Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 19:10:00 (3877)


     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held því miður að hv. 3. þm. Vesturl. hafi ekki lesið Morgunblaðið nógu vel á undanförnum árum. Ég tel mig hafa lesið það nógu vel til að vita að það sem Morgunblaðið kallar að undirstrika lagaákvæði um sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum felur í sér að leggja á veiðileyfagjald. Ég sagði ekkert í ræðu minni um að Alþb. vildi leggja á veiðileyfagjald, ég lagði ekki þann skilning í ályktun þeirra. Hins vegar komast þeir auðvitað ekki hjá því frekar en aðrir að útskýra með hverjum hætti þeir ætla að undirstrika sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum frekar en nú er gert því sannleikurinn er sá að þjóðin á þessi fiskimið og nýtur afraksturs af þeim þótt óbeint sé.