Skaðabótalög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 11:48:00 (3901)

     Björn Bjarnason :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. dómsmrh. fyrir að leggja þetta frv. hér fram og fyrir framgöngu hans í þessu máli. Það kom fram í máli hans að það var á sl. sumri sem hann tók frumkvæði í því að lög yrðu sett um ákvæði um skaðabótaskyldu með þeim hætti sem liggur fyrir í þessu frv. Ég tel að það sé tímabært hér á landi eins og annars staðar að festa í lög þessar reglur um skaðabótaskylduna og hvernig að greiðslu bóta skuli staðið. Ég tel þess vegna að þetta frv. sé ákaflega merkilegt varðandi framvindu réttarfars í landinu og varðandi stöðu borgaranna í þeim málum sem hér er um að ræða.
    Eins og kom fram í máli hæstv. dómsmrh. hefur þessi málaflokkur verið alfarið á sviði dómara, meðferð skaðabótamála hefur verið í höndum dómara og á vegum dómstólanna og fyrir dómvenju hafa skapast ákveðnar reglur. En í frv. er gert ráð fyrir því að horfið verði frá þeirri meginreglu sem hér hefur ríkt, þ.e. það verði horfið frá svokölluðu læknisfræðilegu örorkumati í skaðabótamálum og í stað þess verði tekið upp svonefnt fjárhagslegt eða félagslegt örorkumat. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vísa á bls. 11 í grg. með frv. þar sem segir: ,,Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatstöflur þar sem ýmsar tegundir líkamsspjalla eru metnar til örorkustigs í hundraðshlutum. Í hreinu læknisfræðilegu mati felst að sams konar áverkar (eða eftir atvikum geðrænt tjón) eru metnir til sama hundraðshluta, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola og án þess að líta til þess hver áhrif örorkan hefur á getu hans til að afla vinnutekna. Við fjárhagslegt örorkumat er hins vegar leitast við að meta til örorkustigs þau áhrif sem líkamsmeiðsli (eða geðrænt tjón) hafa á fjárhag eða nánar tiltekið hæfi hans til að afla tekna með vinnu.``
    Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta, á bls. 12:
    ,,Hér á landi hefur lengi verið rætt um að æskilegt væri að hverfa frá læknisfræðilegu örorkumati í skaðabótamálum, en dómvenja hefur ekki breyst í þessu efni, enda má telja eðlilegt að svo veigamikil breyting verði gerð með lagasetningu. Rök með breytingu í þessa átt eru m.a. þau að töflur, sem notaðar eru við læknisfræðilegt örorkumat, miðist um of við áhrif líkamsspjalla á vinnugetu manna sem vinna erfiðisvinnu.``
    Og enn segir um þetta mál, þessa miklu breytingu sem í þessu felst: ,,Breyting á réttarreglum á þessa lund leysir þó að sjálfsögðu ekki allan þann vanda sem er samfara því að meta til fjár tjón af völdum skerðingar á vinnugetu á ókomnum árum eða áratugum.``
    Ég tek undir þessa meginstefnu í frv. að með því að leggja til grundvallar þessa nýju reglu, þ.e. fjárhagslegt örorkumat í staðinn fyrir læknisfræðilegt örorkumat, þá sé verið að nálgast þá meginstefnu sem á að ráða við uppgjör í skaðabótamálum, að það sé verið að gera upp eins og frekast er kostur hið raunverulega tjón. Það sé verið að bæta mönnum tjónið með fjárgreiðslum og mat á tjóninu sé nálgast með þeim hætti að hið raunverulega tjón sé bætt. Þetta tel ég að sé ákaflega mikilvægur liður í þessu nýja frv. að þessi regla skuli upp tekin og hún þjóni hagsmunum þeirra sem fyrir tjóni verða, en mér finnst að löggjöf um þetta efni eigi einmitt að tryggja rétt tjónþola sem best.
    Það er athyglisvert að þegar um þessi mál er rætt má segja að það sé í sjálfu sér enginn varnaraðili fyrir tjónþola. Enginn veit hver á eftir að verða fyrir tjóni eða hver á eftir að bíða skaða. Hins vegar er ljóst hverjir þurfi um málið að fjalla og hverjir þurfi að borga tjónið. Það eru þá annars vegar skaðvaldurinn, tryggingafélög, og þeir sem um málið hafa fjallað hingað til hafa verið dómarar og dómstólar. Með frv. er leitast við að koma til móts við þessa aðila einnig og það er gert með hinum stöðluðu reglum. Það er alveg ljóst að fyrir dómara er þetta frv. kjörið vinnutæki, það auðveldar þeim störfin, það leggur þeim reglur í hendur sem munu mjög auðvelda þeim að komast að niðurstöðu í skaðabótamálum. Hins vegar verður einnig auðveldara fyrir tryggingafélögin að átta sig á ýmsum meginþáttum í þessum málum með hinum stöðluðu reglum í frv. Þar kem ég að því sem ég tel að sé kjarnaatriði fyrir okkur alþingismenn þegar við skoðum þetta frv., það er að meta og velta fyrir okkur hvort hinar stöðluðu reglur sem eru settar fram í þessu frv. skerða á þann veg hagsmuni tjónþolanna að ástæða sé til að hreyfa við þeim hugmyndum sem í frv. koma fram. Þar finnst mér að við alþingismenn hljótum að skipa okkur í stöðu tjónþolanna hugsanlegu og velta þessu máli fyrir okkur með hagsmuni þeirra í huga og taka mið af þeirra sjónarmiðum. Hverjir eru talsmenn væntanlegra tjónþola? Það eru líklega helst lögmenn í landinu sem taka að

sér málflutning fyrir þá sem verða fyrir skaða eða tjóni og þurfa að sækja mál sitt og sækja rétt sinn á grundvelli þessara laga og hafa orðið að gera það hingað til fyrir dómstólum án þess að við slíkar lagareglur sé að styðjast. Þetta tel ég að sé vandi okkar alþingismanna varðandi þetta ágæta frv., þ.e. að fara yfir það nákvæmlega og vega og meta hvernig á þeim atriðum er tekið í frv. sem lúta sérstaklega að hagsmunum tjónþolanna.
    Það kom fram í máli hæstv. dómsmrh. að það hefur verið vel að þessu verki staðið. Það var á sl. sumri sem hann fól Arnljóti Björnssyni að semja frv. og það lá fyrir í desember og er nú komið hér inn á borð okkar þingmanna. Það kemur einnig fram í grg. með frv. að þar er stuðst við, eins og kom fram í máli hæstv. dómsmrh., reglur á Norðurlöndunum og segir í frv. einnig að þær séu ávöxtur nokkurra áratuga starfs margra sérfræðinga og engan tel ég færari hér á landi til þess að fjalla um þessi mál en einmitt Arnljót Björnsson prófessor sem hefur tekið þetta frv. saman og búið það í þann búning sem fyrir okkur liggur.
    Ég vil hins vegar leyfa mér hér að nefna atriði sem má staldra við. Ef alþingismenn ætla að taka þá afstöðu að huga að stöðu tjónþolans sérstaklega í þessu máli, þá vil ég nefna atriði sem ástæða er til að staldra við og velta fyrir sér, t.d. í 4. gr. þar sem stendur, með leyfi hæstv. forseta: ,,Engar bætur skal greiða þegar orkuskerðing er metin minni en 5%.`` --- Síðan segir í 5. gr.: ,,Bætur greiðast ekki ef örorka er minni en 15%.`` --- Og loks í 9. gr.: ,,Ef tjónþoli var 56 ára eða eldri þegar tjón varð lækka örorkubætur um 7% fyrir hvert ár umfram 55 ár.``
    Ég nefni þessi atriði því þarna er með hinum stöðluðu reglum settar ákveðnar skorður við því annars vegar að menn fái tjón sitt bætt, engar bætur skal greiða þegar orkuskerðing er metin minni en 5% og bætur greiðast ekki fyrir varanlega örorku ef örorka er minni en 15%. Hvers vegna eru þessi mörk dregin? Hvað er það sem býr á bak við það að þarna eru sett þessi mörk, 5% og 15%? Er þarna beinlínis verið að taka upp ákvæði úr dönsku lögunum sem eru meginfyrirmynd þessa ágæta frv.? Ef svo er, eiga þá þær sömu reglur við og það sama við hér landi og í Danmörku? Í grg. frv. er ekki fjallað um þessa þætti með þeim hætti að svör fáist. Einnig varðandi aldursmörkin í 9. gr., hvers vegna er miðað við 55 ára aldur? Hvað með bætur barna? Miðað við aldur manna, á 18 ára maður að fá jafnháar bætur og 55 ára maður og á eins árs barn að fá jafnháar bætur og 15 ára barn? Alls kyns slík atriði koma upp í hugann þegar menn fara að velta þessu fyrir sér og skoða þetta.
    Ég tel ákaflega mikilvægt að þetta mál hljóti framgang í góðri sátt hér innan þings, ég tel ekki ástæðu til að menn deili í sjálfu sér mikið um grundvallaratriðin í þessu frv. ef menn vilja viðurkenna það markmið sem í því er sett að reyna að nálgast það sem best er að menn fái raunverulegt tjón sitt bætt. En til þess að víðtæk sátt náist um þetta tel ég að það sé nauðsynlegt að líta á þessi atriði, velta þeim fyrir sér og skoða. Og ég tek undir það með hæstv. dómsmrh. að frv. þarf að fá vandaða meðferð hér í þinginu. Menn þurfa að skoða þetta og velta því fyrir sér og ræða þannig að ekki sé sköpuð tortryggni í garð frv. og þessara væntanlegu laga, heldur sé hver þáttur veginn og metinn. Þar hlýtur þingið m.a. sérstaklega að leita álits lögmanna sem, eins og ég sagði fyrr í ræðu minni, hafa komið fram fyrir hönd tjónþolanna, það vanti inn í þetta mál þann þátt og það sé sá þáttur sem við alþingismenn eigum sérstaklega að huga að.
    Ég vildi koma þessum sjónarmiðum á framfæri strax við 1. umr. málsins. Ég mun síðan í allshn. hafa tækifæri til þess að fylgja þeim eftir og fjalla um þetta mál. En ég vil ítreka það að ég þakka hæstv. dómsmrh. frumkvæðið og þakka honum það sjónarmið sem kom fram í máli hans að þetta mál þyrfti að fá gaumgæfilega skoðun á Alþingi.