Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 17:45:00 (3862)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það var í senn átakanlegt og hvetjandi að hlusta á ræðu hv. 17. þm. Reykv. hér áðan því það vantaði eitt mjög tilfinnanlega í ræðuna. Hver ætlar að fjármagna alla nýsköpunina, alla þessa fiskileit, rannsóknastarfið, þróunarstarfið? Kannski þrautpínd fiskvinnslan? Áreiðanlega ekki. Ríkisstjórnin? Nei, greinilega ekki. Það dugar ekki að leita til einhvers hagræðingarsjóðs staðreynda, sé hann ekki til.
    Ég vík þá að ræðu minni. Það er oft sagt að sá sem kemur öðrum að óvörum geti stýrt umræðu. Sé það rétt, sem ýmislegt bendir til, þá hlýtur það að geta ýtt undir ómálefnalega umræðu. Það eru ekki rökin eða efnisatriðin sem ráða heldur tæknibrellur nýjustu meðlima stéttar sem mætti e.t.v. kalla taltækna í anda annarra skrípiyrða og stöðuheita sem hér hafa heyrst. Taltæknar eru vitanlega þeir sem hafa náð mestri tækni í að tala, burt séð frá því hver boðskapur þeirra er og burt séð frá því hvort óvænt tíðindi eru í raun óvænt.
    Ég nefni þetta hér að gefnu tilefni. Fyrir níu dögum ræddum við í þinginu alvarlegt atvinnuástand í landinu. Atvinnuástand sem m.a. lýsir sér í því að 8--12% kvenna á Suðurnesjum hafa gengið atvinnulaus síðan í haust. Það atvinnuleysi er ekki síst rakið til samdráttar í fiskvinnslu. Erfið staða fiskvinnslunnar er nefnilega þekkt stærð nú þegar. En þetta erfiða vandamál er hægt að leysa ef vilji er fyrir hendi, a.m.k. að verulegum hluta. Það sem hins vegar er að gerast núna er að menn eru farnir að varpa sprengjum í stað þess að leysa erfið vandamál, svo ég víki enn að talsmáta fjölmiðla. Í nefndri umræðu um atvinnuleysið varpaði hæstv. sjútvrh. t.d. þeirri fjölmiðlasprengju að tvö af hverjum þremur fyrirtækjum í sjávarútvegi stefndu hraðbyri í gjaldþrot. Öllum var kunnug erfið staða sjávarútvegsfyrirtækja. Í þeirri umræðu leyfði ég mér að benda á að með því að mála ástandið svona svart gæfi hæstv. ráðherra tóninn í þeim kjarasamningum sem eru fram undan. Ummæli hans nú áðan um eyðslu þjóðarinnar benda til þess að þetta sé á nokkrum rökum reist. Ég er ekki að gera lítið úr alvarlegu ástandi í sjávarútvegi, um það höfum við rætt ítarlega í þeim umræðum sem verið hafa á Alþingi, m.a. í þeim umræðum þar sem talað hefur verið um hvort réttlætanlegt sé að leggja nýjar álögur á sjávarútveginn eins og hæstv. ríkisstjórn hefur verið

að gera nú í vetur. Ég tala ekki um ef af auðlindaskatti Alþfl. yrði. En í þessum umræðum var ekki verið að hafa áhyggjur af greiðslugetu útgerðar eða fiskvinnslu. Kannski er þó betra seint en aldrei. Hins vegar hafna ég því að næstum tvö af hverjum þremur sjávarútvegsfyrirtækjum séu á beinni gjaldþrotabraut eins og hæstv. ráðherra kaus að nefna það, nema slíkt hafi beinlínis verið ákveðið og þá er það pólitísk ákvörðun og með fullri ábyrgð stjórnvalda.
    Sem betur fer sýnist mér, eftir að hafa lesið forsendur þessara niðurstaðna hæstv. sjútvrh., að hann máli ástandið nokkuð svartar en það er og ég hlýt auðvitað að spyrja eins og aðrir: Hvers vegna?
    Komandi kjarasamningar eru hugsanlega ástæðan og ég vil ekki líta fram hjá henni. Ef svo væri þá væri hæstv. ráðherra ekki sá eini sem nýtti sér svartar tölur í þeim tilgangi.
    En á hverju byggi ég það álit mitt að ástandið sé ekki eins slæmt og hæstv. ráðherrar vilja vera láta? --- Virðulegi forseti. Ég vona að það verði ekki dregið frá tíma mínum þótt ég bíði eftir að hér verði kyrrð, ég nenni ekki að tala meðan fólk er upptekið við eitthvað annað. Ég sé að það er hægt að halda áfram og bið um u.þ.b. hálfa mínútu í viðbót við tíma minn út á þessa töf.
    Í þeim gögnum sem hæstv. ráðherra vísaði til í ræðu sinni vega þær greinar sjávarútvegs sem verst standa, rækjan og bræðslan, nokkuð þyngra en sú grein sjávarútvegsins er skást stendur, þ.e. botnfiskveiðarnar. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar stendur, eins og fram hefur komið hér í umræðunni, með leyfi forseta, og hér les ég orðrétt:
    ,,Hér er að vísu um úrtak á fyrirtækjum að ræða og erfitt að meta slíkan vanda til heildar. Reikna má með að úrtak úr rækju- og mjölvinnslufyrirtækjum nái nánast yfir heildina í þeim greinum. Í botnfiskveiðum og vinnslu má reikna með að úrtakið sé um 40%.``
    Auk þess eru ýmsir aðrir fyrirvarar settir svo sem rakið hefur verið. Ég tek fram að spárnar virðast miðast við það að ekkert verði gert af hálfu stjórnvalda til að milda ástandið, engin kostnaðarlækkun verði, engin vaxtalækkun. Vextirnir eru nefnilega eitt af því sem gersamlega er að sliga þann hluta útgerðarinnar sem er skuldsettastur. Þarna er auðvitað ekki verið að tala um neinar rannsóknir eða framþróun, síður en svo. E.t.v. er þetta raunsætt mat hæstv. sjútvrh. á stöðunni.
    En ég ítreka það að ég sé ekki betur en hér sé ákveðin skekkja á ferð og ástandið, þótt alvarlegt sé, sé ekki það sem hæstv. sjútvrh. segir. Enda spyr ég, ef þetta væri staðreynd, hvað værum við þá yfirleitt að gera hér? Ættum við ekki bara að pakka saman og fara? Við erum verstöð norður í hafi hvort sem okkur líkar betur eða verr, verstöð sem byggir 80% af efnahagslífinu á fiskifangi. Mér blöskrar það ábyrgðarleysi að halda því fram að best sé að láta bara nógu marga fara á hausinn. Hinir geti þá skipulagt sig upp á nýtt eins og heyra má hjá þröstum og þjóðarsálum.
    Ég geri mér grein fyrir því að einhverjum gjaldþrotum verður ekki afstýrt. Einhver endurskipulagning muni eiga sér stað en sú endurskipulagning geti orðið þeim stöðum sem í hlut eiga bæði dýr og sársaukafull og því miður leiðir endurskipulagning ekki alltaf til hagræðingar eins og dæmin eftir aðgerðirnar 1988 sanna. Það ætti út af fyrir sig að vera umhugsunarefni. En hvað á að gera? Láta allt vera í anda ,,kemur-mér-ekki-við``-stefnunnar? Það væri ábyrgðarleysi. Það virðist jafnframt vera stjórnarstefna. Á að byrja á ný með sjóða- eða styrkjakerfi? Við kvennalistakonur höfum löngum varað við slíkum leiðum þótt við höfum ekki þvertekið fyrir þær. En það er komið í ljós að þær hafa ekki skilað okkur miklu fram til þessa, ekki engu en litlu miðað við það fjármagn sem hefur verið lagt til.
    Mér heyrðist raunar áðan að það væri komið með nokkuð góða hugmynd í þessa umræðu, að taka bara upp nokkurs konar byggðakvóta. Forsendurnar, sem hv. 17. þm. Reykv. gaf sér, voru ljómandi góðar, niðurstaðan að vísu kolvitlaus en ég tek viljann fyrir verkið.
    Við kvennalistakonur höfum bent á það að búa þarf atvinnulífinu sómasamlegt umhverfi. Sala kvóta landshlutanna á milli hefur því miður ekki reynst leiða til þeirrar hagræðingar sem núverandi kvótakerfi átti að skila. Ég er sannfærð um það að byggðakvóti Kvennalistans hefði skapað meiri stöðugleika og öryggi í rekstri fyrirtækja en núverandi kerfi. Þetta er meðal þess sem þarf til að geta hagrætt í alvöru. Vextir vega þungt í þessu dæmi og ábyrgð stjórnvalda á háum vöxtum er mikil. Slík hefur sókn ríkisins verið í innlent lánsfjármagn og afleiðingarnar hafa heldur ekki látið á sér standa.
    Mér finnst það skylda stjórnvalda að hafa ákveðið frumkvæði að því að lækka vexti mun myndarlegar heldur en nú hefur verið gert. Þeir eru enn allt of háir. Ég hafna þeim röksemdum, sem hafa komið fram í máli nokkurra hæstv. ráðherra, að hér séu í raun ekki svo óskaplega háir vextir og séu þeir miðaðir við einhvern tímapunkt séu þeir hér um bil bærilegir. Ég hygg að bæði fyrirtæki og einstaklingar hafi bara allt aðra sögu að segja þannig að þetta aðgerðarleysi er vítavert. Vaxtalækkun er eitt af því sem stjórnvöld hafa í hendi sér þótt þau taki ekki til við handaflið. Það er ýmislegt fleira hægt að gera og það veit þingheimur mjög vel. Kannski skortir upp á þor og vilja. Getan er til ef viljinn er til.
    Enn má nefna það að með pólitískum ákvörðunum má hafa áhrif á hvaða veiðar og vinnsla skila arði. Nú er staðan sú að frystitogarar virðast vera eina útgerðin sem skilar arði. Það er ekki aðeins fiskverð, hagræðing, fjárfestingarkostnaður og annað sem er frystitogurum í hag sem ræður afkomu mismunandi útgerðar. Meðal þess sem veldur því að frystitogararnir skila arði er minni tilkostnaður við fiskvinnsluna sjálfa um borð en hjá fiskvinnslu í landi. Það er ekki hægt að útilokað að minnka megi tilkostnað í landi með hagræðingu. Ég er alveg sannfærð um að það er hægt, t.d. með betri nýtingu fjárfestinga og e.t.v. því að taka upp lengri vinnudag með svo dýr tæki. Eitt af því sem veldur svo góðri nýtingu á tækjum um

borð er að það er verið að vinna allan sólarhringinn svo að segja. En við verðum líka að líta á hvað veldur litlum tilkostnaði úti á sjó. Sumt er ekki til fyrirmyndar. Því miður eru lýsingar á vinnuaðstæðum manna um borð oft mjög ógnvekjandi. Mikið vinnuálag og miklar vökur. Hvar skyldu vökulögin nú vera? Aðbúnaður er sjálfsagt misjafn, sem betur fer stundum góður. Og ekki er gerð sama krafa um eftirlit með fiskvinnslu á sjó og landi. Á Alþingi nú er til umræðu stjórnarfrumvarp, það er raunar til umfjöllunar í nefnd, er varðar hið síðastnefnda. Því er, að sögn hæstv. sjútvrh., beinlínis ætlað að draga úr þeirri þróun að öll fiskvinnsla flytjist út á sjó eins og væri kannski raunsæ áætlun þeirra sem ætla að fara að fjárfesta núna. Þeir færu bara út í að veðja á frystitogarana og margir hafa gert það. Hæstv. ráðherra staðfesti þetta raunar í þingræðu er hann svaraði spurningu minni þar um. Hér er um mikilvægt atriði að ræða, ekki síst vegna þess að fiskvinnsla í landi er þjóðhagslega hagkvæm þótt henni fylgi meiri tilkostnaður. Þar nefni ég t.d. að hvert starf í landi skiptir máli. Þar eru margfeldiáhrifin meiri, eins og getið hefur verið, og ekki síður skiptir það máli að fiskvinnslu á sjó fylgir yfirleitt meiri sóun því miður en á landi. Aðeins bestu bitarnir eru hirtir. Hinu er hent fyrir borð. Vonandi er að ekki komi upp aftur sú staða sem var á Faxaflóa fyrir aldamót er bátar gerðu út á svokallaðan tröllafisk, þ.e. þann fisk sem togararnir hentu. Bátarnir gerðu beinlínis út á það sem ensku togararnir hentu. Það var mikil niðurlæging og slíkt má náttúrlega ekki endurtaka sig. En maður hlýtur að spyrja þegar miklum verðmætum er hent: Hvað á að gera?
    En nóg um frystitogara í bili. Málið snýst um að skapa fiskvinnslu í landi viðunandi skilyrði og það rakti ég hér áðan og tel hægt. Fiskvinnsla í landi er atvinna og afkoma fjölda fólks bundin við hana. Hæstv. félmrh. hefur upplýst að hvert prósentustig í atvinnuleysi kosti á sjöunda hundrað milljóna kr. og atvinnuleysi er verulegt í fiskvinnslu. Það er til nokkurs að vinna að halda þessum störfum við.
    Frammi fyrir hverju stöndum við nú? Varðandi sjávarútveginn er kvíðvænlegt ef nota á erfiða stöðu í greininni til þess að knýja launafólk til örþrifasamninga, jafnvel um launalækkun eins og heyrst hefur. Stjórnvöld geta búið betur að sjávarútvegsfyrirtækjum og öðrum fyrirtækjum svo og fjölskyldum í landinu án þess að fara út í nein meiri háttar sjóða- eða styrkjakerfi. Ég hef nefnt að frumkvæði að frekari vaxtalækkun vegi þungt. Ég vil líka nefna það að ef ríkið aflaði tekna á skynsamlegan hátt, t.d. með því að skattleggja fjármagnstekjur og háar tekjur, væri e.t.v. hægt að fara út í raunhæfa aðstoð við fiskvinnslu og við útgerð í formi rannsókna og markaðsöflunar og með því að fara út í tilraunaveiðar, leita nýrra miða, leita nýrra tækifæra. Ekki vantar það að hægt sé að nýta fjármagn skynsamlega á þennan hátt því það er nefnilega þannig að sé kyrkingur í nýsköpuninni verður kyrkingur í öllu samfélaginu. Það verður að greina á milli þess að skynja hættumerki, sem nú eru vissulega á lofti, og bregðast við þeim annars vegar og hins vegar að láta þessi hættumerki verða til þess að gera jafnvel illt verra, stökkva undan, fara undan í flæmingi. Atvinnuleysi er dýrt. Vaxtaokur er dýrt því það leiðir til gjaldþrota fyrirtækja og einstaklinga. (Forseti hringir.) Nú bið ég hæstv. forseta að fá þessa hálfu mínútu sem ég þóttist hafa verið rænd hér áðan vegna hávaða og lýk þá ræðu minni.
    Það dugar ekki minna en átak til uppbyggingar í stað niðurrifs. Nóg er lagt á almenning á Íslandi með hækkun lyfja, skólagöngu og annarra nauðþurfta og minnkandi þjónustu þótt launalækkun og atvinnuleysi fylgi ekki líka. Ég gat þess í upphafi máls míns að fleiri en ég litu á svarta skýrslu í sjávarútvegi sem þvingunarbragð í komandi kjarasamningum. Mig langar í lokin að vitna til ummæla Óskars Vigfússonar hjá Sjómannasambandinu og Guðmundar J. Guðmundssonar hjá Dagsbrún í fjölmiðlun. Þeir segja að slík stefna leiði ekki til annars en harðra átaka á vinnumarkaðnum. Fólk muni ekki láta setja sér afarkosti. Erfiðleikarnir eru miklir en þeir eru yfirstíganlegir en til þess að yfirstíga þá þarf vilja stjórnvalda og atvinnurekenda og því miður heyrist mér að hann sé ekki endilega fyrir hendi.