Umferðarlög

92. fundur
Föstudaginn 28. febrúar 1992, kl. 14:05:00 (3914)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þetta var afskaplega fróðleg ræða og ég get tekið undir þann þátt hennar sem varðar fjármögnun. Ég er hjartanlega sammála því að ekki má skerða fjármagn til umferðarfræðslu hér á landi eins og kom fram í framsögu minni fyrir þeim fyrirvara sem ég hef á því að skrifa undir nál. En það breytir því ekki að ég styð mjög eindregið að umsjón ökuprófa verði færð undir Umferðarráð. Rétt er að ítreka enn einu sinni að þrátt fyrir ýmsar þarfar og góðar ábendingar, sem hér hafa verið raktar, um það hvernig t.d. stjórn Umferðarráðs verði best fyrir komið þá mæltu þessir sömu aðilar með því að þessi háttur yrði hafður á. Þar var ekki áhyggjum fyrir að fara nema hjá einstaka aðila um að þetta mundi leiða til þess að vald safnaðist á fárra hendur. Eins og réttilega var bent hér á þá er Kvennalistinn mjög lítið hrifinn af slíku og valddreifingarsinnaður og ég þakka fyrir að athygli var vakin á því. En mín valddreifingarhugsjón gengur m.a. út á það að taka mið af þeim umsögnum sem koma víðs vegar að úr þjóðfélaginu og það gerði ég. Á því byggði ég mína niðurstöðu að sjálfsögðu.
    Ég vil leiðrétta eitt smálegt hérna. Talað var um í ræðu eins ræðumanns hér á undan að í þremur umsögnum hefðu umsagnirnar fjallað um heildarendurskoðun en ekki um þetta tiltekna frv. Þetta er rétt í sambandi við tvær þeirra en frá menntmrn. kom efnisleg umsögn þótt hún væri ekki á vegum menntmrn., eins og ég gat um áðan, heldur frá námsstjóra í umferðarfræðslu.