Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 18:54:00 (3875)


     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Það er svo sannarlega þörf á því að ræða stöðu sjávarútvegsins um þessar mundir í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafa komið, bæði í þessum umræðum og ekki síður í umræðum um atvinnumál sem fóru fram fyrir nokkrum dögum.
    Rekstrarvandi sjávarútvegsins og þau skilyrði sem sjávarútvegurinn á við að búa og móta framtíð hans er allt saman samofið. Það er ekki nema rúmlega ár síðan við samþykktum nýja löggjöf um stjórn sjávarútvegsmála. Í þeirri löggjöf voru veigamiklar breytingar frá fyrri löggjöf og við erum búnir að reka sjávarútveginn samkvæmt þessum nýju skilyrðum í eitt ár. Það er kannski ekki síst fyrir það að óvissa og uggur ríkir í þessari grein að það er alls ekki ljóst hvaða stefnu ríkisstjórnin hyggst taka varðandi stjórn sjávarútvegsmála og þau skilyrði sem sjávarútvegurinn á að búa við í framtíðinni. Erfiðleikar hafa að sjálfsögðu alltaf verið í sjávarútveginum, atvinnugreinin er þannig. Það skortir oft á það þegar vandamál sjávarútvegsins eru rædd að dregið sé fram í dagsljósið sem skyldi að þetta er sveiflukenndur atvinnuvegur. Hann er það og verður það. Það vita auðvitað allir. Hæstv. viðskrh. sagði áðan að skilyrði sjávarútvegsins væru býsna góð. Það vantaði ekkert nema aflann til þess að þetta væri allt í lagi. Það verður lengi svo. Það hefur verið mikið aflaleysi undanfarið og það hefur verið meira en aflaleysi, það hefur verið gæftaleysi líka. Menn hafa ekki komist á sjó langtímunum saman. Þetta vantar æ oftar þegar ýmsir spekingar eru að ræða málefni sjávarútvegsins, að þeir taki það með í reikninginn að sjávarútvegurinn er og verður sveiflukenndur atvinnuvegur. Við slíkan atvinnuveg duga ekki alltaf hefðbundin úrræði sem falla að hagkerfi nágrannalandanna eins og er svo vinsælt að vitna í. Það er talað um að ekki megi undir neinun kringumstæðum framkvæma sértækar aðgerðir. Við slíkan atvinnuveg, eins og sjávarútveginn, þarf stundum sértækar aðgerðir og það verða stjórnvöld á hverjum tíma að viðurkenna. Ég ætla að sjálfsögðu ekki að halda því fram að allir erfiðleikar sjávarútvegsins séu núverandi ríkisstjórn að kenna eða megi rekja til hennar. Það er langt í frá. Við höfum barist við þessa erfiðleika í áraraðir og þeir erfiðleikar eru ekki síst vegna þess að það hefur orðið að skera niður aflaheimildir, og ég er vissulega sammála því að við getum ekki tekið áhættu í þeim efnum, og það bregðast heilu vertíðirnar í fiskstofnun sem hafa gefið okkur milljarða í tekjur. Þetta finnst mér að verði að taka oftar með í reikninginn í opinberri umræðu.
    Hinu vil ég einnig víkja fáeinum orðum að, af því að það hefur mikil áhrif á vandann í atvinnugreininni, hvaða skipulag menn eigi að búa við í veiðunum í framtíðinni. Það var óljóst fyrir kosningar hvaða stefnu Sjálfstfl. tæki í þessum efnum og Alþfl. talaði ekki eins mikið um veiðileyfagjald fyrir kosningar eins og nú og þó var það frekar að sú skoðun kæmi fram. Síðan eru þessi mál sett í nefnd, eins og fram hefur komið, og sú nefnd á að gera meira en að ákveða fiskveiðistjórnunina. Hún á að taka til meðferðar öll önnur rekstrarvandamál. Þessi nefnd er dálítið einkennilega til komin, eins og hefur verið rakið. Vegna ósamkomulags í stjórnarflokkunum var ekki samkomulag um það að sjútvrh. gæti skipað formann, eins og hefði auðvitað verið eðlilegt. Ég man ekki betur en að til stæði að hv. 5. þm. Norðurl. v. yrði formaður þessarar nefndar, sem ég tel að hann hafi alveg haft burði til, en vegna ósamkomulags við Alþfl. þurfti að skipa tvo formenn yfir nefndina. M.a. er ein ástæðan fyrir þessari umræðu að annar formaðurinn er farinn að tala út um borg og bý um að það þurfi að fara svokallaða gjaldþrotaleið í sjávarútveginum. Allt þetta vekur mikla óvissu og ugg í sjávarútveginum.
    Þær ræður sem hér hafa verið haldnar af hæstv. ráðherrum og hv. stjórnarliðum hafa ekki eytt þessum ugg og það er dálítið merkilegt að sjá forustugrein öflugasta málgagns ríkisstjórnarinnar, Morgunblaðsins, í gær því að þeir á Mogganum hafa barist fyrir annarri stefnu í fiskveiðimálum en a.m.k. hæstv. sjútvrh. Hann skaut myndarlega á þá í ræðu sinni áðan. Þeir eru búnir að fá nýjan bandamann þar, að því er þeir telja og eru þeir í leiðara sínum í fyrradag að skipa liði upp á nýtt, í því að koma á veiðileyfagjaldi eða auðlindaskatti. Þeir telja sig hafa fengið nýjan liðsmann, bara heilan flokk til liðs við sig í þeim málum, og það er Alþb., og vitna í ályktun miðstjórnarfundar Alþb. í því sambandi. Þeir segja svo, með leyfi forseta, í umræddum leiðara: ,,Hin pólitíska staða sýnist því vera sú, eftir að miðstjórn Alþb. samþykkti ályktun sína, að Framsfl. er eini stjórnmálaflokkurinn sem í heild rígheldur í kvótakerfið. Auðvitað eru innan Sjálfstfl. sterk öfl sem vilja viðhalda kvótakerfinu og þau njóta forustu Þorsteins Pálssonar sjútvrh. Sú staðreynd blasir hins vegar við að umfjöllun formanns og varaformanns flokksins er á allt annan veg.`` Þarna er búið að skipa liði. Svo segir áfram, með leyfi forseta:
    ,,Það er því tæpast ofmælt að segja að það sé vaxandi pólitískur stuðningur við þá fiskveiðistefnu að undirstrika í reynd lagaákvæðið um sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum. Í því ljósi verður að telja samþykkt miðstjórnar Alþb. bæði markverð pólitísk tíðindi og sérstakt fagnaðarefni.``
    Hér segir einnig: ,,Nú starfar sérstök nefnd á vegum stjórnarflokkanna að endurskoðun laganna um fiskveiðistjórnun. Starf þessarar nefndar á eftir að verða mjög til umræðu þegar líður á árið. Hins vegar hafa stjórnmálamenn, þar á meðal alþingismenn, lítið fjallað um þessi veigamiklu mál á undanförnum mánuðum. Æskilegt er að þeir láti meira að sér kveða í þessum umræðum á næstunni og ekki síst er nauðsynlegt að fram fari víðtækar umræður um málið á vettvangi Sjálfstfl. til þess að auðvelda flokksmönnum að gera upp hug sinn.``
    Mat Morgunblaðsins er það að kominn sé tími til að ræða starf þessarar nefndar þegar líður á árið og nauðsynlegt sé að taka upp umræður á vettvangi Sjálfstfl. til að reyna að móta stefnuna í sjávarútvegsmálum. Er nú furða þó að þeir sem að þessum málum vinna, berjast í þeim á vettvangi við ýmsar aðstæður og sveiflur og erfiðleika, séu ekkert bjartsýnir og það sé uggur í brjósti yfir þessari forustu? Er þetta mat Morgunblaðsins rétt? Ég vil beina þeirri fyrirspurn t.d. til hæstv. forsrh. sem ber ábyrgð á stjórnarstefnunni og efnahagsstefnunni. Hvenær mun þessi nefnd skila frá sér áliti um þá erfiðleika sem sjávarútvegurinn býr við núna? Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. sjútvrh. Er það þegar líður á þetta ár að tímabært verði að fara að hafa einhver skoðanaskipti í þessum efnum? Eða hvað er fram undan í þessari

grein?
    Ég verð að segja það eins og er að hæstv. sjútvrh. hefur tekið af skarið um það í þessari umræðu að hann er ekki fylgjandi auðlindaskatti. Hins vegar er það mat t.d. Morgunblaðsins og ég er sammála því. Ýmsar yfirlýsingar hafa fallið í þá átt að formaður og varaformaður Sjálfstfl., sem ráða ferðinni í þessum málum, séu á annarri skoðun.
    Ég held að óhjákvæmilegt sé að þessi mál blandist inn í þessa umræðu þó að hér sé til umræðu afkoma sjávarútvegsins því auðvitað hefur það mikil áhrif á vilja þeirra sem starfa í sjávarútveginum til hagræðingar að vita hvað framtíðin ber í skauti sínu. Búa þeir við svipuð skilyrði eða þurfa þeir innan tíðar að fara að borga fyrir þau fiskveiðiréttindi sem þeir hafa núna? Það er alveg óhjákvæmilegt að inn í þessa umræðu komi yfirlýsingar um það frá formanni Sjálfstfl. hvort meiningin sé að flokkurinn taki upp þá stefnu að koma á veiðileyfagjaldi í sjávarútvegi. Þær yfirlýsingar sem hafa gengið frá formanni Alþfl. í þessu efni fyrr í vetur, í umræðum hér á Alþingi, eru öllum í fersku minni. Hann sagði að sala á veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs væri fyrsta skrefið að nýju veiðileyfagjaldi í sjávarútvegi. ( Gripið fram í: Veiðileyfakerfi.) Veiðileyfakerfi í sjávarútvegi. Ég þakka leiðréttinguna, en meiningin er nokkuð svipuð.
    Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég tel að fá svör hafi komið við þessa umræðu, hún hafi lítið róað þá sem vinna að þessum atvinnuvegi, og þau svör sem gefin hafa verið hér í dag hafi litla framtíðarsýn gefið.