Framleiðsla og sala á búvörum

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 11:11:00 (3893)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Í því frv. sem hér er fjallað um er tekið fram hvernig heildargreiðslumark skuli ákveðið og hvaða aðferðum skuli síðan beitt með því að deila því niður á einstakar jarðir. Það er jafnframt tekið fram að greiðslumark skuli bundið við lögbýli en á hinn bóginn er einnig heimilt að ábúendur á lögbýlum geti keypt framleiðslurétt sem skuli skráður á lögbýlið en vera hans eign en eigandi jarðar að vísu hafa forkaupsrétt á, þannig að í þessu frv. er gert ráð fyrir því að kveða á um það í lögum hvernig farið skuli með greiðslumark í framtíðinni og framleiðsluréttinn þar með.
    Á hinn bóginn liggur það alveg ljóst fyrir að þessi lög sem hér eru geta ekki kveðið upp úr um það eftir á hvernig farið skuli með eignarrétt á framleiðslurétti í fortíðinni. Ef ágreiningur kemur upp um það hvort hann tilheyri eigendum eða leigjendum er það álitamál sem óhjákvæmilegt er að reka fyrir dómstólum en verður ekki kveðið upp úr með lögum á Alþingi eftir á því að þar komum við einmitt inn á eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og ég skal ekkert fyrir fram fortaka að til málaferla kunni að koma af þeim sökum.
    Ég kannast ekki við það sem hv. þm. sagði um það að tekin hafi verið ákvörðun í landbrn. um að ábúendur á jörðum fengju greiðslur fyrir fullvirðisrétt ef svo stendur á að ábúendur séu þar á öndverðu máli við jarðareigendur. Þetta er nokkuð sem ég kannast ekki við og hlýtur að vera byggt á misskilningi.