Umferðarlög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 13:26:00 (3912)

     Frsm. minni hluta allshn. ( Jón Helgason) :
    Herra forseti. Frsm. meiri hluta nefndarinnar hefur gert allítarlega grein fyrir áliti minni hlutans. Ég ætla þó að leyfa mér að fara hér nokkrum orðum um það nál. og afstöðu minni hlutans. Eins og fram hefur komið varð allshn. ekki sammála við afgreiðslu málsins.
    Það er rétt sem komið hefur fram hjá frsm. meiri hluta og einnig hv. síðasta ræðumanni að nefndinni bárust margar umsagnir sem upp hafa verið taldar þar sem mælt var með þessari breytingu ef --- en það kom gjarnan þegar líða fór á umsagnirnar. Ein þeirra umsagna sem hv. síðasti ræðumaður gat um var frá Bandalagi ísl. leigubifreiðastjóra og ég ætla að lesa hana til þess að sýna þann tón sem þar kemur fram og reyndar hjá fleirum. En umsögnin er svo, með leyfi forseta:
    ,,Við höfum fengið til umsagnar frv. til laga um breytingu á umferðarlögum.
    1. Stjórn Bandalags ísl. leigubifreiðastjóra fagnar því að með breytingunum er ætlað að koma yfirumsjón bifreiðaprófa undir Umferðarráð.
    2. Stjórnin gerir ekki athugasemd við það að Landssamband ísl. akstursíþróttafélaga fái fulltrúa í Umferðarráði.
    3. Stjórn Bandalags ísl. leigubifreiðastjóra er hins vegar andvíg þeim breytingum sem gert er ráð fyrir samkvæmt 3. gr. frumvarpsins.``
    Það er mjög mikilvægt í þessu tilliti að Umferðarráð verði sjálfstæð stofnun og eins óháð öðrum stjórnvöldum og mögulegt er. Það að dómsmrh. eigi að skipa meiri hluta stjórnar ráðsins og einnig að skipta sér af mannaráðningum er á skjön við þessa skoðun og reyndar einnig í mótsögn við yfirlýsta stefnu stjórnvalda. Enn er það tillaga Bandalags ísl. leigubifreiðastjóra að frv. verði samþykkt en með þeim breytingum að í 2. mgr. 3. gr. verði sleppt orðunum ,,tvo þeirra`` og í 4. mgr. 3. gr. verði sleppt orðunum ,,og með samþykki dómsmrn.``
    Þarna kemur fram annað aðalágreiningsatriði nefndanna, þ.e. að samkvæmt frv. skal dómsmrh. skipa Umferðarráði stjórn. Það er nýmæli. Það er misskilningur hjá hv. frsm. meiri hlutans að svo hafi verið áður. Það hefur verið kosin framkvæmdanefnd fyrir Umferðarráð en stjórn hefur ekki verið þar starfandi fyrr en nú að dómsmrh. skal skipa hana. Í gærmorgun var viðtal við framkvæmdastjóra Umferðarráðs þar sem kom skýrt fram hjá honum að nú yrði það ekki lengur Umferðarráð sem stjórnaði þessi stofnun heldur hin ráðherraskipaða stjórn. En Umferðarráð, þessi fjölmenni hópur, gæti í framtíðinni komið með umsagnir og ábendingar. Það er annað grundvallaratriðið sem veldur því að við leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarnnar og það skoðað frekar í sambandi við þá endurskoðun sem nú fer fram á umferðarlögunum samkvæmt ákvæðum í þeim og átti að ljúka á síðasta ári.
    Vafalaust er rétt að oft getur verið hagkvæmni í því að hafa stofnanir færri og stærri en þó verður að taka tillit til þess hvaða breytingar er óhjákvæmilegt að gera við slíka sameiningu. Það er vissulega hægt að sameina margar stofnanir með þeim árangri að ein stofnun verði þá stór þegar búið er að safna mörgum saman. En þarna bendum við á að verið er að taka forræði af hinum frjálsu félagasamtökum í þessu máli og Umferðarráð verður þarna, eins og framkvæmdastjóri Umferðarráðs sagði, umsagnar- og tillöguaðili. Okkur sýnist að ekki liggi svo á þessari skipulagsbreytingu að hún megi ekki bíða eftir hinni almennu endurskoðun og þá væri kannski hægt að finna leiðir til að ná báðum þessum markmiðum, hagkvæmni í rekstri og hins vegar að skerða ekki áhrif hinna frjálsu félagasamtaka.
    Í umsögn landlæknis kemur fram að æskilegt væri að breyta skipan Umferðarráðs. Það er atriði sem að mínu mati væri rétt að skoða líka. Alltaf er hætta á því þegar sömu einstaklingar hafa setið lengi í svona stofnun að þá hætti að koma fram nýjar hugmyndir. Því gæti það vissulega verið athugandi að a.m.k. sumir þeirra aðila sem þarna eiga nú aðild og aðrir sem kann að verða bætt við sætu um takmarkaðan tíma í Umferðarráði. Þá yrði öðrum aðilum hleypt inn og það mundi vafalaust stuðla frekar að því að endurnýjun yrði á einstaklingunum. Í þessu starfi eru alltaf auðvitað að koma fram ný viðhorf og breytingar verða í umferðarmálum eins og hér hefur komið fram hjá fyrri ræðumönnum.
    Hitt atriðið sem við í minni hlutanum gagnrýnum sérstaklega er sú stefnumörkun sem sett var fram í fjárlagafrv. fyrir þetta ár en í greinargerð með því segir: ,,Til að bera uppi hluta af kostnaði Umferðarráðs er reiknað með auknum tekjum af prófgjöldum. Í því augnamiði verður gerð breyting á reglugerð um dómsmálagjöld o.fl.`` Í samræmi við það var síðan lækkuð fjárveiting úr ríkissjóði til Umferðarráðs og sértekjunum ætlað að taka þar við í vaxandi mæli.
    Það er rétt að við gerðum ekki sérstaka athugasemd við þennan lið í fjárlagafrv. þegar það var til umræðu fyrir síðustu áramót en fyrirvari stjórnarandstöðunnar var sá að svo lítil vinna hefði verið lögð í fjarlagafrv. að erfitt væri að taka þar alla liði út úr og gera sérstaklega grein fyrir þeim. Við lýstum því yfir að við tækjum enga ábyrgð þar á neinum tölum svo að ég held að það sé ákaflega erfitt að gera okkur ábyrga fyrir þessum tölum vegna þess að við höfum ekki gert sérstakar athugasemdir um það fyrr en nú. En það hefur þegar komið fram að hinn 30. des. sl. voru gjöld fyrir próf hækkuð um 50%. Í umsögn dómsmrn., sem nefndin fékk, kemur fram að á undanförnum árum hafi sértekjurnar vegna bifreiðaprófa nægt fyrir útgjöldum og reyndar vel það þó að þær hafi hins vegar verið vanáætlaðar og gjöldin líka. En við 50%

hækkun er auðvitað ljóst að tekjurnar hækka mjög mikið. Það segir í þessari greinargerð frá dómsmrn. að tekjur vegna almennra prófa hafi á síðasta ári numið 17 millj. og 50% hækkun á þeim sé því 8 1 / 2 millj. kr. Það kom hins vegar ekki fram í nefndinni hvaðan hinar sértekjurnar koma sem á síðasta ári hafa þá numið rúmlega 21 millj. kr. Fróðlegt væri að fá upplýsingar um það hjá frsm. hvort sá hlutinn hafi ekki líka hækkað við þessa reglugerðarbreytingu. Ef allar sértekjurnar hækka um 50% sjáum við að það eru um 19 millj. Það er hér um bil sú upphæð sem á fjárlögum síðasta árs var ætluð til Umferðarráðs, það voru um 24 millj. kr. Það vantar því ekki mikið á að það jafnist. Það hefur komið þegar fram hjá hv. 5 þm. Vestf. að sumir liðir í reglugerðinni hækkuðu meira en um 50% og er þá kannski spurningin sú hvort þessar 21 millj. kr. hækki meira en um 50%. Ég óska eftir því að frsm. meiri hluta gefi okkur skýringar á því.
    Þetta teljum við sem sagt vera ranga stefnu. Ég held að það sé lítill hluti af þeim sem taka bifreiðapróf núna sem er mikið eldri en 17 ára, svo almennt er það nú orðið í þjóðfélaginu og alger nauðsyn að hafa bílpróf. Langflestir þeirra sem á annað borð ætla sér að taka próf gera það á þeim aldri. Ég held að það sé ekki ofsagt að fyrst og fremst sé verið að leggja þetta á 17 ára nemendur.
    Þessi atriði sem ég hef hér rakið valda því að við í minni hlutanum leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar til frekari athugunar og athugað hvort ekki verði hægt að ná þeim árangri sem að er stefnt með frv. og jafnframt reynt að komast fram hjá þeim annmörkum sem við teljum vera á því.