Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 15:58:00 (3847)

     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Það er ástæða til þess, virðulegi forseti, að veita andsvar vegna þess að hæstv. viðskrh. sagði að 525 millj. kr., sem teknar voru af Hagræðingarsjóði sjávarútvegsins, og var hann nánast að hrósa sér af því að þar hefði tekist að skattleggja sjávarútveginn, hefði verið varið til Hafrannsóknastofnunar. Þetta er alrangt og hæstv. viðskrh. fer hér vísvitandi með rangt mál. Þessar 525 millj. kr. fóru beinustu leið í ríkissjóð og fóru í eyðsluhítina þar. Ef menn bera saman fjárlög ársins 1991 og 1992 sést þetta svart á hvítu vegna þess að fjárveitingar til hafrannsókna aukast ekki hið minnsta.
    Einnig vék hann að vaxtaþættinum og var að gera lítið úr því að vextirnir hefðu áhrif á afkomuna í sjávarútveginum vegna þess hve greinin skuldaði mikið í erlendri mynt. Það er að vísu rétt að greinin skuldar mikið í erlendri mynt en hvert prósentustig í breytingu í vöxtum kostar þessa atvinnugrein rúmlega 300 millj. kr. samt.