Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 16:01:00 (3849)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þakka upphafsmanni þessarar utandagskrárumræðu fyrir að hefja þetta mál. Mér heyrist að umræður ætli að verða mjög málefnalegar og ég vænti þess að svo verði áfram til að hægt verði að finna leið sem menn geta hugsað sér að fara við þær aðstæður sem í þjóðfélaginu eru í dag.
    Þegar rætt er um málefni sjávarútvegsins á Íslandi erum við að ræða um grunninn undir allri okkar tilveru hér á landi. Það eru bæði gömul sannindi og ný að gangi vel í sjávarútveginum er góðæri á Íslandi og þegar illa árar kemur það fram í erfiðleikum í þjóðarbúskapnum. Við erum svo háð því og eigum svo mikið undir í þessum efnum að enginn Íslendingur ætti að láta sér það óviðkomandi.
    Hæstv. sjútvrh. hefur í umræðum hér á Alþingi komið með þær yfirlýsingar um stöðu sjávarútvegs og horfur á þessu ári að ekki verður hjá því komist að ræða það nokkru nánar. Það er verið að ræða um stefnu eða stefnuleysi ríkisstjórnarinnar. Hvort heldur sem við köllum það mun það hafa afgerandi áhrif á stöðu greinarinnar. Það verður að vísu mikið tekist á um stefnu núv. ríkisstjórnar og fyrri ríkisstjórna. En það leysir engan vanda að leita aðeins að sökudólgi. Það verður að hafa góða yfirsýn yfir gang mála án þess endilega að draga fram hverjum sé um að kenna og tæplega er hægt að finna neina eina orsök þess að málum er svo komið sem raun ber vitni.
    Skoðum dæmið aðeins nánar. Í kringum 1980 var uppgangur í sjávarútvegi. Fyrirtækin byggðu sig upp, þau fjárfestu í dýrum framkvæmdum. Það var hægt að láta aukinn afla og meira verðmæti standa undir þeim framkvæmdum. Það var talið hagkvæmara en að safna í sjóði til erfiðari ára því þá misstu menn af lestinni vegna þess að hagnaður var skattlagður svo hátt að betra var talið að koma hagnaðinum fyrir með aukinni fjárfestingu. Sú ákvörðun skattyfirvalda að fyrirtæki skyldu greiða helming hagnaðar í beina skatta auk annarra viðbótargjalda gerði það að verkum að menn söfnuðu ekki í sjóði á þessum tíma.
    Um miðjan síðasta áratug var kvótakerfið sett á. Tilgangur þess var að takmarka sóknina, minnka fiskiskipaflotann sem talinn var orðinn allt of stór og vernda fiskstofnana. En spurningin er, náðist það markmið? Svarið er hreint nei. Það náðist ekkert af þessu. Sóknin hélt áfram, fiskiskipaflotinn stækkaði í brúttólestum talið og fiskstofnarnir fóru síminnkandi þrátt fyrir aflatakmarkanir og hólfalokanir. Hins vegar byrjaði siðlaus verslun með kvóta. Menn seldu óveiddan fisk í sjó og sumir gátu rekið skip sín á því að hafa þau bundin við bryggju allt árið. Sóknin minnkaði ekki. Aflinn varð alltaf meiri en áætlað var og leyfi var fyrir. En síendurtekin skerðing á þeim kvóta sem úthlutað var í upphafi hefur gert útgerðarfyrirtækjum erfiðara fyrir að stunda hagkvæman rekstur. Það var ekki lengur hægt að auka aflann og bæta þannig stöðuna og þá byrjuðu erfiðleikarnir fyrir alvöru. Skuldir söfnuðust upp og vextir hækkuðu. Menn gátu ekki lengur greitt afborganir af lánum. Og ekki batnaði staðan þegar ríkisstjórnin sem mynduð var 1987 ákvað að taka upp fastgengisstefnu. Nú gátu sjávarútvegsfyrirtækin ekki lengur selt aflann á því verði sem kostaði að framleiða hann innan lands því að verðlagið innan lands var á fullri ferð. Verðbólgan hélt áfram þar. En Seðlabankinn skammtaði þeim gjaldeyrinn sem seldu fiskinn.
    Haustið 1988 var allt að hruni komið eins og öllum er kunnugt þegar ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar var mynduð. Sú ríkisstjórn ákvað að grípa til aðgerða með því að koma á Atvinnutryggingarsjóði og síðar Hlutafjársjóði. Við kvennalistakonur studdum hugmyndir um Hlutafjársjóð á sínum tíma. Þær hugmyndir áttu fullan rétt á sér og fóru vel af stað. Ég tel þó að á fastgengistímanum hafi verið teknir af sjávarútveginum þeir fjármunir sem hann átti rétt á. Það varð því að grípa til aðgerða til að leiðrétta það misræmi sem þarna skapaðist í gengismálunum og það var gert með lánum Atvinnutryggingarsjóðs og stofnun Hlutafjársjóðs en hann átti að bæta eiginfjárhlutfall fyrirtækjanna. Það að mörg þessara fyrirtækja eiga nú ekki fjármuni né hafa stöðu til að greiða þessi lán til baka er það ok sem þjóðarbúskapurinn verður að taka á sig vegna þess að fastgengisstefnan á árinu 1987 og 1988 var röng. Verður ekki þjóðin ævinlega að súpa seyðið af misviturlegum ákvörðunum stjórnmálamanna?
    En hvernig er þá staða þeirra fyrirtækja sem á árunum 1988 og 1989 fengu fyrirgreiðslu stjórnvalda í gegnum Atvinnutryggingarsjóð og Hlutafjársjóð? Það er spurningin í dag. Hver þeirra hafa náð sér á strik? Hver þeirra framkvæmdu þá fjárhagslegu endurskipulagningu sem var skilyrði fyrir lánveitingu? Einhver þeirra gerðu það, en hver? Við getum ekki látið meðaltalið duga. Við verðum að vita hvernig hvert og eitt fyrirtæki stendur. Hvar eru þau á landinu og er eitthvað sameiginlegt með þeim sem illa standa? Eru þau bundin við ákveðinn landshluta eða ákveðna starfsemi? Fyrst þá er hægt að leita lausnar þegar vitneskjan liggur fyrir.
    Skýrsla sú sem hæstv. sjútvrh. vitnaði til á dögunum frá Þjóðhagsstofnun þar sem rætt er um áhrif afkomubreytinga á greiðslu- og skuldastöðu fyrirtækja í sjávarútvegi er vissulega fullrar athygli verð. Það verður þó að árétta að um vinnuskjal er að ræða og jafnframt er tekið fram að hér sé mjög lausleg áætlun gerð um stöðuna. Þessi tafla gerir ráð fyrir 4% halla af tekjum af veiðum og vinnslu, sameiginlega á árinu 1992. Sambærileg tala var, eins og reyndar hefur komið fram áður, 2,5% árið 1990. Ef við tökum veiðarnar eingöngu þá eru þær reknar með 3% hagnaði 1990 en áætlunin nú gerir ráð fyrir 2% hagnaði. Togarar verði reknir með 2%, en frystiskip með 11,5% hagnaði. Bátar aftur á móti með 1,5% halla og fiskvinnslan, eins og einnig hefur komið fram, verður rekin með 8% tapi. Þessi athugun er byggð á ársreikningum fyrir árið 1990 hjá 141 fyrirtæki. Þá var staðan þannig að mismunur eigna og skulda var 9 milljarðar í plús. Fyrirtækin áttu því vel fyrir skuldum árið 1990 og í september sl. voru fyrirtækin enn rekin með 1% hagnaði þrátt fyrir háa raunvexti frá því að núv. ríkisstjórn tók við. Hún hóf feril sinn með hækkun vaxta og hleypti þannig af stað vaxtaskriðu sem nú er að fara með undirstöðuatvinnugrein okkar á heljarþröm því að fyrirtækin ganga ekki til lengdar með þessum háu vöxtum. Það verður ekki gengið til samninga hjá launþegum fyrr en vextir lækka. Heimilin í landinu standa ekki heldur undir þessu vaxtafargani. Þjóðarbúið í heild getur ekki borið slíka hávaxtastefnu.
    Sl. vor þegar ríkisstjórnin hleypti vaxtaskriðunni af stað var fullyrt að vextir mundu lækka þegar liði á árið. Strax sl. haust átti það að gerast. Ef verðbólga héldist lág mundu vextir lækka. En ekkert gerðist og lítið gerist enn. Núv. ríkisstjórn heldur sínu striki. Hún lækkar ekki vexti svo neinu nemi af skuldabréfum eða ríkisvíxlum, þrátt fyrir lága verðbólgu er það ekki gert jafnvel þó að menn viti að meðan ríkið lækkar ekki vextina, þá gera bankarnir það ekki heldur. Ég kalla það ekki lækkun þó að vaxtastigið lækki um 0,5% á margra mánaða bili.
    Heildartekjur þessara 140 fyrirtækja sem gerð var könnun hjá voru áætlaðar 57 milljarðar á árinu 1990 á sama tíma og skuldir voru sagðar 51 milljarður. Það er síðan framreiknað og sú útkoma fengin að nú stefni tvö af hverjum þremur fyrirtækjum í gjaldþrot. Endalaust er hægt að lesa upp tölur og gefa sér misjafnar forsendur til að fá upp þá útkomu sem til er ætlast. Í umræddu vinnuskjali sem hér hefur verið gert að umtalsefni segir, með leyfi forseta:
    ,,Hér hefur verið leitast við að leiða fram greiðsluvanda fyrirtækja í sjávarútvegi. Einnig er reynt að nálgast hve mikið af umsvifum í sjávarútvegi er í fyrirtækjum sem ættu enn við greiðsluvanda að etja þrátt fyrir nokkuð eðlilegar skuldbreytingar. Hér er að vísu um úrtak úr fyrirtækjum að ræða og erfitt að meta slíkan vanda til heildar. Reikna má með að úrtak úr rækju- og mjölvinnslufyrirtækjum nái nánast yfir heildina í þeim greinum en í botnfiskveiðum og vinnslu má reikna með að úrtakið sé 40%. Marga fyrirvara þarf að hafa á þessum útreikningum.``
    Það er einmitt allrar athygli vert að marga fyrirvara þarf að hafa á útreikningunum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að vissulega sé vandi fyrir hendi. Ég tel þó að hann sé ekki eins mikill og af er látið og mjög misjafn á milli fyrirtækja.
    En hvað er fram undan? Ætlum við að halda áfram að reka fiskveiðistefnu í anda þeirra kvótalaga sem nú gilda? Verður kvótasalan látin viðgangast áfram þrátt fyrir þá spillingu sem hún leiðir af sér og röskun á búsetu? Fiskstofnanirnir eru sameign þjóðarinnar, segir í 1. gr. laga um fiskveiðistjórnun en rétturinn til að veiða þá og nýta er tekinn af fólkinu sem býr í sjávarþorpum landsins. Með sama áframhaldi eiga 10--20 fjölskyldur í landinu allan kvótann þegar 21. öldin hefst.
    Þá hefur rannsóknarþættinum verið illa sinnt á undanförnum árum þar sem fjármagn til þeirra hefur verið af mjög skornum skammti. Hafrannsóknastofnun hefur að vísu gert sitt besta en þyrfti að geta gert enn betur og enn meira. Nú eru fyrirhugaðar fjölstofnarannsóknir á þessu ári. Það var sú röksemd sem notuð var við breytingu á hlutverki Hagræðingarsjóðs en samkvæmt þeim upplýsingum sem fjárln. fékk nýlega á fundi mun verða seinkun á því. Ég spyr því: Hvenær á að fara út í þessar fjölstofnarannsóknir sem eru undirstaða þess að hægt sé að taka skynsamlega fiskveiðistefnu?
    Hagfræðistofnun Háskólans hefur látið vinna skýrslu í því skyni að leggja sjálfstætt mat á verðmæti afla, arðsemi í fjárfestingum og afrakstur þeirra. Í inngangi skýrslunnar er bent á að ekki sé hægt að bera saman afkomumælingar í sjávarútvegi við hefðbundnar afkomumælingar. En er það ekki alltaf gert í of ríkum mæli? Þótt tap sé á fiskveiðum er það ekki merki um að hætta eigi við þær vegna þess að þær séu óarðbærar. Aðra mælikvarða verður að nota til að meta hagkvæmni þessarar atvinnugreinar en á henni byggist tilvera okkar Íslendinga. Ef fyrirtækin verða látin fara gjaldþrotaleiðina getum við alveg afskrifað búsetu hér, ekki bara á Vestfjörðum og Austfjörðum og ekki bara á Suðurnesjum eða Snæfellsnesi. Slóðin verður um allt land.
    Sífellt er verið að segja okkur að markaðurinn og frjáls samkeppni eigi að stjórna öllu hagkerfinu. Markaðurinn átti að sjá um lækkun vaxta á sl. hausti, það hefur bara ekki gengið eftir. Framboð og eftirspurn áttu líka að sjá um að ekki yrði um of mikla útgáfu húsbréfa að ræða. Það gekk ekki heldur. Útgáfa húsbréfa fór öll úr böndum á síðasta ári þrátt fyrir mikil afföll. Markaðurinn svaraði ekki eins og til var ætlast. Er ekki kominn tími til að viðurkenna að við verðum að lifa við blandað hagkerfi. Við erum of lítil eining til þess að geta hagað okkur eins og milljónastórþjóð.
    Því fyrr sem við fáum ríkisstjórn sem hefur til að bera heilbrigða skynsemi byggða á raunsæju mati, því betra.