Skaðabótalög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 12:53:00 (3907)

     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að ráðherra sagði áðan að hér hefðu komið fram þau sjónarmið að skaðabætur ættu jafnvel að verða meiri en sem næmi því tjóni sem fólk yrði fyrir. Ég held að hér hafi enginn sett fram það sjónarmið. Spurningin er sú hvernig eigi að meta tjónið. Auðvitað er hægt að fara ýmsar leiðir í því. Það má t.d. benda á eitt í því sambandi. Ég tók dæmi áðan af fimmtugum manni sem væri í góðum álnum, hefði góðar tekjur og væri búinn að koma yfir sig húsnæði, væri skuldlaus o.s.frv. en gæti engu að síður við 100% örorku fengið 27 millj. í örorkubætur. Hins vegar væri ung stúlka, 25 ára

gömul, sem ætti lífið allt fram undan sem öryrki en fengi kannski um 5 millj. kr. Spurningin er sú í því sambandi hvort aldur ætti ekki að tengjast mati á fjárhagslegu tjóni. Sá sem er fimmtugur, á eftir að verða öryrki og missa tekjur í 20--30 ár. Tvítug stúlka eða strákur sem á eftir að verða öryrki missir tekjur í 60 ár. Auðvitað er alltaf spurning hvaða hluti á að taka inn í mat á tjóni. Við erum líka að meta framtíðina þegar við erum að meta bætur vegna fjárhagslegs tjóns. Það er alltaf afskaplega erfitt að meta framtíðina og þar hljóta mörg álitamál að koma inn. Mér finnst ekki um það að ræða að leggja eigi beinlínis til að skaðabætur verði meiri en sem nemur tjóninu heldur er um að ræða vangaveltur og spurningar um það hvernig beri að meta tjónið.