Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 16:47:00 (3931)

     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. e. greindi frá því í upphafi ræðu sinnar að hann hafi ekki numið að fullu þann talnafróðleik sem ég fór með í ræðu sem ég flutti við fyrri hluta umræðu um vegáætlunina, nánar tiltekið þann 25. febr. 1992. Það fór ekkert á milli mála þegar maður hlýddi á ræðu hv. þm. að hann hafði ekki numið þessa talnarunu að fullu. Því ef hann hefði lært hana eða skilið þá hefði hluti af ræðu hans verið fullkomlega óþarfur. Að vísu ekki sá hluti þar sem hann var að reyna að fegra sinn eigin hlut sem samgrh. en ýmislegt annað sem hann hafði til málanna að leggja var með þeim hætti að hann hafði greinilega ekki áttað sig á öllu því sem fram kom í þeim talnafróðleik sem ég fór með og hafði aflað mér hjá Vegagerð ríkisins.
    Kjarni þess talnalega fróðleiks var einfaldlega sá að ég sýndi fram á það, sem menn máttu kannski vita, að vegáætlanir undangenginna ára höfðu verið svo metnaðarfullar að á síðustu árum hefðum við aldrei komist neitt nálægt því að framkvæma vegáætlunina með þeim fjárveitingum sem Alþingi treysti sér til að leggja til vegamálanna, aldrei. Hvorki núna í ár né undanfarin fimm ár sem ég hafði til viðmiðunar. Ég hefði auðvitað getað farið lengra aftur í tímann. Ég býst við að veruleikinn hefði orðið eitthvað svipaður svo það var fullkomlega ástæðulaust að fara svo langt aftur. Fimm ár í þessu sambandi dugðu fullkomlega til þess að sýna fram á, sem var kjarni málsins, að vegáætlun og raunveruleikinn í framkvæmdum eru sitt hvað. Menn hafa aldrei treyst sér til þess að leggja fram fjárveitingar sem nema þeirri vegáætlun sem Alþingi hefur samþykkt hverju sinni. Það er alveg augljóst mál að við höfum búið við stórfelldan niðurskurð á vegaframkvæmdum miðað við upphaflega vegáætlun og þannig verður það einnig í ár, því miður.
    Hv. þm. ræddi í löngu máli um fyrri tíð og samanburð við ýmis tímabil í sögu samgöngu- og vegamála og komst að þeirri niðurstöðu að allt hefði verið með bestum árangri þegar Alþb. réði ýmist fjármálunum eða samgöngumálunum. Aðalatriði málsins er hins vegar (Gripið fram í.) að ef við lítum yfir lengri tíma, tökum 20 ár, eins og hv. þm. vék aðeins að, þá er augljóst að fjárveitingar til vegamála voru stærri upphæð, bæði ef við framreiknum hana til núvirðis og einnig ef við berum hana saman sem hlutfall af þjóðarframleiðslu en þá aðferð hafa menn hafa tíðkað mjög í umræðu um vegamál. Enda ekki að undra því fyrir 20 árum var sú aðferð höfð uppi að láta ekki einasta markaða tekjustofna Vegasjóðs duga til þess að standa undir vegaframkvæmdunum heldur var einnig um að ræða að nokkru fé var varið af fjárlögum til að standa undir þeim. Þess vegna varð hlutfall útgjalda til vegamála hærra hlutfall af þjóðarframleiðslunni fyrr á árum en nú.
    Hins vegar vil ég vekja athygli á að í ágætri ræðu sem hv. 4. þm. Norðurl. e. flutti á árinu 1989, er hann fylgdi úr hlaði þáltill. um vegáætlun 1989--1992, má segja að hann marki nokkuð stefnu í þessum efnum. Í þeirri tillögu mælir hann fyrir því að markaðir tekjustofnar Vegasjóðs ættu í framtíðinni að standa undir útgjöldum til vegamála. Og miðað við þær gefnu forsendur sem hæstv. þáv. samgrh. kom fram með komst hann að þeirri fróðlegu niðurstöðu að miðað við hinn nýja grundvöll mætti ná hlutfalli af þjóðarframleiðslu á bilinu 1,4--1,5% á næstu árum. Það verður að segja hv. þm. til hróss að í þeim efnum reyndist hann sannspár. Á næstu árum tókst að ná þessu hlutfalli upp í 1,4--1,5% og þá þjónar kannski ekki miklum tilgangi að vera með þann sparðatíning að velta því fyrir sér hvort hlutfallið hafi verið 1,44% eða

1,54%. En út af fyrir sig er rétt hjá hv. þm. að miðað við hina óniðurskornu upphæð til vegamála á síðasta ári hefði hlutfallið vitaskuld verið aðeins hærra og ég vefengi ekki þær tölur hans að þá hefði hlutfallið orðið 1,54%. En úr því að við erum farin að tala um þennan samanburð á þessum grundvelli þá skulum við líka rifja það upp hvert hlutfallið er á þessu ári miðað við nýjustu fáanlegar upplýsingar sem við höfum um þjóðarframleiðsluna á þessu ári. Þá er hlutfallið 1,57% samkvæmt sömu útreikningum miðað við nýjustu upplýsingar um þjóðarframleiðsluna þannig að ég hygg að með nokkrum rétti megi segja sem svo að hlutfallið á þessu ári sé ekki fjarri því sem það hefði orðið á síðasta ári miðað við óniðurskorna vegáætlunina þá.
    Hv. þm. kvartaði líka mjög undan því að það væri verið að gera ósanngjarnan samanburð með því að bera saman útkomu ársins 1991 við árið í ár. Þá vil ég hins vegar minna hann á að í ræðu minni, sem hann gerði mjög að umtalsefni, margítrekaði ég að ég væri að bera saman niðurskorna vegáætlunina á árinu 1991 við árið í ár. Hvað eftir annað rakti ég að það væri verið að bera saman niðurskornar áætlanir. Ég gerði mér auðvitað grein fyrir því að sá sérstaki niðurskurður sem efnt var til á miðju síðasta ári hlaut að skekkja myndina, það var auðvitað augljóst mál, bæði hvað varðar hlutfallið af þjóðarframleiðslunni og einnig hina framreiknuðu upphæð. Þess vegna er ég alveg sammála því að til að gæta allrar sanngirni er auðvitað eðlilegt að taka þetta fram alveg eins og ég gerði þráfaldlega í minni ræðu.
    En ég gerði líka annað. Ég bar saman óniðurskorna vegáætlunina á síðasta ári við þá tillögu til vegáætlunar sem hér liggur fyrir. Þá varð niðurstaðan sú að þrátt fyrir öll svigurmælin og stóryrtu yfirlýsingarnar er niðurskurðurinn á þessum tveimur tölum --- óniðurskorinni vegáætlun 1991 og þeirri till. til vegáætlunar sem við erum hér með til umfjöllunar --- þá er munurinn þar innan við 200 millj. Það er vissulega munur en ekki þær stjarnfræðilegu tölur sem menn hafa gefið til kynna í hálfgerðum blekkingarumræðum um vegáætlunina eins og hún liggur fyrir í tillöguformi.
    Í ræðu minni fyrir um viku vék ég líka að því tiltæki hv. 4. þm. Norðurl. e., þáv. hæstv. samgrh., að taka þátt í því að skerða markaða tekjustofna Vegasjóðs um upphæð sem svaraði --- það fer eftir því við hvaða vísitölu við miðum en það er að lágmarki milljarður, auðvelt að finna út töluna 1.200 millj. Við skulum láta það liggja á milli hluta. Aðalatriðið er þetta. Um var að ræða skerðingu á mörkuðum tekjum Vegasjóðs á þessu ári eins og hv. þm. viðurkenndi raunar áðan í máli sínu. En hv. þm. reyndi auðvitað að gera sinn fífil dálítið fegri með því að segja sem svo að hann hefði séð við þessu með því að auka tekjur Vegasjóðs á móti þannig að skerðingin hefði nánast orðið engin. Nú skulum við enn bera saman tölur af því að þetta gengur allt út á sama grunn. Þá er svolítið fróðlegt til þess að vita að ef við berum saman útgjöldin á árinu 1989 --- auðvitað verðum við að hafa framreiknaðar tölurnar til þess að þetta sé allt samanburðarhæft sem urðu 5 milljarðar 251 millj. kr. samkvæmt skýrslu samgrh. á því herrans ári 1989 sem var til umræðu. Tillaga sú sem við erum hér að ræða gerir ráð fyrir því að útgjöld til vegamála verði á árinu 5 milljarðar 565 millj. kr. Með öðrum orðum verða útgjöldin um það bil rúmlega 300 millj. hærri en þau voru á árinu 1989 sem hefur verið mjög til umræðu.
    Sá hluti ræðu minnar þar sem ég vék í örlitlu máli að samningi nokkrum sem gerður var milli ríkisins og Reykjavíkurborgar hefur orðið tilefni til nokkurrar umræðu m.a. hjá hv. 4 þm. Norðurl. e. þar sem hann reyndi auðvitað með sínum hætti að gera ummæli mín í þessum efnum nokkuð tortryggileg. Það út af fyrir sig er allt í lagi. Kjarni þess sem ég sagði var einfaldlega þetta. Ég var að vekja athygli á því að þessi samningur var gerður með tilvísan til tiltekinnar heimildargreinar í fjárlögum þess árs, heimildargreinar 6 eða 7 mig minnir að hafi verið. Sú heimildargrein gerði ráð fyrir því að samningur, sem gerður væri á þeim grundvelli, ætti að hjóta samþykki fjárveitinganefndar. Ég vakti síðan athygli á því að í þeim gögnum sem ég hefði aflað mér með því að tala við fyrrv. fjárveitinganefndarmenn og kynna mér þessi mál þá hefði mér ekki tekist að finna stafkrók um það að þetta hefði komið fyrir þá nefnd. Það var allt og sumt. Ég nefndi ekki einu orði efnisatriði samningsins. Ég gagnrýndi samninginn ekki einu orði, ekki efnisatriði hans. Hins vegar vildi ég aðeins að vekja athygli á þessum hluta málsins, hinum formlega hluta þessa máls og ég óskaði eftir því að samgn. þingsins, sem fær þessa vegáætlun til umfjöllunar, tæki þennan þátt til umræðu. Ég er alveg með á það að málafylgja þáv. borgarstjóra gerði það að verkum að þáv. fjmrh. og samgrh. gengu til þessa samnings og ég er þeirrar skoðunar að auðvitað eigi að virða samninga sem gerðir eru með þessum hætti milli ríkisins og Reykjavíkurborgar. En ég tel að fara þurfi ofan í það mál með hvaða hætti ríkisvaldið stóð við þennan hluta samningsins, heimildarákvæðið sjálft. Ég held þess vegna að það þjóni afar litlum tilgangi fyrir þá sem reyna að gera þennan málatilbúnað eitthvað tortryggilegan. Ég vek einfaldlega athygli á einni staðreynd sem er sú að sá hluti samningsins þar sem vísað er í heimildargrein fjárlaganna hefur mér vitanlega ekki komið fyrir fjárln. eða fjárveitinganefnd og ég óskaði eftir því að það mál yrði kannað í samgn. hver staða samningsins væri að því búnu. Það var nú allt og sumt. Eins og ég segi tel ég að það hafi ekki verið óeðlilegt nema síður sé að borgarstjórinn hafi leitað eftir því að fá þessi mál uppgerð, en ég tel það hins vegar hafi átt að vera hlutverk fjmrh., sem gerði samninginn, að ljúka honum með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í fjárlögunum sjálfum. Um það snerist efnisatriði þessa máls í málflutningi mínum.
    Virðulegi forseti. Þetta mál, till. til þál. um vegáætlun, þarf að fá mjög vandaða meðferð í samgn. og þar verður auðvitað að ganga í það að skipta þessum upphæðum. Ég geri mér grein fyrir því að niðurskorin vegáætlun eins og við höfum hér gerir það að verkum að svigrúm okkar verði þrengra en það

reynir hins vegar á samstöðu þingmanna ekki síst innan kjördæma til þess að finna sem skynsamlegastan og bestan flöt á því máli. Ég treysti því að um þau mál takist sem best samstaða eins og ævinlega hefur gerst í vegamálunum.