Skaðabótalög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 12:45:00 (3906)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og stuðning í meginatriðum við höfuðstefnumið frv. sem hér liggur fyrir. Það er vissulega svo að hér er um mjög viðamikið og flókið viðfangsefni að ræða. Ýmis álitaefni sem hafa komið fram í umræðum er mikilvægt að hv. allshn. taki til skoðunar. Með frv. er verið að gera grundvallarbreytingar í ýmsum efnum um leið og verið er að lögfesta í fyrsta sinn lagareglur á þessu mikilvæga réttarsviði.
    Hér hefur verið á það minnst, það gerði m.a. hv. 3. þm. Reykv., að tjónþolarnir, sem vitaskuld eru þeir sem mestra hagsmuna eiga að gæta, eiga sér ekki talsmenn. Það er vitaskuld rétt, við vitum ekki hverjir þeir eru. Hann gat þess þó að líklegast væri að lögmenn gætu verið helstu talsmenn tjónþola og það er vissulega svo. Lögmenn hafa mjög mikla reynslu af þessum málum og þekkja þau gjörla og það er mikilvægt fyrir hv. nefnd að heyra sjónarmið þeirra. En því má ekki gleyma að hér eru líka atvinnuhagsmunir þeirrar stéttar í húfi og þess vegna verður að líta á þá stöðu einnig. Það er ljóst þegar gerðar eru svo umfangsmiklar breytingar, sem hér er verið að mæla fyrir til einföldunar og meiri skilvirkni, þá minnka störf lögmanna á þessu sviði. Vissulega verður áfram þörf fyrir þeirra þjónustu og ugglaust verður til þeirra leitað í ýmsum efnum. En störf lögmanna á þessu sviði minnka mjög verulega ef þessar meginreglur verða lögfestar. Þeir eru því einnig hagsmunaaðilar að málinu að þessu leyti og það verður að hafa í huga.
    Það eru fleiri hagsmunaaðilar í málinu en tjónþolarnir. Það eru þeir sem greiða iðgjöld vegna bóta. Því hefur til að mynda verið haldið fram af einum mjög virtum hæstaréttarlögmanni að frv. þjóni fyrst og fremst hagsmunum tryggingafélaga. Því fer vitaskuld víðs fjarri vegna þess að tryggingafélög hafa ekki einasta rétt til þess að hækka iðgjöld sín eftir því hver fjárhæð bóta er á hverjum tíma. Þeim er beinlínis skylt að láta iðgjöldin ráðast af því hver fjárhæð bóta er og hversu miklir tryggingarskyldir hagsmunir eru í húfi. Tryggingafélögin eru jafnsett hvort sem bætur eru hærri eða lægri. Það eru þeir sem tryggingaiðgjöldin greiða sem eiga þar hagsmuni. Hv. þm. er vitaskuld rétt og skylt að gæta einnig að hagsmunum þeirra og í umræðum, ekki síst á undanförnum missirum, hefur athygli manna beinst að iðgjöldum tryggingafélaga. Þess vegna er ástæða til að hafa líka í huga hagsmuni þeirra sem greiða tryggingariðgjöldin.
    Að því hefur verið vikið hér að frv. feli í sér ýmsa réttarbót að því er varðar þá mismunun sem fram hefur komið í gildandi reglum um þetta efni sem helgast af dómapraxís. M.a. hefur verið vakin athygli á því að til að mynda fá heimavinnandi makar á grundvelli þeirra reglna sem hér er verið að leggja til mun rýmri bætur en fyrri reglur segja til um.
    Hitt sjónarmiðið, sem hér hefur verið rætt, er spurningin um það hvort skaðabætur eigi að verða meiri en sem nemur því tjóni sem viðkomandi aðili verður fyrir vegna þess að fyrir hendi eru í þjóðfélaginu mismunandi aðstæður og þar á meðal mismunandi launakjör. Meginreglan er sú að skaðabætur bæti það tjón sem menn hafa orðið fyrir en upphefji ekki aðra mismunun. En umræður um þetta hafa lengi verið þáttur í umræðum um skaðabótareglur og þau meginviðhorf sem á því sviði gilda og því er ekki óeðlilegt að þau sjónarmið komi fram hér í þessari umræðu.
    Hv. 10. þm. Reykv. vék að því að hún taldi sig hafa komist að því með lestri greinar í tímariti lögfræðinga eða Úlfljóti að frv. væri í meginatriðum byggt á dönsku reglunum. Það er vitaskuld rétt og kemur með mjög skýrum hætti fram í athugasemdum við frv. Ég gerði grein fyrir því í minni framsöguræðu að við frv. hefur mjög verið stuðst við þá löggjöf sem á síðustu árum hefur verið sett á öllum Norðurlöndunum. Danska löggjöfin er sú nýjasta sem fyrir hendi er. Skandinavískur réttur eða norrænn réttur hefur þróast með mjög líkum hætti og okkar réttur, hann er byggður í grundvallaratriðum á þeim sjónarmiðum sem gilda í norrænum rétti og það er því eðlilegast að við tökum mið í þessu efni af norrænni löggjöf. Sú athugun sem fram fór á þeim lögum sem í gildi eru á Norðurlöndunum leiddi til þess að mönnum þótti eðlilegast að byggja á dönsku reglunum, bæði vegna þess að þær voru nýjastar og taldar henta best okkar aðstæðum.
    Þetta eru þau atriði sem ég vildi helst víkja að hér, herra forseti, í lok þessara umræðna. Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að hv. nefnd athugi bæði þau sjónarmið og athugasemdir við einstakar greinar sem hér hafa komið fram og kalli til þá ráðgjöf sem nauðsynleg er því að frv. eins og þetta þarf vitaskuld ítarlega meðferð. En ég ítreka að hér hafa átt sér stað góðar og efnislegar umræður.