Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 16:47:00 (3852)


     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Það er býsna mikill vandi sem hér er til umræðu, vandi sem snýst ekki aðeins um hagsmuni sjávarútvegsins heldur í raun og veru stöðu efnahagsmála í okkar þjóðfélagi og afkomu allra atvinnugreina í landinu. Sjávarútvegurinn er svo viðamikill þáttur í íslensku efnahagslífi að afkoma hans hefur áhrif á alla þætti í þjóðarbúskapnum og afkomu annarra atvinnuvega og í því ljósi verður þessi umræða að fara fram.
    Menn hljóta líka að gera kröfu til þess, þegar við stöndum frammi fyrir svo alvarlegu viðfangsefni sem hér er til umræðu, að menn ræði það af fullri ábyrgð hvert er eðli þessa vanda og hverjar eru orsakir vandans sem við stöndum frammi fyrir. Hv. þm. er ekki samboðið að fara í hefðbundið hnútukast og skæklatog um þessi efni. Menn verða að ræða þau á ábyrgan hátt.
    Segja má að tvær meginástæður liggi til þess vanda sem hér er verið að fjalla um. Annars vegar langvarandi skekkja í íslensku efnahagslífi. Við höfum í tvo áratugi a.m.k. búið við viðvarandi og mjög

alvarlegan viðskiptahalla sem er ein meginorsökin fyrir því að við höfum tekið of mikla fjármuni út úr framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar og látið neysluhliðinni of mikið í té. Vissulega bera allir stjórnmálaflokkar í landinu, sem hafa meira og minna setið í ríkisstjórnum til skiptist á þessu tímabili, ábyrgð á því að þessi skekkja hefur verið látin viðgangast. En ég hygg að við ættum að geta verið sammála um að nú sé kominn tími til að taka á þessu viðfangsefni, hætta að gefa deyfilyf, hætta að framlengja með bráðabirgðaráðstöfunum frá einum tíma til annars og treysta á tímabundna happdrættisvinninga. Við verðum að taka á þessum málum með almennum aðgerðum til að laga þessa skekkju. Það er tilgangslaust að kasta hnútum hér hver í annan því að allir stjórnmálaflokkarnir bera meiri og minni ábyrgð á ástandinu.
    Annar höfuðþáttur þessa vanda er sú mikla aflaskerðing sem við höfum orðið fyrir og þurfum vitaskuld að mæta. Það er ekki svo lítið áfall þegar 8.000 millj. kr. hverfa úr útflutningstekjum á einu bretti. Það hlýtur alls staðar að hafa áhrif.
    Menn velta því fyrir sér hvort unnt sé að leysa þetta með því sem kallað er gjaldþrotaleið. Úttekt Þjóðhagsstofnunar benti til þess að þegar á árinu 1990, en hv. 7. þm. Reykn. var að tala um sjávarútvegurinn hefði skilað mjög góðum árangri á því ári, hafi tæplega helmingur fyrirtækja í sjávarútvegi ekki átt með eðlilegum hætti fyrir afborgunum og vöxtum og nú hefur enn hallað á. Þegar nálægt 60% af fyrirtækjum í sjávarútvegi eru í þeirri stöðu leysa menn ekki vandann með því að láta þann hluta sjávarútvegsins, burðarás í íslensku atvinnulífi, fara á hausinn. Það hlýtur hver einasti maður að sjá og ég hef reyndar ekki heyrt nokkurn mann halda því fram að sú leið leysti vandann. En hitt vitum við að afkastageta í veiðum og vinnslu er meiri en afrakstursgeta fiskstofnanna er. Það hlýtur að vera verkefni okkar að standa á þann veg að stjórn efnahagsmála að saman fari fjárfesting í veiðum og vinnslu og afrakstursgeta fiskstofnanna þannig að við nýtum sem best hverja krónu sem fjárfest er í atvinnutækjum sjávarútvegsins. Þannig sköpum við þjóðinni bestan arð og það þarf virkilega að taka á í því efni. Fram hjá þeim vanda getum við ekki litið.
    Ég hygg að hægt væri að skýra þessa stöðu með tiltölulega einföldum hætti. Þegar jöfnuður er í viðskiptum við útlönd geta stjórnvöld sagt við atvinnulífið: Þau fyrirtæki sem ekki standa sig við slík skilyrði hljóta að ganga fyrir ætternisstapa því að þá hlýtur eitthvað að vera að í rekstrinum. En slíkt geta menn ekki sagt fyrr en jöfnuður er kominn á í viðskiptum við útlönd, jöfnuður á milli þess sem við flytjum út og þess sem við flytjum inn. Í raun og veru ætti sjávarútvegurinn að segja við stjórnvöld á hverjum tíma: Tryggið jafnvægi í viðskiptunum við útlönd og við skulum reka sjávarútveginn og þá þurfið þið ekki að hafa áhyggjur. En það er vitaskuld hægara sagt en gert að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Það tekur tíma en það hlýtur að vera meginmarkmiðið og rekstur sjávarútvegs og annarra greina, t.d. iðnaðarins, verður ekki tryggður til frambúðar nema með þeim hætti. Það er út í hött að halda því fram að hægt sé að leysa þennan vanda endalaust með nýjum lántökum.
    Ég þykist vita að lántökurnar haustið 1988 hafi verið gerðar af góðum hug en þær leystu ekki vandann. Þær tryggðu að hægt var að halda rekstri fyrirtækjanna lengur áfram. En við sjáum það í dag þegar við erum að framlengja þessi lán enn einu sinni að þær leystu ekki rekstrarvanda sjávarútvegsins og því síður mundi viðbótarlántaka af því tagi í gegnum opinbera sjóði leysa vandann í dag. Þeir sem leggja það til eru ekki að hugsa um að létta vaxtabyrðinni af sjávarútvegsfyrirtækjunum því að vaxta- og fjármagnskostnaðurinn er ekki bara fólginn í því hvert vaxtahlutfallið er á hverjum tíma. Það er líka fólgið í því hversu mikið fjármagn fyrirtækin þurfa að taka að láni. Því meira sem þau eru knúin til að taka að láni, því meiri verður fjármagnskostnaðurinn. Menn þurfa með öðrum orðum að draga úr honum og það gera menn með því að bæta rekstrargrundvöllinn en ekki með því að bæta við lánin. Ég held að skýrsla Þjóðahagsstofnunar hljóti að sýna mönnum fram á að fyrirtækin ráða ekki við meiri lán. Ég efast meira að segja um að hægt væri að nota viðbótarlántökur sem deyfilyf í dag eins og hægt var að gera haustið 1988, m.a. vegna þess að þá fór verðlag í kjölfarið mjög hækkandi á helstu mörkuðum erlendis.
    Hv. 1. þm. Austurl. varpaði fram nokkrum spurningum til mín sem ég skal reyna að svara. Hann spurði hvort til greina kæmi að leggja á veiðileyfagjald, eins og hann nefndi í ræðu sinni, við þessar aðstæður. Í raun og veru ætti að vera óþarfi að bera spurningu af þessu tagi fram þegar hallarekstur sjávarútvegsins er með þeim hætti sem verið er að tala um. Eðlilega á sjávarútvegurinn að greiða þá skatta sem honum ber og þegar hann hagnast á hann að greiða hluta af þeim hagnaði til sameiginlegs sjóðs landsmanna. En að láta sér detta í hug við þessar aðstæður að leggja á nýja skatta á sjávarútveginn er gersamlega út í hött. Ég las í Morgunblaðinu einhvern tíma í vetur að sjávarútvegurinn gæti hæglega greitt aukna skatta vegna þess að hann væri að ráðstafa peningum í kvótakaup. Þetta er skringilegasta hagfræðikenning sem ég hef heyrt í langan tíma. Verðmæti fiskiskipa með kvóta í dag er mjög svipað og það var áður en kvótakerfið var sett á. Þessi kenning felur það í sér að ef menn hafa efni á að kaupa skip hafi þeir líka efni á að borga viðbótarskatta. Það væri álíka gáfulegt að halda því fram að af því að Morgunblaðsmenn ætla að byggja nýja Morgunblaðshöll sé tími til kominn að leggja nýjan skatt á blaðaútgáfu í landinu. Ég held að menn hljóti að gera sér grein fyrir því að þessi hagfræði er jafnfráleit og nokkuð getur verið í þeim vísindum.
    Hv. 1. þm. Austurl. spurði síðan um Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, hvort endurskoðun á honum kæmi til álita og hvort útborgun kæmi til greina úr sjóðnum við þessar aðstæður en þar er innstæða upp á u.þ.b. 3 milljarða kr. Rétt er að minna á að inngreiðslur í sjóðinn voru stöðvaðar með sértakri löggjöf fyrr á þessu þingi og nú situr sérstök nefnd að störfum undir forsæti hagstofustjóra sem er að endurskoða lög sjóðsins og hlutverk hans, m.a. með tilliti til þeirra aðstæðna sem við stöndum nú frammi fyrir. Innan ekki langs tíma er að vænta álits nefndarinnar og fyrr er ekki tímabært að kveða upp úr um það hvað gert verður í því efni.
    Þá var spurt um breytta stefnu að því er varðar útflutning á ferskum fiski. Ástæða er til að rifja upp og minna á að á síðasta ári minnkaði útflutningur á ferskum fiski mjög verulega, einkum útflutningur á þorski og ýsu, mikilvægustu tegundunum. Hitt er annað mál að það er ekki jafnarðbært að vinna karfa og þorsk og ýsu og þess vegna hefur áfram verið talsverður útflutningur á karfa. En hér hafa með öðrum orðum orðið mjög ánægjuleg umskipti og fiskvinnslan hefur fengið meira hráefni til vinnslu vegna þess að þessi breyting hefur orðið.
    Þá spurði hv. þm. hvort til greina kæmi að stofna til úreldingar í fiskvinnslu. Nefnd sem vinnur að mótun sjávarútvegsstefnu hefur greint frá því að slíkar hugmyndir séu þar til skoðunar og ég tel rétt að nefndin kanni þennan möguleika. Það er vissulega rétt að meiri vandi er þar á höndum en við úreldingu fiskiskipa, m.a. vegna þess að ég hygg að engum manni detti í hug að fara að leyfisbinda fiskvinnslu í landinu. Eigi að síður hygg ég að það sé óhjákvæmilegt við núverandi aðstæður að skoða þennan kost í ljósi þess að fjárfestingin í sjávarútvegi er meiri en afrakstursgeta fiskstofnanna. Með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á Hagræðingarsjóði og með því að nota eigið fé sjóðsins á að vera unnt að úrelda fiskiskipastólinn um 10%.
    Það hafa verið teknar ákvarðanir um skuldbreytingar sem vissulega eru ekki lausn heldur bráðabirgðaúrræði. Þær ákvarðanir sem teknar hafa verið lúta að atvinnutryggingardeild Byggðastofnunar, að fresta afborgunum um 1,5 milljarða á þessu og næsta ári og sams konar aðgerðir í Fiskveiðasjóði um að fresta afborgunum um 1,3 milljarða kr.
    Við þurfum svo að taka á ýmsum öðrum málum sjávarútvegsins eins og einstakir hv. þm. hafa hér minnst á. Það er mikilvægt að auka rannsóknir á vannýttum tegundum og þær rannsóknir hafa þegar verið hafnar eins og hv. þm. er kunnugt um. Rannsóknir á úthafskarfa eru hafnar og þarf að auka mjög verulega svo og rannsóknir á öðrum vannýttum tegundum. Við þurfum að skjóta traustari stoðum undir eldi sjávardýra og á því sviði er verið að vinna hægt og örugglega að tilteknum verkefnum, bæði að því er varðar þorskklak og mjög merkilegar tilraunir með lúðueldi eru í gangi. Við höfum verið að fjalla í þinginu í vetur um breytingar á löggjöf um löndunarrétt erlendra skipa sem hugsanlega gætu aukið þjónustuverkefni hér í landinu. Fyrir þinginu liggur frv. sem kveður á um nýjar reglur um fullvinnslu afla um borð í fiskiskipum. Það hefur borið nokkuð á góma hér í þessari umræðu. Það er mjög brýnt að taka á þeim málum og gera auknar gæðakröfur og auknar kröfur um betri nýtingu á aflanum sem unninn er um borð í fiskiskipunum og jafna um leið aðstöðumuninn milli vinnslu á sjó og í landi. Ég legg þess vegna mikla áherslu á að þingið hraði umfjöllun um það málefni.
    Ég vil svo að lokum, frú forseti, minna á að það eru einnig í gangi ýmis verkefni á vegum aflanýtingarnefndar sem miða að því að nýta auðlindina og hráefnið betur en gert hefur verið. En kjarni málsins er þó sá að allir þeir möguleikar, þar á meðal nýir markaðsmöguleikar okkar með Evrópusamningum, eru undir því komnir að þessi mikilvæga atvinnugrein fái að græða peninga og skila arði.