Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 15:42:00 (3846)


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Afkoma sjávarútvegsins er í brennidepli umræðna um efnahags- og atvinnumál um þessar mundir. Hv. síðasti ræðumaður og ýmsir fleiri hafa stór orð um erfiðleikana og taka jafnvel svo djúpt í árinni að fjöldagjaldþrot blasi við verði ekki gripið til stórtækra skyndiráðstafana. Atvinnan úti um allt land byggir auðvitað á sjávarútvegi. Við verðum þess vegna að skoða slíkar fullyrðingar alvarlega. Eins og nú stendur á er allra mikilvægast að atvinna fólks sé tryggð en til þess duga enga skyndiráðstafanir, aðeins yfirvegun og þrautseigja. Hv. málshefjandi, 1. þm. Austurl., hefur rétt fyrir sér að því leyti að það er sitt hvað gjaldþrot og greiðsluerfiðleikar. En hugum fyrst að afkomunni.
    Staðreyndin er sú að sjávarútvegur hefur búið við bærilega afkomu undanfarin tvö ár. Þannig var hagnaður botnfiskveiða og vinnslu 2,5% af tekjum árið 1990 samkvæmt tölum Þjóðhagsstofnunar og áætlanir bentu til að greinin væri rekin með um 1% hagnaði við skilyrðin í síðasta septembermánuði. Það var því ekki fyrr en á þessu ári að menn sáu fram á að töluvert tap kynni að verða í þessari grein. Auðvitað greinir okkur ekki á um það að okkar bíður vandasamt verkefni til úrlausnar í sjávarútvegi á næstu missirum. En sú mynd, sem menn hafa verið að draga upp af því að við stöndum nú á barmi hengiflugs og séum í þann veginn að missa jafnvægið, er alröng.
    En í hverju birtist þá vandinn? Vandinn birtist m.a. í rekstrarhalla. Það er áætlun Þjóðhagsstofnunar að um þessar mundir sé botnfiskveiðiflotinn rekinn með 2% hagnaði af tekjum en botnfiskvinnslan aftur á móti með 8% halla. Í heild séu því veiðar og vinnsla með um 4% halla af tekjum. Þessi meðaltöl dylja þó, eins og við vitum öll, ákaflega mismunandi afkomu eftir greinum. Þannig er talið að frystitogararnir séu reknir með 11% hagnaði en söltunin með 8,5% halla. Innan hverrar greinar er svo ákaflega mismunandi afkoma frá einu fyrirtæki til annars.
    En hverjar eru rætur þessa vanda? Annars vegar stafar hann af aflasamdrætti sem er óhjákvæmilegur nú til þess að varðveita fiskstofnana. Þjóðhagsstofnun hefur slegið mati á það að aflaminnkun á síðustu þremur árum rýri afkomu veiða og vinnslu sameiginlega um nálægt 4%, þ.e. að hallann sem nú blasir við megi allan skýra með aflaminnkun. Þetta er annar þáttur vandans. Hins vegar stafar hann af því að afkastageta í veiðum og vinnslu var umfram viðfangsefni áður en afturkippur varð í aflanum, og hvað þá nú. Skuldir vegna þessarar umframafkastagetu hvíla auðvitað þungt á greininni. Þá er það öllum vel kunnugt að kvótakaup hafa tekið til sín verulegt fjármagn á síðustu missirum. Þetta nefni ég ekki síst vegna orða hv. 1. þm. Austurl. þegar hann var að ræða það hversu fráleitt það væri að tala um gjald fyrir veiðiheimildir. Sannleikurinn er sá að afar háar fjárhæðir hafa skipt um eigendur þótt eigandinn sjálfur, þjóðin, sem á að sjálfsögðu fiskimiðin og fiskstofnana í kringum landið, hafi ekki fengið eyri af þessu fé fyrr en nú í litlum mæli til að kosta bráðnauðsynlegar hafrannsóknir.
    Til viðbótar þessum vanda glímir fiskvinnslan í landi við sérstakan vanda sem fylgir breytingum á ráðstöfun aflans því vinnslan hefur misst hráefni vegna aukinnar sjófrystingar þótt úr útflutningi á óunnum fiski hafi nokkuð dregið. En það kemur fleira til en þessar magnbreytingar sem ég hef verið að lýsa. Það er nefnilega tekjuskiptingarvandamál innan sjávarútvegsins, hráefniskostnaður vinnslunnar tekur í æ ríkara mæli mið af verðþróun á uppboðsmörkuðum innan lands og utan. Meðalverð á kílói af slægðum botnfiski, seldum hér heima, hefur hækkað um 23% frá því í febrúar 1990, á þjóðarsáttartímanum. Á sama tíma hefur meðalgengi haldist óbreytt, útflutningsverð á botnfiskafurðum hækkað um rúmlega 8% en framfærslukostnaður um 13% og launavísitölurnar um nálægt 13%. Þessi þróun hefur að sjálfsögðu veikt stöðu vinnslunnar mjög og knýr á um breytingar í skipulagi sjávarútvegsins, bæði á sjó og landi, líka hvað varðar tekjuskiptingaraðferðir.
    En hugum þá að ytri skilyrðum sjávarútvegsins, markaðsverði afurða og aðfangakostnaði. Málshefjandi vék nokkuð að þessu. Sannleikurinn er sá að verðlag á sjávarafurðum hefur haldist mjög hátt um nokkurt skeið. Þannig var verðlag sjávarafurða í janúar á þessu ári að meðaltali 23% hærra mælt í erlendri mynt en það var á árinu 1989. Þetta mælir að mínu áliti ekki með útgreiðslum úr Verðjöfnunarsjóði þegar á heildina er litið.
    Lítum á gengið. Raungengi krónunnar hefur haldist viðunandi á undanförnum missirum þótt meðalgenginu, nafngenginu, hafi verið haldið stöðugu frá því í ársbyrjun 1990. Að mati Seðlabankans verður raungengið á fyrsta fjórðungi þessa árs aðeins lítillega hærra á mælikvarða verðlags en það hefur verið að meðaltali síðustu tíu ár en þó reyndar nokkru lægra en það var 1987. Ef við lítum hins vegar á hlutfallslegt verðlag og raungengi á mælikvarða launakostnaðar er raungengið tiltölulega lágt um þessar mundir og hvorki meira né minna en 20% lægra en það var árið 1988. Þetta skyldu menn hafa í huga þegar þeir ræða gengisstefnuna.
    Lítum á vextina. Víst er það rétt að innlendir vextir voru háir á árinu 1991. Nafnvextir innan lands hafa hins vegar farið ört lækkandi með hjaðnandi verðbólgu á síðustu vikum og nú hafa, eins og kunnugt er, verið stigin ákveðin skref í þá átt að lækka raunvexti auk þess sem markaðsforsendur eru greinilega að þróast í þá átt. Vegna orða hv. 1. þm. Austurl. um raunvexti og vaxtakostnað sjávarútvegsins skyldu menn líka hafa í huga að 2 / 3 hlutar skulda sjávarútvegsins eru í erlendri mynt, fylgja erlendum vaxtakjörum. Á síðasta ári fóru vextir erlendis lækkandi. Ég get nefnt sem dæmi um þá þróun að meðalvextirnir á útlánum Fiskveiðasjóðs voru 10% í byrjun ársins 1991, eru núna komnir í 8,9% og munu væntanlega enn lækka. Ég nefni það líka að að mati Seðlabankans eru raunvextir sjávarútvegsins nú lægri en þeir hafa verið sl. fimm ár og varla hærri en 4--6%. Loks nefni ég að olíukostnaður útvegsins hefur farið lækkandi á síðustu mánuðum. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun hefur hann lækkað um 5% frá árinu 1990. Af þessu sem ég hef tæpt á má ljóst vera að almenn rekstrarskilyrði eru sjávarútveginum tiltölulega hagstæð. Það sem á vantar er afli og bætt skipulag í rekstri. Við þurfum líka að samræma skattkjör atvinnuveganna því sem tíðkast í samkeppnislöndunum. Að því er unnið, m.a. hvað varðar aðstöðugjaldið.
    En hvernig er þá rétt, virðulegi forseti, að snúast við þeim vanda sem ég hef lýst? Hv. málshefjandi vék nokkuð að aðgerðunum haustið 1988 og var það að vonum. Þá var rekstrarstaða sjávarútvegsins ákaflega erfið. Við henni var brugðist með skuldbreytingum fyrir milligöngu opinberra sjóða og með hægfara leiðréttingu á gengi, enda var raungengi þá orðið úr hófi hátt. Að sumu leyti náðu þessar aðgerðir tilgangi sínum, að öðru leyti ekki. Og ég hygg að það hafi verið rétt hjá hv. málshefjanda að nefna þar Hlutafjársjóðinn meðal þess sem ekki heppnaðist sem skyldi. Þá tókst ekki heldur, og það verðum við öll að viðurkenna, að knýja fram í kjölfar þeirra aðgerða sem þá voru ákveðnar þær skipulagsbreytingar og hagræðingu í greininni sem að var stefnt. Hefði það tekist væri staða sjávarútvegsins vissulega betri um þessar mundir en raun ber vitni.
    Víkjum þá að núinu. Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til ýmissa aðgerða sem að því miða að skapa atvinnuvegunum rekstrarskilyrði. Afborgunum af lánum Atvinnutryggingarsjóðs hefur verið frestað um tvö ár eins og gert var í lok síðasta árs. Þetta var hins vegar aðeins biðleikur. Við þurfum varanlegri ráðstafanir og til að ná þeim þurfum við tíma. Þar er mikilvægast að með raunhæfum aðhaldsaðgerðum í ríkisfjármálum hefur ríkisstjórnin lagt grunn að áframhaldandi lækkun vaxta.
    Þá vil ég víkja að viðskiptamálum. Þar hefur ríkisstjórninni tekist að ljúka samningaviðræðum um aðild Íslands að Evrópsku efnahagssvæði. Tollalækkanir og tollfrelsi í Evrópu munu gefa færi á stórauknum útflutningi á ferskum flökum og fullunnum afurðum á neytendamarkaði í aðildarríkjum Evrópubandalagsins frá byrjun næsta árs. Við það mun miklu stærri hluti af verðmæti vörunnar en áður renna til íslenskra aðila. Á vettvangi GATT er einnig unnið að mjög mikilvægum verkefnum. Þótt athyglin hér hafi einkum beinst að landbúnaðarhluta þeirra samninga má það alls ekki gleymast að í þessari samningalotu á vegum GATT er einnig fjallað um markaðsaðgang fyrir aðrar afurðir, þar á meðal sjávarafurðir. Ég minni á nýafstaðnar viðræður mínar við viðskiptaráðherra Bandaríkjanna um fríverslunarsamstarf milli Íslands og Bandaríkjanna. Allar þessar viðskiptaviðræður miða að því að tryggja stöðu Íslands í viðskiptakerfi heimsins. Þar þurfum við sífellt að vera vakandi fyrir nýjum tækifærum, opna ný hlið út í heim. Hagsæld okkar sem þjóðar ræðst að mestu leyti af því hversu greiðlega okkur gengur að selja afurðir og þjónustu á erlendum markaði og þangað þurfum við að koma þeim, tryggja þeim aðgang án tolla eða annarra hindrana.
    Hverfum aftur að vanda sjávarútvegsins. Hann er nú að verulegu leyti fólginn í skipulagsvanda. Á slíkum vanda verður ekki tekið með svokölluðum hefðbundnum, venjulegum efnahagsaðgerðum. Ég bendi á að samkvæmt upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun er afar mikill munur á afkomu einstakra sjávarútvegsfyrirtækja. Það sér það hver maður að afkoma annarra fyrirtækja og greinarinnar í heild yrði mun betri ef þau lakast settu hyrfu úr rekstri. Eitt er alveg morgunljóst. Vandann sem nú blasir við má ekki og á ekki að leysa með gengisbreytingu. Með því móti væri honum aðeins slegið á frest og ekki tekið á hinu raunverulega vandamáli sem er verkefnaskortur margra fyrirtækja og skekkja í sjálfum grundvellinum. Stefnumótun ríkisstjórnarinnar í gengismálum er alveg skýr. Við viljum festa fastgengisstefnuna í sessi. Sé nauðsynlegt að þoka raungenginu eitthvað niður verður það að gerast hægt og sígandi, smám saman með minni hækkun tilkostnaðar og minni verðbólgu á Íslandi en í okkar viðskiptalöndum. Aðalatriðið er þó að hér verða að gilda sömu lögmál í þessari atvinnugrein og öðrum. Minnki verkefni fyrirtækis verður það að draga saman seglin. Við verðum að meta vandamálin af raunsæi og taka líka á þeim félagslegu og mannlegu vandamálum sem þeim fylgja af sanngirni og skynsemi. Ég nefni þar að iðnaður og þjónusta sem sjávarútvegi tengjast taka auðvitað dýfu um leið og hann. Þar get ég nefnt sem dæmi skipaiðnaðinn. Um leið og sjávarútvegurinn réttir úr kútnum, og til þess hefur hann alla burði, má búast við að hagur ýmissa iðnaðar- og þjónustugreina fari batnandi og á þann hátt breiðist jákvæð margfeldisáhrif um allt samfélagið.
    Ég nefndi áðan umframafkastagetu bæði í veiðum og vinnslu. Sú spurning vaknar eðlilega hvort ekki sé með einhverjum leiðum unnt að nýta hana að hluta. Þar má benda á úrræði eins og að efla rannsóknir og hefja veiðar á vannýttum fisktegundum, að sækja á fjarlæg mið með umframflotann og loks að útvega fisk frá öðrum löndum til vinnslu hér á landi og dreifingar héðan. Í þessu fælist fyrst og fremst viðleitni til þess að nýta þá dýrmætu þekkingu og reynslu sem fólgin er í okkar fólki, sjómönnum, fiskverkafólki og sölumönnum. Aðalatriðið er að einstaklingar og fyrirtæki í greininni séu ávallt vakandi og leiti allra leiða til að bæta afkomu sína. Aðgerðir stjórnvalda, heildarráðstafanir þeirra, mega aldrei verða til þess að draga úr sjálfsbjargarviðleitni heldur þvert á móti að greiða henni leið. Það er nauðsynlegt, eins og hér hefur komið fram í umræðunum, að huga að úreldingarvanda vinnslunnar ekki síður en veiðanna.
    Virðulegi forseti. Það hefur borið á góma í umræðunni, sem rétt er, að stjórnarflokkarnir hafa skipað nefnd til að undirbúa mótun heildstæðrar sjávarútvegsstefnu sem nái jafnt til veiða, vinnslu sem markaðsmála og, ég nefni það síðast en ekki síst, gerir það að veruleika í framkvæmd að fiskimiðin og fiskstofnanir séu sameign þjóðarinnar. Þótt þetta mikla starf hafi verið falið þessari nefnd er það að sjálfsögðu svo að ríkisstjórnin sjálf er vakandi yfir þessu verki og fylgist með því hvern dag. Við þurfum að setja skýr framtíðarmarkmið fyrir þessa mikilvægu grein í okkar þjóðarbúskap. Við þurfum að ná þjóðarsátt um leiðir til þess að ná þeim markmiðum. Þannig munu skapast góðar forsendur til að sjávarútvegurinn geti framvegis sem hingað til orðið undirstaða að framförum og góðum lífskjörum á Íslandi. Ég vona af einlægni að hv. málshefjandi og flokksmenn hans, sem hann talaði hér fyrir áðan, verði í reynd reiðubúnir til samstarfs í þessu máli eins og hann gaf fyrirheit um.