Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 16:30:00 (3851)


     Matthías Bjarnason :
    Forseti. Það er mikið talað um atvinnumál og nokkuð rætt um það hverjar séu ástæður þess hvernig komið er og þá jafnvel hverjum sé um að kenna. Það hefur bryddað nokkuð á því hér að hv. stjórnarandstæðingar hafa viljað koma því ástandi yfir á þá ríkisstjórn sem nú situr og hefur verið við völd í tæpa tíu mánuði. Ég held að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því --- hér hefur mest verið rætt um offjárfestingar í sjávarútvegi og vissulega eru þær miklar og allt of miklar og liggja til þess ýmsar orsakir sem er nauðsynlegt að koma inn á --- að það eru líka offjárfestingar í landbúnaði, í verslun og iðnaði, alveg stórkostlegar umframfjárfestingar sem hafa átt sér stað á mörgum undanförnum árum, ekki á síðustu tíu mánuðum. Og ekki má gleyma offjárfestingum í virkjunarframkvæmdum. Það vantar markaðinn fyrir rafmagnið frá virkjunarframkvæmdum. Það kostar þjóðina fleiri hundruð milljóna. Farið var í þessar virkjunarframkvæmdir fyrir allmörgum árum og þetta er eitt af því sem núna dynur yfir.
    Ekki má heldur líta fram hjá því að um offjárfestingu er að ræða í húsnæðismálum. Ég veit að hæstv. félmrh. er áhugamaður um húsnæðismál og hefur viljað gera hlut þess málaflokks sem mestan. En það er bara staðreynd að það er orðið meira en fullbyggt af íbúðarhúsnæði, ekki síður víða úti á landi en hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefði ég viljað sjá enn meiri niðurskurð hjá hæstv. ríkisstjórn við afgreiðslu síðustu fjárlaga vegna þess að sú þörf er ekki lengur, sem menn hafa alltaf haldið að væri fyrir hendi. Þannig má lengi telja.
    Hvað er svo með skattalögin? Letja þau atvinnuvegina og einstaklingana til að fara í framkvæmdir? Fyrningarákvæði skattalaga, bæði í sjávarútvegi, landbúnaði og iðnaði eru með þeim hætti að það ýtir undir fjárfestingar og ríkið tapar þar verulegum fjármunum í sköttum.
    Núv. ríkisstjórn hefur komið einu góðu til leiðar. Hún hefur komið verðbólgunni niður þannig að hún hefur ekki verið minni í fleiri átatugi. Það ber að virða. Þá komum við að atvinnuvegunum og aftur að sjávarútvegi. Hér hefur verið tekin upp skömmtun til skipa hvað snertir veiðar. Það var eitt af því sem átti að draga verulega úr útþenslu í sjávarútvegi. Hefur það tekist? Togurum yfir 500 brúttólestum hefur fjölgað frá 1980 til 1990 úr 16 í 33. Ekki hefur verið minni sveifla í hestaflatölunni því að hún hefur hækkað á þessu tíu ára tímabili úr 42 þús. hestöflum í næstum því 87 þús. hestöfl. Brúttórúmlestafjöldi togara stærri en 500 tonn hefur hækkað á þessum tíu árum úr 13.200 lestum í næstum því 25 þús. lestir. Bara frá 1985--1990 hefur hann hækkað úr 16,4 þús. í tæpar 25 þús. brúttólestir. Nú er verið að færa vinnsluna meira út á sjó. Það er verið að tala um það alla daga að fækka þurfi fiskvinnslustöðvum, þær séu allt of margar í landinu. Á sama tíma heldur fiskvinnslustöðvum áfram að fjölga en ekki í landi heldur úti á sjó. Þær færast úti á sjó og vinnan færist frá ýmsum byggðarlögum út á sjó. Hvað hefur verið að gerast í sjávarútvegi? Það sem hefur verið að gerast er að það hefur orðið stórkostlegur samdráttur í veiðum. Sá samdráttur hlýtur að gera það að verkum að atvinnugrundvöllurinn er ekki sá sami víða á landinu. Samhliða samdrætti í veiðum færist vinnslan, eins og ég sagði áðan, í stórauknum mæli út á sjó og svo er stóraukinn útflutningur á fiski. Allt þetta hefur ekki verið að gerast núna á síðustu tíu mánuðum. Þessi óheillaþróun hefur verið að gerast á mörgum undanförnum árum og menn hafa ekki enn snúið sér að því sem nauðsynlegt er að gera.
    Ég ætla ekki að taka undir það sem hefur verið sagt að þær ráðstafanir sem gerðar voru af fyrri ríkisstjórn með stofnun Atvinnutryggingarsjóðs og Hlutafjársjóðs hafi orðið útgerðinni til bölvunar. Það dettur mér ekki í hug að gera. Hins vegar ætla ég að segja að um þær aðgerðir sem þurfti að gera strax 1987 var bara engin samvinna eða samstarf. Í staðinn fyrir að fara í þær aðgerðir var heilt ár látið líða þangað til gripið var til þessa ráðs. Það var of seint að gera það þá en hins vegar neita ég því ekki að fleiri hefðu gjaldþrotin orðið og það miklu fleiri ef ekki hefði verið gripið til þeirra aðgerða en það hefði þurft að gera mun fyrr. Og þá segja menn: Hverjum er um að kenna? Auðvitað er öllum flokkunum um að kenna sem sátu í ríkisstjórn og gripu ekki til slíkra aðgerða. Það þýðir ekkert fyrir neinn einn flokk að ætla að hvítþvo sig af því að hafa ekki tekið þátt í aðgerðum.

    Nú er svo komið að það er slæmt ástand víða um land, atvinnuleysi fer vaxandi. Það er vaxandi atvinnuleysi í fjölmörgum löndum. Atvinnuleysi er vaxandi í Danmörku, það er vaxandi atvinnuleysi víðast hvar í hinum vestræna heimi, að maður tali nú ekki um ógnir og erfiðleika fjær okkur. Allt gerir þetta það að verkum að við stöndum frammi fyrir miklum vanda. Þá þýðir ekki að tala um það hver hafi ekki staðið sig á liðnum árum heldur verða menn, hvort sem þeim líkar betur eða verr, hvort sem þeir eiga aðild að ríkisstjórn eða eru í andstöðu við ríkisstjórnina, að vera góðir þegnar síns þjóðfélags. Við þurfum að ná saman til að gera úrbætur, til að treysta aftur atvinnugrundvöll þjóðarinnar. Það dugar ekki að láta öll þau fyrirtæki sem nú hallast fara á hausinn, verða gjaldþrota. Gjaldþrot hefur í för með sér að aðrir tapa þegar þessi fyrirtæki líða undir lok. Hverjir eru það sem tapa á gjaldþrotum? Það eru auðvitað allir þeir sem hafa lánað til fyrirtækjanna á undanförnum árum og þá ekki síst bankarnir. Stærsti bankinn er ríkisbanki, Landsbankinn, sem er með um 70% af sjávarútveginum í viðskiptum.
    Fjölmargar þjónustustofnanir sligast við gjaldþrotið. Það er staðreynd að mikill meiri hluti sjávarútvegsins og fleiri atvinnugreinar eru of skuldsettar, fjármagnskostnaðurinn er of hár. Allir hafa talað um að lækka vexti. Fyrrv. ríkisstjórn ætlaði að nota handaflið til vaxtalækkunar. Það fór nú minna fyrir því eins og allir vita og vextir voru háir og þeir eru allt of háir enn. En nú segja menn: Það má ekki nota handaflið. Áður sagði fyrri ríkisstjórn að það ætti að nota handhaflið en notaði það aldrei. Þessi ríkisstjórn segir að ekki megi nota handaflið. Og hvort sem handaflið er notað eða ekki, þá er það nú á þann veg að vextirnir lækka þó en allt of hægt. Fjármagnseigendurnir hafa farið með hagnaðinn á kostnað atvinnuveganna og þessu verðum við að gera okkur grein fyrir.
    Það er ekki gaman núna að vera lánveitandi og hefur ekki verið á undanförnum árum. Lán til framkvæmda hafa yfirleitt farið eftir framkvæmdakostnaði. Tekið hefur verið mið af fasteignamati, brunabótamati og fleiru þess háttar. Þegar fyrirtækin fara á hausinn geta lánastofnanirnar ekki selt þessar fasteignir og fyrirtæki nema fyrir lítinn hluta af því sem þau höfðu áður lánað út. Við skulum taka dæmi eins og Ólafsvík á síðasta hausti. Svo segja menn þegar þeir eru að endurbæta eða gera einhverjar breytingar: Ósköp eru þeir slæmir þessir lánasjóðir eða bankar. Þeir vilja ekki lána okkur. Við erum ekki tekin trúanleg. Þeir eru farnir að draga fæturna. Nú eru viðbrögð margra sjóða gagnvart fjárfestingu víða úti á landsbyggðinni þannig að ekki sé nokkur leið að lána út á landsbyggðina því að mat sé orðið allt of hátt. Auðvitað er hægt að reikna skattana eftir fasteignamatinu og iðgjöld eftir brunabótamatinu en það fylgir ekki hvað þetta er í raun og veru. Meira að segja hér í Reykjavík þar sem hefur verið yfirverð til skamms tíma á brunabótamati er að verða veruleg breyting. Ég veit um hús sem seljast ekki orðið fyrir brunabótamati hérna. Það veldur öllum mönnum miklum áhyggjum.
    Ég get ekki verið sammála hæstv. iðnrh. í því sem hann sagði hér áðan að fyrirtæki sem lökust eru verði að hverfa úr rekstri. Það eru til fyrirtæki sem hafa alltaf átt lítið eigið fé en eru kannski undirstaða atvinnurekstrar í tiltölulega litlu samfélagi. Það er ekki svo auðvelt að segja: Þau skulu bara fara á hausinn og hverfa úr rekstri. Hvað á þá að gera við fólk og verðmæti sem er á þessum stöðum? Eigum við bara að segja allt í einu: Okkur kemur það ekkert við. En okkur kemur það við. Við höfum skyldum að gegna. Það er engin furða þó að fiskvinnslan sé orðin allt of stór. Við verðum að taka tillit til þess að það er ekki í fyrsta skipti núna sem verið er að skerða aflaheimildir. Það er búið að gera í mörg ár. Áður var sagt: Við verðum að hafa almennilega fiskvinnslu sem getur unnið úr okkar afla. Þess vegna er fiskvinnslan nú orðin allt of stór. Við höfum verið á fjárfestingarfylliríi í mörg ár. Það er aðeins byrjað að rofa til. Menn sjá aðeins með öðru auganum enn og mættu gjarnan fara að opna bæði.
    En hvað er til ráða? Hagræðing á öllum sviðum, fækkun á fólki í atvinnurekstri í þjónustustörfum? Allt þetta gerir það að verkum að það vantar ný atvinnutækifæri fyrir fjölmarga landsmenn. Við þurfum að vinna að því að efla íslenskan iðnað, efla framleiðsluna, fá meira út úr framleiðslunni, vinna markvisst að því og ég vona að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. forsrh. sjái að kominn er tími til þess að setja ákveðna starfsemi á fót til að efla framleiðslu, auka framleiðslugetu í ýmsum greinum atvinnulífsins og hefja stórfelldan áróður fyrir því að Íslendingar kaupi íslenska framleiðslu frekar en þá erlendu. Þannig eigum við að vinna, þannig getum við náð töluverðum árangri.