Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 19:09:00 (3876)

     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að mótmæla skilningi hv. síðasta ræðumanns á því sem hann las út úr forustugrein í Morgunblaðinu frá því í gær. Það sem stendur í þessari forystugrein er þetta, með leyfi forseta: ,,Það er því tæpast ofmælt að segja að vaxandi pólitískur stuðningur sé við þá fiskveiðistefnu að undirstrika í reynd lagaákvæðið um sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum.``
    Samkvæmt mínum skilningi þýðir það ekki að þó að einhver flokkur, eins og Alþb., vilji að þetta ákvæði verði að veruleika að hann vilji koma á veiðileyfasölu. Við teljum að aðrir möguleikar séu til þess að gera sameignarákvæðið virkt og við höfum sett okkur ákveðinn ramma til þess að fara eftir við endurskoðun fiskveiðistefnunnar sem miðar að því.