Skaðabótalög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 12:38:00 (3904)

     Sólveig Pétursdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég vil segja nokkur orð í tilefni af því frv. sem hér liggur fyrir. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir framlagningu þessa frv. um skaðabótalög. Hér er um afar merkilegt mál að ræða og margir góðir hlutir sem þar koma fram. Einnig vil ég þakka hv. þm. fyrir ræður en þar hafa komið fram ýmsar athyglisverðar athugasemdir sem vert er að gaumgæfa. Þær snúa ekki síst að þeim ákvæðum frv. sem fjalla um varanlegt mein og varanlega örorku og ákveðnar hömlur sem lagðar eru á skaðabótakröfur.
    Hv. 10. þm. Reykv. hélt því fram m.a. að enn þá væri innbyggð í frv. ákveðin skekkja og ákveðið misræmi. Hún fór fram á það að misræmið í örorkuútreikningi yrði athugað sérstaklega í allshn.
    Hv. 14. þm. Reykv. gagnrýndi nokkuð það læknisfræðilega örorkumat sem fram fer í Tryggingastofnun ríkisins. Ég held þó að þar komi félagslegir þættir einnig við sögu. Hún ræddi um fleiri atriði, t.d. hvort rétt sé að lækka bætur miðað við aldur o.s.frv. Þessi atriði verða að sjálfsögðu athuguð í allshn. Það er ljóst að fara þarf fram mjög vönduð vinna á þessu frv. í nefndinni, ekki síst vegna þess að tjónþolar eru hópur sem óljóst er hvernig má skilgreina og geta því ekki gætt hagsmuna sinna sjálfir.