Staða sjávarútvegsins

91. fundur
Fimmtudaginn 27. febrúar 1992, kl. 19:47:00 (3882)



     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Mig langar fyrst til þess að segja að mér fannst alveg óþarfi af hv. þm. Vilhjálmi Egilssyni að svara skemmtilegu hugmyndaflugi 17. þm. Reykv. með því að kalla það fiskeldisbjartsýni. Ég held að svona hugmyndaflug eigi alltaf rétt á sér og menn eigi alltaf að vera að hugsa um nýjungar og nýja atvinnumöguleika í sjávarútveginum og svo sem einnig í öllum öðrum atvinnugreinum. Mér fannst það sem hann nefndi vera áhugaverðir hlutir. Ég hef reyndar heyrt flest af því áður og ég tel að við eigum að sinna því.
    Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson talaði um að sveitarfélögin ættu ekki að koma inn í útgerðarfyrirtækin á landinu. Honum fyndist það vera óheillaþróun sem væri farið að örla þar á. Ég er alveg sammála því að sveitarfélögin eiga ekki að standa í atvinnurekstri nema þau megi til og ég er sannfærður um að ekki fyrirfinnast mörg sveitarfélög í landinu sem hafa lent út í atvinnurekstri nema af neyðarástæðum. Ég er óskaplega hræddur um að þær neyðarástæður kunni að verða fyrir hendi víða um land á næstunni ef menn gá ekki að sér og þá munu sveitarfélögin auðvitað taka þátt í því að bjarga fólki frá atvinnuleysi á stöðunum allt í kringum landið.
    Hann hafði líka áhyggjur af því sem hann kallaði að sjávarútvegurinn væri eins og holdsveikrasjúklingur í íslenskum hlutabréfamarkaði vegna þess að útlendingar mega ekki eiga í sjávarútvegsfyrirtækjunum. Ég held að menn verði að gá að sér þarna. Að vísu lítur þetta sakleysislega út að einhver erlendur aðili eigi hlut í olíufélagi sem aftur á móti á svo hlut í sjávarútvegsfyrirtæki. En hvar ætla menn að stöðva sig af? Hvar ætla menn að draga línuna ef þetta verður leyft? Hvernig ætla menn þá að sjá til þess að útlendir aðilar kaupi sig ekki inn í fiskveiðarnar og útgerðina? Ég tel að það sé ekki hægt og ég held að við verðum að fylgja þessum hlutum eftir þótt erfitt verði.
    Eitt enn nefndi hv. þm. Vilhjálmur Egilsson sem ég vil hér gera að umræðuefni og hann orðaði það á þessa leið: Er ekki best að vera án samninga fram á haustið? Mig langar að spyrja hæstv. forsrh. hvort þetta sé stefna ríkisstjórnarinnar. Það sé kannski best að vera án samninga fram á haustið. Ég tel nefnilega að það sé þá ástæða til þess að það komi skýrt fram. Ég held að verkalýðsfélögin í landinu, öll launþegasamtökin þurfi að fá svör við slíkri spurningu þegar þingmaður úr liði stjórnarflokkanna, þungavigtarmaður úr efnahagspekúlantanefnd Sjálfstfl., segir á Alþingi: Ætli það sé bara ekki best að vera samningslaus fram á haustið? Mig langar að fá svar við þessum spurningum.
    Hv. síðasti ræðumaður talaði um úreldingu fiskvinnslustöðva. Ég set spurningamerki við hugmyndir um úreldingu fiskvinnslustöðva og reyndar skipa líka að því leyti til að ég tel að svona úreldingar eigi að vera á hendi atvinnugreinarinnar með frjálsum hætti. Ég held að við séum komin út á alvarlega braut í sambandi við þessa hluti, þ.e. við erum að skammta mönnum atvinnuréttindi í greinunum. Við látum menn hafa einkarétt til atvinnu með því að koma á svona úreldingarfyrirkomulagi nema því aðeins að það sé þá opið að menn geti stofnað ný fyrirtæki. Þetta er mjög erfitt og vandsiglt mál og ég tel að út af fyrir sig

sé hægt að hugsa sér úreldingu þótt það sé opið fyrir nýja aðila inn í greinina. En menn verða þá að horfast í augu við að ný fyrirtæki kynnu að spretta upp í staðinn fyrir þau sem keypt eru út á úrelt. En auðvitað er ætlast til að fjárhagslegur grundvöllur sé fyrir nýjum fyrirtækjum og þau hafi þá upp á að bjóða einhvers konar betri vinnslutækni eða betri rekstur en þau sem falla út. En menn verða að hugsa sig mjög vel um ef halda á áfram á þeirri braut að búa til einhvers konar stokk af aðilum sem hafa leyfi til að vera með fyrirtæki í greinunum og ég vara við því og bendi á að þar verða menn að sigla þannig að frelsi sé sem mest í atvinnugreinum á Íslandi.
    Kannski var aðalástæðan fyrir því að ég kom í ræðustól sú að til umræðu hefur verið stefna Alþb. í stjórn fiskveiða. Þar hafa menn ekki verið sammála frekar en á öðrum bæjum um hvernig fara ætti að. Hér var gerð að umræðuefni í kvöld forustugrein í Morgunblaðinu þar sem er nánast verið að fagna því að Alþb. sé komið með einhverja stefnu í sjávarútvegsmálum og í sjálfu sér má kannski fagna því að Alþb. hefur fetað sig af stað til að endurskoða sína afstöðu til þess hvernig eigi að stjórna sjávarútvegsmálum í landinu og ég tel að Alþb. hafi farið rétt af stað þar. En ég vil útskýra aðeins nánar hvað við eigum þar við. Í þessari stjórnmálaályktun frá miðstjórnarfundinum var eingöngu sagt eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Jafnframt þarf að skapast samstaða um nýja stefnu í sjávarútvegsmálum. Þar verða stjórnvöld að horfast í augu við þróun undangenginna missira þar sem rekstrarumhverfi hefur breyst til hins verra, ekki síst með stórhækkun vaxta. Komið hefur skýrar í ljós að stefnan í sjávarútvegsmálum fullnægir ekki eðlilegum kröfum um arðsemi fyrirtækja, vöxt og viðgang fiskstofna. Vextir verða að lækka verulega og endurskipulagning verður að eiga sér stað.``
    Þetta var allt og sumt og þótti a.m.k. mér ekki mikið. Ég vil aftur á móti benda á að á landsfundi Alþb. í haust setti flokkurinn sér ákveðinn ramma sem hann vill fara eftir við endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Þar eru sex aðalatriði sem við urðum sammála um og viljum fara eftir við þessa endurskoðun. Þar segir eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Til að fyrirhuguð endurskoðun byggi á almannahag og sæmileg sátt geti náðst um hana þarf hún að hafa m.a. að leiðarljósi:
    1. Að tryggður verði til frambúðar óumdeilanlegur eignarréttur þjóðarheildarinnar á auðlindum íslensks hafsvæðis.
    2. Að stjórnkerfi fiskveiða stuðli að því að bæta meðferð afla, vernda smáfisk, verja lífríki í sjónum fyrir óheppilegum áhrifum veiðiaðferða.
    3. Að réttlætis verði gætt gagnvart byggðarlögum, sjómönnum, fiskvinnslufólki og útgerðaraðilum.
    4. Að komið verði í veg fyrir að fiski verði hent í sjóinn.
    5. Að stjórnkerfi fiskveiðanna feli í sér hvata til hagræðingar í fiskveiðum.
    6. Að stuðlað verði að nýsköpum og eðlilegum aðgangi nýrra aðila að sjávarútvegi.``
    Þetta voru þau sex atriði sem Alþb. samþykkti á sínum landsfundi að ættu að vera eins konar leiðarvísar fyrir nýja fiskveiðistefnu, skilyrði sem menn reyndu að stefna að að uppfylla. Það hefur ekki tekist að uppfylla þessi skilyrði með því kerfi sem nú er í gangi. Ég tel að allir stjórnmálaflokkar í landinu verði að sameinast um það að fara yfir málin með það fyrir augum að uppfylla ámóta skilyrði og við setjum fram. Það kann vel að vera að menn hafi mismunandi áherslur en ég held að stærstu atriðin muni leiða menn saman að lokum og þar er stærsta atriðið, og ég endurtek það vegna þess sem kom fram fyrr á fundinum, stærsta atriðið er að við viljum tryggður verði til frambúðar óumdeilanlegur eignarréttur þjóðarheildarinnar á auðlindum íslenska hafsvæðisins. Það er ekki hægt með því kerfi sem er í gangi núna nema breyta því með einhverjum hætti og þeir sem vilja viðhalda því hafa ekki getað bent á leið til þess enn í dag. Við eigum kannski eftir að sjá þær tillögur og þá skoðum við þær. En það er ekki hægt að halda því fram, eins og menn hafa reyndar gert, að íslenska þjóðin eigi auðlind sem þegnarnir hver og einn geta gengið um og selt hver öðrum. Það gengur ekki upp. Menn verða að finna aðrar leiðir.