Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 17:44:00 (3861)

     Össur Skarphéðinsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og gjarnan er háttur hv. þm. Stefáns Guðmundssonar í andsvörum þá er hann yfirleitt að svara allt öðru en því sem hér hefur farið fram. Ég vil benda hinum ágæta þingmanni Stefáni Guðmundssyni á að lesa 3. gr. í því frv. sem sjútvrh. hefur lagt fram og fjallar m.a. um heimildir til þess að leyfa erlendum skipum að landa afla sínum á Íslandi. Þar er tekið skýrt fram að þar er heimild sem ráðherrann hefur til þess að hafna leyfum til löndunar ef um er að ræða afla sem tekinn er úr stofnum sem ekki er búið að semja um. Ég vil því í framtíðinni fara þess á leit við hv. þm. Stefán Guðmundsson að hann kynni sér málin áður en hann fer að tala fjálglega um þau hér, svo ég noti hógvært orðalag. ( StG: Það var rætt á síðasta nefndarfundi sem þú mættir ekki á.)