Umferðarlög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 13:42:00 (3913)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Þetta frv. sem er til umfjöllunar fjallar um breytingu á núgildandi umferðarlögum sem gengið var frá í marsmánuði, ef ég man rétt, 1987. Þar er kveðið á um það, í ákvæði til bráðabirgða, að lögin skuli endurskoðuð fyrir árslok 1991. Því hefur það verið embættisskylda hæstv. dósmmrh., þegar hann tók við embætti 1. maí sl., fyrst hann á annað borð sá sig tilknúinn til þess að líta á umferðarlögin og hugsa fyrir breytingum á þeim, að láta fara fram heildarendurskoðun á lögunum eins og kveðið er á um og lögboðið. Því verður að segjast eins og er að hæstv. dómsmrh. hefur brugðist embættisskyldu sinni með því að láta þessa endurskoðun ekki fara fram á tilskildum tíma. Hér hefur verið upplýst að sú endurskoðun standi yfir nú og frv. til breytingar á lögunum verði lagt fram á þessu þingi. Þá spyr maður sjálfan sig frekar en oft áður: Til hvers er þá verið að taka ákveðinn þátt út úr umferðarlögunum og breyta honum fyrst á annað borð er lögboðið að endurskoða lögin og verið er að gera það. Við því hafa ekki nein svör fengist. Meiri hlutinn hefur ekki getað upplýst hvers vegna þetta mál er tekið út úr og verður ekki samferða heildarendurskoðun. Rökin sem helst hafa heyrst eru þau að flytja þurfi umsjón með ökuprófum og ökukennslu á milli stofnana. Það má vel vera að niðurstaðan verði sú að menn telji það skynsamlegt. En menn geta ekki tekið afstöðu til þess hvað er skynsamlegt í þeim efnum fyrr en hæstv. dómsmrh. er búinn að gera það upp við sig og setja í reglugerð eins og honum ber að gera samkvæmt umferðarlögum hvaða kröfur á að gera í ökunámi og ökukennslu. Það er algert reglugerðaratriði. Hafi ráðherra hug á, eins og upplýst hefur verið, að gera breytingar á þessu máli, setja stífari kröfur og eitthvað því um líkt, þá gerir hann það og hefur fullt vald til þess í reglugerðinni. Nefndin hefur hins vegar ekki verið upplýst um það hvaða efnisatriði þar eru á ferðinni. Við getum því ekki tekið afstöðu til þeirra og enn síður til þess hvort núverandi fyrirkomulag sé þannig að þessari nýju reglugerð verði sinnt með viðunandi hætti eða hvort því þurfi að breyta. Það er nefnilega venjulegur háttur í starfi manna að ákvarða fyrst hvað menn ætla að gera, síðan að ákvarða hvernig menn ætla að framfylgja því, ekki snúa hlutunum við. Hins vegar hef ég tekið eftir því að hæstv. dómsmrh. hefur mikið yndi af embættisveitingum og ýmsar þeirra hafa mér þótt dálítið undarlegar svo ekki sé meira sagt. Kannski er það skýringin á þessari breytingu. Hann getur fengið Umferðarráð beint undir valdsvið sitt. Meira að segja er svo langt gengið í frv. að það má ekki ráða nokkurn einasta mann til starfa án samþykkis hæstv. dómsmrh., ekki einu sinni skúringakonu nema með samþykki hæstv. dómsmrh. Þannig er frv. lagt fram af hæstv. dómsmrh. Þetta kalla ég miðstýringaráráttu.
    Hin breytingin er sú að draga völdin eða áhrifin úr höndum Umferðarráðs og yfir í fimm manna stjórn sem ráðherrann skipar að meiri hluta til. Það er ekki valddreifing heldur hið gagnstæða og kemur mér á óvart að fulltrúi Kvennalistans lýsi yfir stuðningi við valdasamþjöppun.
    Eftir þessa breytingu sem áformað er að gera verður Umferðarráð ekkert annað en bænasamkoma sem getur gert sínar samþykktir og sent bænarskjöl til ráðherra eða stjórnar Umferðarráðs. Viljið þið vera svo vænir að samþykkja það sem við ætlum að gera eða það sem við leggjum til. Og stjórnin svarar: Ja, við skulum skoða málið. Í dag er það ekki þannig. Í dag starfar framkvæmdastjórn Umferðarráðs samkvæmt samþykktum Umferðarráðs. Umferðarráð getur því sagt framkvæmdastjórn fyrir verkum. Það á að fella út. Stjórnsýslulegar breytingar sem eru hér á ferðinni eru í miðstýringarátt.
    Ég skal ekki fortaka það að svo kunni að fara að ég geti orðið sammála því þegar ég sé hvernig hlutirnir verða varðandi ökupróf og ökukennslu, að það kunni að vera að Bifreiðapróf ríkisins valdi ekki því verkefni sem þær kröfur kalla á og þurfi því að flytja verkefnið. Ég skal ekki fortaka það. En mér er lífsins ómögulegt að samþykkja það að leggja niður stofnun ,,af því bara``. ,,Af-því-bara``-rökin duga ekki í íslenskri stjórnsýslu.
    Umsagnir aðila voru með ýmsum hætti og ég vil fyrst, til þess að taka af öll tvímæli um það sem

gefið er í skyn í nál. meiri hlutans, að umsagnir hafi verið gefnar um efnisatriði frv. af hálfu Bindindisfélags ökumanna, lögreglustjórans í Reykjavík eða menntmrn., segja að þessir þrír aðilar gáfu enga umsögn um þetta frv. Ég vil, til þess að því sé til haga haldið og mönnum verði það ljóst, vitna í bréf menntmrn. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Menntamálaráðuneytið tekur ekki að sinni formlega afstöðu til frumvarpsins.`` --- Það er afstaða menntmrn., virðulegi forseti, að taka ekki afstöðu til frv.
    Lítum næst á umsögn sem kom frá Bindindisfélagi ökumanna til þess að átta okkur á því um hvað hún fjallar. Hún fjallar um úrbætur, sem sá félagsskapur vill gera, við 3. gr. umferðarlaga, 9. gr., 12. gr., 17. gr., 22. gr., 23. gr., 25. gr., 31. gr., 32. gr., 37. gr., 40. gr., 41. gr., 45. gr., 46. gr., 48. gr., 50. gr., 55. gr., 56. gr., 63. gr., 65. gr., 67. gr., 89. gr., 91. gr. og 92. gr. Þetta var umsögn Bindindisfélags ökumanna. Hún var um þessar greinar. En um hvaða greinar fjallar frv.? Það væri kannski ekki út vegi að líta aðeins á það því frv. fjallar nefnilega um allt aðrar greinar en umsögnin er gefin um.
    Þriðji aðilinn sem ég nefndi er lögreglustjórinn í Reykjavík. Hann gaf enga umsögn um þetta frv. Hann gaf umsögn um endurskoðun umferðarlaga almennt, eins og Bindindisfélag ökumanna gerði. Hann gaf umsögn, eins og fram kemur í fskj. með okkar nál. og ég þarf því ekki að lesa upp þær lagagreinar sem hann gaf umsögn um. En hún fjallar ekki um frv.
    Síðan eru athugasemdir og viðvaranir í umsögnum annarra aðila. Hér erum við með umsögn Bandalags íslenskra leigubifreiðastjóra. Þeir leggja mikla áherslu á að Umferðarráð verði sjálfstæð stofnun og eins óháð öðrum stjórnvöldum og mögulegt er. Þeir vara við miðstýringunni.
    Félag ísl. bifreiðaeigenda varar við þeim hugmyndum að hér sé eingöngu um sparnaðarráðstöfun að ræða sem er það sem birtist í fjárlagafrv. Útgjöld ríkisins til þessa málaflokks eiga að minnka úr tæpum 24 millj. niður í 18--19 millj. kr. Ríkið ætlar að leggja minna til málaflokksins.
    Öryrkjabandalag Íslands leggur áherslu á að Umferðarráði verði gert sem best kleift á hverjum tíma að gegna viðbótarhlutverki sínu samkvæmt frv. Það tekur sérstaklega fram að það þurfi fjármagn.
    Hvað skyldi Umferðarráð sjálft segja? Það segir, með leyfi forseta:
    ,,Leggur Umferðarráð mikla áherslu á að fjárveitingar til ráðsins verði á engan hátt skertar frekar en orðið er heldur verði stefnt að því að auka þær á komandi árum. Í því sambandi ber sérstaklega að geta þess uggs sem margir ráðsmenn bera í brjósti um að prófgjöld til ökuprófs verði hækkuð úr hófi fram til þess að standa undir rekstri stofnunarinnar. Varar Umferðarráð sérstaklega við slíkum hugmyndum.`` --- Það er einmitt það sem verið er að gera.
    Hvað skyldi Ökukennarafélag Íslands segja? Það er fagaðili varðandi þann afmarkaða málaflokk sem menn eru að ræða um og á að vera annað meginefni frv. Það segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Stjórn Ökukennarafélags Íslands vill leggja áherslu á að ökukennsla er mjög sérhæft starf sem krefst yfirgripsmikillar þekkingar á umferðarmálum, virkni og byggingu vélknúinna ökutækja, reynslu eða sérþekkingar í uppeldis- og kennslufræðum og ýmissi annarri sérþekkingu. Ekki verður séð af frv. né meðfylgjandi athugasemdum að tillit sé tekið til þessara þátta, að þeir sem komi til með að eiga að móta og hafa eftirlit með ökukennslu og ökuprófum hafi til að bera nokkra sérþekkingu á þessu sviði. Stjórn Ökukennarafélags Íslands óttast að svo kynni að fara að yfirstjórn þessara mála yrði með pólitískum gjörningi fengin í hendur aðila eða aðilum sem ekki byggju yfir þeim hæfileikum né þeirri þekkingu sem telja verður nauðsynlegar forsendur þess að vænta megi jákvæðs árangurs af störfum þeirra og yfirstjórn.
    Stjórn Ökukennarafélags Íslands telur því að eigi fyrirhuguð tilfærsla á tilgreindum þáttum til Umferðarráðs að skila þeim árangri sem flm. vænta, sé nauðsynlegt að búa svo um hnútana að um málefni ökukennslu og ökuprófa verði fjallað af einhverjum þeim aðilum sem þekkingu og reynslu hafa á viðfangsefninu. Því leggur stjórn Ökukennarafélags Íslands til að sett verði á laggirnar sérstök nefnd er fjalli um öll þau málefni er tengjast þessu nýja verksviði Umferðarráðs. Má í því sambandi benda á samhljóða niðurstöður tveggja stjórnskipaðra nefnda sem unnu að tillögugerð um framtíðarskipan ökukennslu og ökuprófa, en báðar þessar nefndir komust að þeirri niðurstöðu að slík nefnd væri höfuðforsenda þess að unnt væri að efla og bæta til muna ökukennslu í landinu. Stjórn Ökukennarafélags Íslands telur að sé þetta ekki gert sé verr farið en heima setið.``
    Slysavarnafélag Íslands er einn umsagnaraðilinn enn sem upp er talinn. Hvað skyldi sá aðili segja? Í umsögn þess segir um breytinguna í 3. gr. frv. ,,að þar sé í raun verið að rýra áhrif þeirra aðila sem tilnefna fulltrúa í ráðið og flytja allar ákvarðanatökur stjórnar til dómsmrh. eða ráðuneytis hans.`` Enn fremur segir: ,,Umferðarráð yrði þá aðeins umsagnaraðili um gerðir ráðuneytismanna.`` Þá leggur Slysavarnafélagið til að fundir Umferðarráðs verði æðsta stofnun ráðsins og taki endanlega ákvörðun um starfsemi þess. Það er tillaga Slysavarnafélags Íslands að sú breyting verði ekki gerð að Umferðarráð verði á forræði dómsmrh. heldur sjálfstæð stofnun.
    Áður hefur verið vikið að umsögn landlæknis og hún birt í nál. svo að ekki þarf að fara yfir hana.
    Þannig er, virðulegi forseti, að umferðarmál eru ákaflega mikilvægur málaflokkur og mikilvægt að þeim málum sé sem best skipað. Það er kannski sérstaklega vegna þess að umferðarmál eru að svo miklu leyti heilbrigðismál. Umferðarslysin lenda öll yfir á heilbrigðisgeiranum. Í skýrslu Umferðarráðs frá fyrsta umferðarþingi er birt mat, einhver nálgun sem verið er að reyna að gera til að meta tjónið af völdum umferðarinnar eða kostnað þjóðfélagsins af völdum umferðarslysa, svo ég orði þetta nákvæmlega. Það mat, sem

auðvitað er háð ákveðnum forsendum og fyrirvörum og verður því aldrei annað en vísbending eða nálgun um það hvað gæti verið, hljóðar upp á það að árlegur kostnaður sé 5--6 milljarðar króna. Þetta mat gerði hagfræðingur hjá ríkisspítölum sem nú er hv. 13. þm. Reykv. Það hlýtur því að vera meginverkefni og markmið þess ráðherra sem ræðst í endurskoðun umferðarlaga að taka á þeim atriðum sem helst eru slysavaldar, draga úr slysum og minnka það tjón sem þau valda. Það kýs hæstv. dómsmrh. að gera ekki. Hann leggur það mál til hliðar en leggur ofurkapp á formbreytingar.
    Mér er lífsins ómögulegt að vera sammála þessari áhersluröð og ég vil minna á það sem kom fram við framsögu þess máls, sem síðar varð núverandi umferðarlög, á Alþingi 13. mars 1987 og var útskýring á því hvers vegna menn settu inn bráðabirgðaákvæðið um endurskoðun umferðarlaga. Það voru tvö atriði sem menn vildu taka á. Það var annars vegar að setja nýjar reglur um ökukennslu og ökunám og hins vegar að setja skýr ákvæði um kennslu sem veitir réttindi til að stjórna léttu bifhjóli og torfærutæki. Auðvitað eiga menn í framhaldi af þeirri skýringu á málinu að virða þann vilja sem lá að baki þeirri lagasetningu. Hið sorglega er að það bólar ekki á upplýsingum um það hvernig hæstv. ráðherra hyggst taka á þessu stóra máli, sem mjög margir eru sammála um að er einn af höfuðþáttum í umferðarslysum, þ.e. ökukennslu og ökunámi. Það er verkefni sem hann hefði átt fyrir nokkru að vera búinn að klára og birta í reglugerð svo að okkur væri ljóst hvað væri um að ræða.