lengri framtíðar en ekki aðeins þegar til skamms tíma er litið.
    Við gagnrýnum ríkisstjórnina fyrir að vísa málinu í nefnd. Við gagnrýnum að svo alvarlegt mál sem þetta skuli ekki vera til úrlausnar á borði ríkisstjórnarinnar allrar heldur sent í hendur nefndar sem var sett á stofn til þess að móta stefnu að því er varðar fiskveiðar og almenna sjávarútvegsstefnu. Nefndin á ekki að skila af sér fyrr en síðar og ég sé ekki hvert tilefni þess er að setja alvarlegt mál sem þetta í nefnd með þessum hætti nema þá að svo mikill ágreiningur sé um málið milli stjórnarflokkanna að það hafi orðið að koma því í þessa sérstöku nefnd sem er einsdæmi að því leytinu að hún á sér tvo formenn. Annar formaður nefndarinnar hefur talað mikið að undanförnu og menn hljóta að spyrja: Er hann orðinn málsvari ríkisstjórnarinnar í þessu máli? Á þjóðin að taka alvarlega allt sem hann segir eða hvert er umboð nefndarinnar í málinu?
    Í framhaldi af þessu vil ég spyrja ríkisstjórnina nokkurra spurninga til viðbótar.
    Er ríkisstjórnin tilbúin að breyta skattastefnu sinni? Er ríkisstjórnin tilbúin að taka til baka álögur á atvinnuvegina? Ég geri mér fulla grein fyrir því að mikilvægt er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum og ég er sammála því markmiði að það þurfi að draga saman í ríkisútgjöldum. Ég vil hins vegar minna á að það sem skiptir meginmáli er viðskiptahallinn og hann verður ekki lagfærður með því að þjarma að atvinnulífinu og draga úr mætti þess. Jafnvel þótt það muni eitthvað laga stöðuna í ríkisfjármálum verður það til þess að auka viðskiptahallann og slík skattastefna er óskynsamleg. Því hljóta menn að spyrja: Hvert var tilefni þessarar álagningar? Var það fyrst og fremst til þess að þjóna einhverri kreddutrú hjá Alþfl. um auðlindaskatt og skattlagningu atvinnuveganna eða hvernig var það hugsað að leggja slík gjöld á atvinnugrein í vanda?
    Ég vil jafnframt spyrja hvað miði endurskoðun aðstöðugjaldsins sem hæstv. félmrh. upplýsti fyrir stuttu að bæri að leggja niður en fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa fram að þessu ekki tekið undir það. Hins vegar er mér ljóst að það mun koma við tekjumál sveitarfélaga og verður að skoðast í því ljósi en ekki verður hjá því komist að tekjur þeirra sveitarfélaga sem mest hafa í dag rýrni eitthvað við þær aðstæður sem menn standa nú frammi fyrir.
    Ég vil jafnframt spyrja í framhaldi af því sem ég sagði áðan um vaxtastefnuna, hvort ríkisstjórnin sé ekki tilbúin við þessar aðstæður sem nú eru að hjálpa til hvort sem það er með fortölum eða öðru því afli sem til nægir til að pressa vextina niður. Er ekki svo mikilvægt að gera það um þær mundir þegar atvinnulífinu er að blæða út? Eða halda menn að íslenskt atvinnulíf þoli það mikið lengur að bera raunvexti upp á allt að 10% og jafnvel meira? Raunvextirnir hafa vissulega lækkað nokkuð upp á síðkastið en alls ekki nægilega. Og ég minni á að í útreikningum Þjóðhagsstofnunar er enn þá gert ráð fyrir 6% raunvöxtum í öllum dæmum sem hún reiknar út en það eru lægri raunvextir en eru á markaði.
    Ég vil jafnframt spyrja hvort veiðileyfagjald sé á borði ríkisstjórnarinnar, hvort það sé rétt sem annar formaður nefndarinnar segir eða rangt?
    Ég vil jafnframt spyrja hvort ríkisstjórnin sé tilbúin að stuðla að lengingu lána, stuðla að því að atvinnuvegurinn geti greitt skuldir til baka á lengri tíma í þeirri von að fiskgengd aukist á næstu árum? Það hlýtur að vera aðalspurning hvort við getum gert okkur þær væntingar um framtíðina að slík lánalenging geti orðið til þess að atvinnugreinin lifi erfiðleikana af.
    Ríkisstjórnin hefur gagnrýnt lánalengingu sem átti sér stað í tíð síðustu ríkisstjórnar. Samt vill nú svo til að ríkisstjórnin hefur samþykkt að framlengja lán Atvinnutryggingarsjóðs án skilyrða og má segja að það sé í allmikilli mótsögn við það sem haldið hefur verið fram um lánalengingu í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hvernig getur ríkisstjórnin leyft sér að gagnrýna lánalengingar í tíð síðustu ríkisstjórnar en gera svo hið sama nú? Ég er ekki að gagnrýna núv. ríkisstjórn fyrir það. Ég er aðeins að gagnrýna málflutninginn og tvískinnunginn sem kemur fram í þessari afstöðu.
    Ég vil spyrja ríkisstjórnina og þá sérstaklega hæstv. sjútvrh. hvort það hafi verið rætt og hvort komi til greina að breyta reglum um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins við þessar aðstæður. Ég geri mér grein fyrir því að málið er vandmeðfarið því Verðjöfnunarsjóður bætir eingöngu verðfall sem verður á afurðum en tekur ekki tillit til aflaminnkunar. Hugmyndin með Verðjöfnunarsjóðnum var aldrei sú að taka tillit til slíkra atriða. En þegar aflaminnkun er mjög mikil tel ég rétt að athuga hvort Verðjöfnunarsjóður geti komið inn við ákveðin skilyrði t.d. ef aflabrestur verður svo mikill að ekki verði við neitt ráðið. Rétt er að minna á að þar eru þrátt fyrir allt til verulegir fjármunir eða um 3 milljarðar kr. Þannig er rangt sem hæstv. forsrh. segir skipti eftir skipti að allir sjóðir sjávarútvegsins hafi verið tómir. Þar að auki stendur fjárfestingarlánasjóður sjávarútvegsins mjög vel og á verulegt eigið fé og í gegnum tíðina hefur tekist að verja hann fyrir meiri háttar áföllum. Ég vil því spyrja hvort ekki sé ástæða til að endurmeta stefnuna um útflutning á ferskum fiski við þessar aðstæður þótt það gleðilega hafi gerst að þar hafi orðið verulegur samdráttur?
    Jafnframt vil ég spyrja um áætlanir ríkisstjórnarinnar að því er varðar úreldingu fiskiskipa og vinnslustöðva. Nýlega hefur komið fram í blöðum að hæstv. sjútvrh. vill láta skoða hvort ekki sé rétt að greiða fyrir úreldingu vinnslustöðva. Kemur það nokkuð á óvart vegna þess að ákveðið hafði verið að greiða fyrir úreldingu loðnuverksmiðja með þátttöku loðnuiðnaðarins en núv. ríkisstjórn féll frá þeim áformum. Í því sambandi hlýtur að þurfa að spyrja hvort standi til að taka upp leyfisveitingar til þess að mega standa í fiskvinnslu en vandinn við slíka úreldingu er einmitt sá að ekki er nein vissa fyrir því að aðrir byggi ekki upp vinnslustöðvar í staðinn. Ég geri mér því grein fyrir að um vandmeðfarið mál er að ræða en þessari spurningu hlýtur að þurfa að svara í ljósi þeirra umræðna sem hafa átt sér stað.
    Ég vil jafnframt spyrja hæstv. ríkisstjórn um gengisstefnu hennar. Hæstv. viðskrh. hefur lýst því yfir að hann telji að að taka eigi upp ECU-tengingu innan tiltekins tíma en hæstv. sjútvrh. hefur sagt að slíkt komi ekki til greina. Í þessu sambandi vil ég minna á að raungengi krónunnar er töluvert hærra en það var á árinu 1990. Ég er ekki að mæla með gengisfellingu. En menn hljóta að þurfa að halda raungenginu innan skynsamlegra marka. Eða er einhver sem getur reiknað með því að atvinnulíf landsmanna þoli hærra raungengi en á árinu 1990?
    Á árinu 1990 var allgóð afkoma í sjávarútvegi. Greinin þurfti á þeirri afkomu að halda og það þurfti að viðhalda því raungengi. Nú hefur greinin hins vegar orðið fyrir mun meiri áföllum vegna aflabrests og þá er ekki hægt að gera ráð fyrir að raungengið sé hærra en það var á árinu 1990. Auðvitað má ná fram raungengisbreytingu með ýmsum hætti en ég er þeirrar skoðunar að það sé heldur of hátt.
    Ég vil að lokum spyrja um áætlun ríkisstjórnarinnar varðandi nefnd sem hefur fengið mál þetta til umfjöllunar. Hvað mun nefndin hafa málið lengi? Hvers er að vænta í starfi hennar? Og hversu lengi er ríkisstjórnin tilbúin að bíða eftir nefndinni? Ég vil þá ítreka spurninguna um það hvort ekki sé rétt að biðja annan formann nefndarinnar að gæta sín á því að grafa sig ekki niður í of margar skotgrafir áður en vinnan hefst. En sú umræða virðist ekki boða mjög gott.
    Við í Framsfl. erum tilbúnir til samstarfs við núv. ríkisstjórn um þennan vanda. En við erum því aðeins tilbúnir til samstarfs að skapaður sé rekstrargrundvöllur fyrir heilbrigð fyrirtæki til þess að þau geti staðið við skuldbindingar sínar. Við teljum þá stefnu fráleita að ganga út frá því sem gefnu að helmingur skulda sjávarútvegsins sé tapaður. Gera menn sér grein fyrir því hvað það muni hafa í för með sér ef menn taka slíkan pól í upphafi og láta sér lynda að ganga þannig til verks? Hafa menn reynt að gera sér grein fyrir afleiðingunum? Hafa menn reynt að gera sér grein fyrir þeim félagslegu vandamálum sem upp koma, atvinnuleysi, tapi sem bankar og sjóðir, þjónustufyrirtæki og fjölmargir aðilar í landinu munu verða fyrir? Skiptir þetta engu máli? Er ekki rétt að standa þannig að málum að þessar skuldir verði að mestu leyti greiddar til baka? Eða eru menn búnir að gefast upp og ætla sér ekki að innheimta þetta? Á að ganga svo langt í því að sanna að fyrri ríkisstjórn hafi gert rangt, að menn ætli bara að segja sem svo: Þetta var tapað fé frá upphafi. Þetta var aldrei tapað fé og er ekki tapað fé enn þann dag í dag. Þá voru gerðar nauðsynlegar arðsemiskröfur til fyrirtækjanna og ég veit ekki betur en að um þær hafi verið góð samstaða í fyrri

ríkisstjórn. Fróðlegt væri að heyra hvað hæstv. viðskrh. segir um það eða hvort formaður Alþfl. í nefndinni talar fyrir hönd hans þegar hann lýsir þessum málum.
    Hins vegar er rétt að stofnaður var svokallaður Hlutafjársjóður sem lagði hlutafé í allnokkur fyrirtæki þar sem menn töldu að ef viðkomandi fyrirtæki færu yfir um, 13 fyrirtæki, þá mundu slík byggða- og félagsvandamál skapast að rétt væri að standa þannig að málum. Það eiga að vera undantekningartilvik. Í þessi fyrirtæki var lagður 1 milljarður. Inn í viðkomandi fyrirtæki kom jafnframt nýtt hlutafé frá öðrum aðilum upp á 460 millj. Skuldir voru felldar niður í þessum fyrirtækjum upp á tæpar 400 millj. Eignir úr þessum fyrirtækjum voru seldar upp á 600 millj. Skuldalækkun þeirra var þannig samtals 2,5 milljarðar. Ég ætla ekki að dæma um það hvort rétt var staðið að málum í hverju og einu tilviki. Hins vegar er alveg ljóst að ef þetta hefði ekki verið gert hefðu skapast gífurleg vandamál á viðkomandi stöðum og vel gæti verið að grípa þyrfti til einhverra ráðstafana til að koma til móts við þau vandamál. Það vill nú svo til að atvinnuleysi landsmanna skapar útgjöld hjá ríkissjóði. En sú var einmitt hugsunin sem að baki bjó réttlætingu þess að gera ýmislegt til að koma í veg fyrir þjóðarbölið atvinnuleysi og að koma í veg fyrir að ríkissjóður þyrfti að leggja út mikla peninga í því skyni.
    Virðulegur forseti. Tími minn er á enda en ég vænti þess að hæstv. forsrh., hæstv. sjútvrh. og hæstv. viðskrh. sjái sér fært að svara í nokkru því sem ég hef haft fram að færa. Fyrst og fremst til þess að skapa meiri vissu á vinnumarkaði og koma því til leiðar að grundvallaratvinnuvegur þjóðarinnar geti búið við meiri vissu um framtíð sína, sérstaklega með tilliti til þess hve mikilvægt það er að menn auki verðmætasköpun og reyni að vinna sig út úr þeim vanda sem við stöndum nú frammi fyrir.