Skaðabótalög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 12:01:00 (3902)


     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í máli þeirra sem talað hafa hér á undan mér, hæstv. dómsmrh. og 3. þm. Reykv., þá er hér á ferðinni mjög mikilvægt mál og í rauninni alveg nýtt mál. Það eru ekki til lög um skaðabætur hér á landi þannig að hér eru alveg ný lög á ferðinni. Þetta er mál sem varðar einstaklingana afskaplega miklu og því mikilsvert að við hér á þingi skoðum þetta mjög gaumgæfilega, ekki síst vegna þess að það má segja að það sé ekki til neinn hagsmunahópur úti í þjóðfélaginu sem getur bent á það hvernig þessum málum skuli komið fyrir fyrir tjónþola vegna þess að við erum að tala um tjónþola framtíðarinnar og enginn veit hverjir þeir verða.
    Eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh. er þarna aðallega um tvenns konar bætur að ræða. Annars vegar bætur fyrir líkamstjón og þær bætur eru eiginlega ferns konar samkvæmt frv. Í fyrsta lagi er um að ræða bætur vegna tímabundins atvinnutjóns, í öðru lagi bætur vegna þjáninga, í þriðja lagi bætur vegna varanlegs meins og í fjórða lagi bætur vegna varanlegrar örorku. Síðan er að auki gert ráð fyrir bótum í þessu frv., og tíundaðar reglur um það, hvað varðar missi framfæranda. Þær bætur geta annars vegar verið til maka eða sambúðaraðila og hins vegar til barna.
    Ég ætla hér að fjalla fyrst og fremst um bætur fyrir líkamstjón, þ.e. bætur fyrir varanlegt mein, eins og það heitir í frv. og varanlega örorku. Fjallað er um varanlegt mein í 4. gr. frv. og varanlega örorku í 5.--9. gr. frv.
    Ég hef velt þessu máli talsvert fyrir mér á undanförnum mánuðum og ástæðan er aðallega núgildandi dómapraxís í skaðabótamálum sem að mörgu leyti er mjög gallaður og hefur verið sýnt fram á,

kannski ekki síst á undanförnum mánuðum, hvernig þessir gallar koma út. En það hefur reynst mjög erfitt að breyta þessum dómapraxís vegna þess að fyrri dómar hafa fordæmisgildi og dómstólar eru kannski ekki í stakk búnir til þess að breyta algjörlega um stefnu í málum eins og þessum. Því held ég að það hafi verið mjög tímabært að setja lög eins og reyndar öll Norðurlöndin hafa gert á undan okkur, væntanlega að gefnu tilefni.
    Þegar ég hef verið að velta þessum málum fyrir mér þá er það fyrst og fremst tvennt sem hefur vafist fyrir mér í gildandi dómvenjum og hefðum. Í fyrsta lagi hversu þær eru óhagstæðar konum og í öðru lagi hvað þessar dómvenjur eru óhagstæðar ungu fólki sem ekki er komið á vinnumarkað, sérstaklega ungum stúlkum. Ég ætla í fyrsta lagi aðeins að fjalla hér um konurnar. Það má kannski segja að það sem ég segi hér um þær og hvernig þessi dómapraxís kemur út fyrir konur eigi við um láglaunafólk almennt líka. Ástæðan fyrir því að núgildandi dómapraxís kemur illa út fyrir þessa hópa er að bætur fyrir líkamstjón byggja algjörlega á læknisfræðilegu örorkumati eins og hér hefur verið sagt frá. Örorkumatið er síðan túlkað sem vitnisburður um að hinn slasaði muni tapa þessari tilgreindu prósentu tekna sinna framvegis vegna afleiðinga slyssins. Það má reyndar geta þess að það er ákveðinn umreikningur á prósentunni í núgildandi dómapraxís en það breytir ekki því að þessari prósentu er alltaf beitt á tekjur tjónþola, þ.e. það skiptir máli hverjar tekjur tjónþola eru þegar bætur til hans eru reiknaðar út og þar kemur misskiptingin inn. Um þetta hefur verið fjallað í mörgum greinum að undanförnu, sérstaklega í tímariti lögfræðinga og Úlfljóti, tímariti laganema. Jón Erlingur Þorláksson tryggingafræðingur fjallaði sérstaklega um þetta í tímariti lögfræðinga árið 1984 og mig langar til þess að lesa hér gott dæmi um hvernig þessi misskipting kemur fram í dag. Hann segir, með leyfi forseta:
    ,,Nýlegt dæmi sýnir misskiptingu bóta af þessu tagi`` --- og þá er hann að bera saman hvernig það kemur út fyrir konu og karl. --- ,,Hjón voru á ferð í bíl og urðu fyrir aftanákeyrslu. Fengu þau bæði svokallaðan ,,whiplash`` áverka sem metinn var til 12% örorku. Maðurinn var embættismaður með nokkuð háar tekjur. Konan var húsmóðir með allstórt og gestkvæmt heimili, m.a. var mjög fatlaður sonur þeirra á heimilinu. Auk þess starfaði konan að félagsmálum. Ekkert benti til þess að maðurinn mundi láta af embætti vegna slyssins eða lækka í tekjum þess vegna, en ljóst þótti að bæði mundu þau hafa óþægindi af áverkunum um ófyrirsjáanlega framtíð. Niðurstaðan varð sú að maðurinn fékk u.þ.b. tvöfaldar bætur á við konuna vegna mismunandi launa sem lögð voru til grundvallar. Eðlilegt hefði verið, að því er mér sýnist, að bæði fengju sömu bætur,`` segir Jón Erlingur. Og áfram heldur hann:
    ,,Yfirleitt virðist mér ekki vera þörf á að bætur fari eftir tekjum þegar um minni háttar varanlega örorku er að ræða. Þá geng ég út frá því að bætur fyrir tímabundið tjón sé sjálfstæður liður. Því má jafnvel halda fram með nokkrum rétti að láglaunamaður bíði oft meira tjón af slysi en sá sem hefur hærri launin. Hvort tveggja er að hinn vinnandi þarf gjarnan meira á öllum líkamanum að halda við vinnu sína, en einnig hitt að hann hefur e.t.v. að öðru jöfnu minni aðlögunarhæfni og má síður við áföllum.``
    Niðurstaða Jóns Erlings er á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Þá er komin einföld aðalregla. Bætur fyrir minni háttar líkamstjón eiga að fara eingöngu eftir áverkanum eða örorkunni en vera óháðar aldri, kyni og tekjum. Með öðrum orðum: bætur fyrir sama áverka eiga að vera hinar sömu til allra.``
    Það má segja að þessari reglu sem hann leggur þarna til sé í rauninni komið á í frv., sérstaklega hvað varðar varanlegt mein. En varanlegt mein í frv. er ófjárhagslegt tjón sem fólk verður fyrir vegna líkamsspjalla. Þetta eru líkamsspjöll sem geta hamlað fólki að lifa eðlilegu lífi þó það tapi kannski ekki beinlínis einhverju í tekjum vegna þessa. Um þetta er fjallað, eins og ég sagði, í 4. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegt mein er ákveðin skal litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns eru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það veldur í lífi tjónþola.``
    Þetta er ekki spurningin um vinnuskerðingu heldur ýmsa erfiðleika sem það getur valdið fólki og komið í veg fyrir að það geti lifað fullkomlega eðlilegu lífi.
    Hv. 3. þm. Reykv. benti á það að þarna væri líka regla inni í 4. gr., þ.e. í 2. mgr. 4. gr. þar sem segir:
    ,,Hafi tjónþoli verið 60 ára eða eldri þegar tjón varð lækka bætur sem ákveðnar eru eftir 1. mgr. um 5% fyrir hvert aldursár tjónþola umfram 59 ár.``
    Ég get tekið undir það að þetta orkar mjög tvímælis, að það sé verið að lækka bætur fólks sem komið er yfir 60 ára aldur því þarna erum við fyrst og fremst að tala um líkamsspjöll, þ.e. eitthvað sem hamlar fólki að lifa eðlilegu lífi en ekki vinnutap og það má alveg eins halda því fram með góðum rökum að aðlögunarhæfni fólks minnki með aldrinum, það sé hugsanlega tilfinnanlegra að missa fingur eða fá stirðan lið eða eitthvað slíkt, missa heyrn á öðru eyra þegar fólk er orðið 60 ára heldur en þegar það er yngra. Ég tel því alls ekki einhlítt að það sé réttlátt eða sanngjarnt að lækka bætur vegna varanlegs meins þó að fólk sé komið yfir þennan aldur. Og þá má geta þess að 65 ára einstaklingur getur átt 15--20 ár ólifuð. Ég vil beina því til allshn. sem fær þetta mál til umfjöllunar að hún athugi þetta vel vegna þess að þarna er verið að takmarka réttinn á tilteknu aldursskeiði.
    Eins og ég sagði er í 5.--9. gr. fjallað um varanlega örorku, en það eru bætur vegna skerðingar á getu til að afla vinnutekna. Er þá horfið frá þessari meginhugmynd um varanlegt mein, þ.e. þá er ekki lengur verið að tala um staðlaðar bætur heldur miðast bæturnar í þessu tilviki við atvinnutekjur tjónþola á næstliðnu ári. Bent var á að komið verði á stöðluðum reglum um hvernig örörkubætur skuli reiknaðar út þótt bæturnar sjálfar séu ekki staðlaðar. Örorkubæturnar eru reiknaðar þannig út að tekjur næstliðins árs eru margfaldaðar með sex og örorkustiginu. Síðan er gefið ákveðið hámark. Ekki er reiknað með hærri tekjum en 4,5 millj. í árstekjur og hámarksbætur samkvæmt þessu geta því orðið 4,5 millj. sinnum sex sem gerir 27 millj. sem eru hámarksbætur samkvæmt þessu. Þessar bætur getur einstaklingur væntanlega fengið sem hefur 4,5 millj. eða meira í árstekjur ef hann er metinn 100% öryrki og getur ekki stundað launaða vinnu.
    Lítum svo aftur á dæmi um bætur. Við getum tekið sem dæmi ófaglærða verkakonu eða verkakarl sem er með 780 þús. kr. árstekjur. Margfaldað með sex fær þessi einstaklingur um 4,7 millj. kr. í fullar örorkubætur samkvæmt þessari reiknireglu. Við skulum taka annað dæmi. 50 ára hálaunamaður, sem við getum ímyndað okkur að eigi allt til alls, búinn að koma þaki yfir höfuðið, eigi innbú, eigi bíl og búinn að koma sér upp fjölskyldu. Hann getur fengið 27 millj. kr. í örorkubætur vegna 100% örorku en 25 ára ófaglærð ung kona sem er með tvær hendur tómar og á eftir að koma fótum undir sig fær 4,7 millj. kr. í örorkubætur. Mér finnst að í þessum reglum sé innbyggt kynbundið óréttlæti vegna þess að konur eru almennt með lægri laun en karlar og þar af leiðandi fá þær lægri örorkubætur samkvæmt frv. vegna þess að tekjur næstliðins árs eru lagðar til grundvallar. Enn þá er stéttbundið óréttlæti innbyggt í frv., þ.e. hátekjumenn fá hærri örorkubætur en lágtekjumenn. Þess má þó geta til að gæta fyllstu sanngirni að í 2. mgr. 5. gr. segir með leyfi forseta:
    ,,Þegar tjón vegna örorku er metið skal líta til þeirra kosta, sem tjónþoli á til að afla sér tekna með vinnu sem sanngjarnt er að ætlast til að hann starfi við.`` Þetta getur auðvitað komið þannig út að örorka þeirra sem vinna ekki við líkamlegt erfiði verði ekki metin eins hátt eins og örorka hinna sem vinna líkamlega erfiðisvinnu þótt þeir fatlist á einhvern máta. En ef við lítum bara á 100% örorkuna, tvo einstaklinga sem báðir verða 100% öryrkjar og geta með engu móti sótt vinnu, verður misréttið í þessu augljóst. Þegar kemur aftur að fólki sem hefur ekki fastar tekjur og þess vegna ekki hægt að nota tekjuviðmiðun næstliðins árs sem grundvöll gilda aftur staðalreglurnar eins og um varanlegt mein. Þarna eru við fyrst og fremst að tala um börn, unglinga og heimavinnandi fólk. Núgildandi kerfi eða dómvenjur hvað þetta fólk varðar orkar mjög tvímælis. Ég held að það hafi einmitt verið í fyrrasumar sem Jafnréttisráð ályktaði um þetta mál og taldi að mismunurinn á því hvernig meðhöndlunin væri á ungum stúlkum og piltum væri brot á jafnréttislögum. Mig langar aðeins til þess að vitna í afstöðu Jafnréttisráðs vegna þessa máls. Ég held að þetta sé ályktun frá því á síðasta ári, en þar segir að dómapraxísinn leiði að jafnaði til þess að bætur til kvenna verði lægri en til karla þó svo að um sömu örorku sé að ræða. ,,Ástæðan er sú að tekjur kvenna eru almennt mun lægri en tekjur karla og sá tekjumunur skilar sér síðan inn í útreikning örorkubótanna. Hið sama gildir þegar um er að ræða tjónþola sem eru í sérnámi. Námsval kvenna og karla er enn mjög hefðbundið og staðreynd er að konur velja að jafnaði nám sem gefur mun lægri tekjur þegar á vinnumarkað er komið.``
    Áfram er haldið hér í þessari ályktun Jafnréttisráðs: ,,Það er mat Jafnréttisráðs að þó svo slík niðurstaða sé að mörgu leyti óréttlát þá brjóti hún ekki í bága við ákvæði laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Til grundvallar útreikningunum eru lagðar sömu forsendur óháð kynferði tjónþola. Í þessu sambandi má benda á að karl sem vinnur við hefðbundið kvennastarf eða kona sem vinnur við hefðbundið karlastarf mun fá sömu bætur og aðrir í viðkomandi starfsgrein fyrir sömu örorku. Hið sama gildir um þá tjónþola sem vinna einvörðungu eða að hluta innan veggja heimilisins. Þó svo í flestum tilvikum ef ekki öllum sé um að ræða konur sem falla undir þann hóp yrðu sömu forsendur lagðar til grundvallar þegar tjónþoli er karlmaður.`` Með öðrum orðum segir Jafnréttisráð að sömu forsendur gildi við útreikning hjá þessu fólki sem er á vinnumarkaði en hins vegar kemur óréttlætið fram því að tekjur kvenna almennt eru lægri en tekjur karla. Hér segir áfram:
    ,,Eftir stendur sá hópur tjónþola sem ekki er í sérnámi, er ekki á vinnumarkaði eða vinnur við heimilisstörf, þ.e. börn og unglingar. Samkvæmt upplýsingum frá Jóni E. Þorlákssyni tryggingafræðingi er gerður greinarmunur á því hvort tjónþoli í þessum hóp er stúlka eða piltur. Sá munur leiðir til þess að útreiknað tjón 14 ára stúlku er 11% lægra en tjón pilts á sama aldri með sömu varanlegu örorkuna. Þessi munur getur orðið allt að 24,5% og þetta gerist við 25 ára aldurinn. Þá fer pilturinn 24,5% yfir stúlkuna þó bæði séu í námi, hvorugt komið út á vinnumarkað og hvorugt búið að sanna aflagetu sína.``
    Þá segir hér áfram: ,,Þau rök sem fram koma fyrir þessum mun eru þau að bætur fari eftir tekjum viðkomandi þegar út í atvinnulífið er komið, í þessu tilviki líklegum tekjum. Staðreynd er að meðaltekjur kvenna eru lægri en meðaltekjur karla og því er þessi munur gerður. Ef enginn munur væri gerður á stúlkum og piltum mundi unglingsstúlka að jafnaði verða betur sett en fullorðin kona sem komin er á vinnumarkað.`` Og svo segir: ,,Það er álit Jafnréttisráðs að sú regla sem lögð er til grundvallar ákvörðun bóta til barna og unglinga, þ.e. að taka út kynferði sem einn þátt við ákvörðun bótafjárhæðar, brjóti í bága við ákvæði laga nr. 28/1991, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, sbr. 1. málsl. 3. gr. laganna.``
    Um þetta má segja að komið er til móts við þessa skoðun Jafnréttisráðs í frv. sem við erum hér með til umfjöllunar. Piltar og stúlkur eru lögð að jöfnu en hins vegar eru þau eftir sem áður víðs fjarri hinum eldri og tekjuhærri í örorkubótunum. Þetta er ekki síst alvarlegt vegna þess að fyrir þessu fólki á að liggja að búa við varanlega skerðingu alla sína ævi. En þeir eldri búa aðeins við varanlega skerðingu hluta af ævi sinni.
    Mig langar aðeins til þess að geta um þá reiknireglu sem notuð er til þess að finna út örorkubætur þessara hópa, þ.e. barna, unglinga og heimavinnandi fólks. Hún kemur fram í 8. gr. frv. Fljótt á litið virkar þessi reikniregla nokkuð flókin en hún er það alls ekki í raun. Til þess að finna út örorkubætur þessa fólks er notaður hundraðshluti af bótum fyrir varanlegt mein sem eru hámark 4 millj. kr. Þá skulum við t.d. líta á ungling sem metinn er 75% öryrki. Reiknireglan er sú að fyrst eru teknar þessar 4 millj. sem eru hámarksbætur vegna varanlegs meins. Þær eru margfaldar með 325% og það þýðir að þessi unglingur fær um 13 millj. kr. í fullar bætur. Nú skal ég viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á hvort við þessar 13 millj. bætast síðan 4 millj. vegna varanlegs meins eða hvort bætur vegna varanlegs meins falla niður ef fólk fær örorkubætur. Mér finnst það ekki koma ljóst fram í frv. eða athugasemdum með því. Þessi unglingur fær sem sagt um 13 millj. kr. í örorkubætur. Það sem vekur auðvitað athygli í þessu sambandi er að þó að hann sé alls ekki ofsæll af þessu þá fær hann hærri bætur en fullvinnandi manneskja á vinnumarkaði sem er með lágar tekjur. Ég tók áðan dæmi af konu sem er með um 800 þús. kr. árstekjur sem fær tæpar 5 millj. í örorkubætur vegna þess að tekjur hennar eru svo lágar þannig að unglingur sem skerðist fær hærri bætur en jafnvel ung manneskja á vinnumarkaði með lág laun. Ég vona að ég fari rétt með þetta og ég verð þá leiðrétt ef það er ekki.
    Þá má geta þess að heimilisstörf skulu reiknuð samkvæmt þessari reglu. Ef manneskja, sem vinnur við heimilisstörf að aðalstarfi, verður 100% öryrki þá fær hún þessar 13 millj. kr. en ég fæ ekki betur séð en að ef þessi manneskja hefði verið í hálfu starfi eða rétt rúmlega það og verið með lágar tekjur í slíku starfi þá væri hún verr sett í hálfu vinnunni og örorkubætur hennar væru lægri heldur en ef hún sinnti heimilisstörfum sem fullu starfi. Þarna finnst mér orðið svo margháttað misræmi í útreikningnum á bótunum að ég vildi biðja allshn. að skoða það sérstaklega.
    Ég talaði um að unglingurinn sem er metinn 75% öryrki fengi samkvæmt þessu 13 millj. kr. í örorkubætur. Ástæðan fyrir því að ég fór á sínum tíma að velta þessu máli fyrir mér var dæmi sem ég þekki af 17 ára stúlku sem þannig er ástatt fyrir í dag, þ.e. hún er 75% öryrki og hún fékk samkvæmt þeim reglum sem gilda í dag um 14 millj. kr. Hún var metin út frá meðaltekjum kvenna. Skoðað var hverjar eru meðaltekjur kvenna og út frá því voru örorkubætur hennar reiknaðar. Þess vegna má segja að þegar verið er að skoða 17 ára unglingsstúlku sé miðað við kyrr kjör, þ.e. að kynbundnu launamisrétti verði ekki breytt í framtíðinni af því að það er verið að skoða framtíðartekjur hennar og menn gefa sér þá að þessu kynbundna launamisrétti verði ekki breytt. Hún muni alltaf hanga í meðaltekjum kvenna eins og þær eru í dag.
    En þannig er komið fyrir þessari 17 ára stúlku, sem ég er hér að segja frá, að hún er lömuð, hún er heyrnarskert og hún er sjónskert. Hún er mikið sködduð á ýmsum innri líffærum og hún þurfti að gangast undir 14 aðgerðir áður en búið var að gera það sem menn töldu sig geta gert fyrir hana. Hún stendur auðvitað með tvær hendur tómar, þ.e. hún á ekkert, hún er 17 ára og 17 ára fólk er ekki vant að eiga nokkurn skapaðan hlut. Þessi stúlka var alger þolandi í því slysi sem hún varð fyrir og hún fékk 14 millj. kr. Þessar örorkubætur eru sá grunnur sem hún þarf að byggja allt sitt líf á. Mikill kostnaður fylgir fötlun og þess má geta í þessu tilviki að breyta þurfti húsnæði foreldra hennar fyrir 3 millj. kr. til þess að hún gæti búið þar. Þessi stúlka þarf auðvitað seinna að eignast eigin íbúð, eignast eigið heimili og hún á auðvitað rétt á svipuðum lífsgæðum og annað fólk þótt hún hafi orðið fyrir þessu áfalli í lífinu.
    Ég nefni dæmi hennar vegna þess að mér finnst mjög mikilvægt þegar þetta frv. verður skoðað í nefndinni að mál unglinganna verði skoðuð sérstaklega. Við vitum að það er alltaf fleira og fleira ungt fólk sem slasast, ekki síst í umferðarslysum og mun sá hópur vega þungt í þessum málum öllum í framtíðinni. En þó að þurfi að skoða unglingana sérstaklega, þá vil ég líka benda á það misræmi sem ég gerði hér að umtalsefni áðan. Það er mjög nöturlegt að fullvinnandi láglaunakona eða karl skuli koma verst út úr útreikningum sem eru gefnir upp í frv., þ.e. ef þessi manneskja missir algerlega vinnugetu sína, og þetta verður auðvitað að skoðast betur líka. Mér finnst reyndar athugunarefni hvort ekki er ástæða til þess að taka upp staðlaðar bætur í mun ríkari mæli en frv. gerir ráð fyrir, þ.e. að allir fái nokkurn veginn sömu bætur en síðan verði heimilt að greiða bætur umfram þessar staðalbætur ef sýnt þykir að hinn slasaði verði fyrir meira tjóni en sem nemur staðalbótunum. En að öllu samanlögðu finnst mér þó skipta meginmáli að koma málum þannig fyrir að þeim sem verða fyrir mikilli varanlegri örorku sem takmarkar tekjumöguleika þeirra þegar á unga aldri sé borgið með þeim reglum sem við munum samþykkja hér á Alþingi fyrr eða síðar. Knappur fjárhagur má ekki takmarka enn frekar möguleika þessa fólks í lífinu því að fötlunin ein er slíkur tálmi fyrir þetta fólk að það má alls ekki gerast að fjárhagslegar takmarkanir bætist þar ofan á. En ég held sem sagt að enn þá sé innbyggt í þetta frv. ákveðin skekkja og ákveðið misrétti.
    Tryggingarfræðinga greinir auðvitað á um það í hversu miklum mæli bætur skulu vera staðlaðar. Ég hef vitnað aðeins í grein Jóns Erlings Þorlákssonar í tímariti lögfræðinga og hann leggur einmitt til í grein sinni að komið verði á stöðluðum bótum í mun ríkari mæli en verið hefur. Hann segir í grein sinni, með leyfi forseta:
    ,,Ástæða þess að ég skrifa þessar línur er sú að ég hef komist að þeirri niðurstöðu við kynni af

slysamálum að þær tvær meginreglur sem notaðar eru við uppgjör bóta fyrir líkamstjón séu báðar óhæfar. Á ég þá við reglurnar um að bætur séu í beinu hlutfalli við læknisfræðilegt örorkustig og í beinu hlutfalli við vinnutekjur hins slasaða.``
    Hann leggur sem sagt til að það sé komið á kerfi með nokkuð stöðluðum bótum. Ég ætla ekki að gera hugmyndir hans í þessari grein beinlínis að mínum en ég bendi nefndarmönnum þó á þær því að þær eru allrar athygli verðar.
    Það vakti líka athygli mína við að lesa þetta frv. að þarna er í raun og veru dönsku skaðabótalögin tekin upp svo til algerlega óbreytt. Þetta sá ég þegar ég fór að glugga í grein eftir Guðnýju Björndóttur hdl. í Úlfljóti árið 1989 en greinin heitir einmitt ,,Reglur dönsku skaðabótalaganna um bætur fyrir slys á mönnum``. Ég fékk ekki betur séð þegar ég las þetta en að þetta væri nánast algerlega óbreytt, dönsku skaðabótalögin væru tekin hér upp. Ég ætla ekki að gagnrýna það í sjálfu sér að það sé gert því að vel kann að vera að þau séu mjög góð. En mér finnst samt spurning hvort hægt sé að heimfæra dönsku lögin svo til óbreytt upp á íslenskan veruleika sem er talsvert annar en sá danski.
    Áður en ég fer úr pontu, virðulegi forseti, langar mig til þess að benda fólki á þau dæmi sem gefin eru aftast í frv. Þar eru nokkur dæmi reiknuð út um bætur, þ.e. hvernig þær væru samkvæmt núgildandi reglum og hvernig þær væru samkvæmt frv. ef það yrði að veruleika. Það vekur auðvitað athygli manns að í öllum tilvikum þegar um líkamstjón er að ræða hefur frv. í för með sér lækkun bóta þar til kemur að makabótum. Þar virðast bætur hækka. En ég fékk ekki betur séð en í öllum hinum tilvikunum hefði frv. í för með sér lækkun örorkubóta og það finnst mér vera áhyggjuefni vegna þess að það getur tæpast verið markmiðið með þessu frv. heldur hlýtur markmiðið að vera að gera reglur skýrari, einfaldari, gera rétt fólks skýrari en ekki að lækka upphæð bóta.