Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:10:00 (3934)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það gerðist nokkuð óvænt í síðustu viku að hv. þm. Einar Kr. Guðfinnsson flutti þau tíðindi að sá samningur sem ég hefði gert við borgarstjórann í Reykjavík væri ólöglegur. Alla vega væri það nokkuð ljóst að hann væri gerður í heimildarleysi. Hann óskaði jafnframt eftir því að samgn. Alþingis kvæði upp úrskurð í þessu máli. Ég hélt um daginn að þetta væri kannski eitthvert frumhlaup hjá þingmanninum og hef reiknað með því án þess að ég hafi fyrir því einhverjar sérstakar heimildir að hæstv. forsrh., fyrrv. borgarstjóri, hafi svona varpað á hann nokkrum orðum út af þessu máli, enda fannst mér það koma óbeint fram í ræðunni.
    Engu að síður kemur þingmaðurinn hér upp og endurtekur þetta, segir m.a. að þegar niðurstaða samgn. liggi fyrir, þá þurfi að kanna orðrétt hver staða samningsins er að því búnu og samgn. eigi að kanna lögformlegan þátt þessa samnings. Hv. þm. situr í fjárln. Alþingis, hann er einn af 63 þingmönnum þessarar þjóðar og hann gerir sér væntanlega grein fyrir því að það sem hann hefur flutt hér að nýju er mjög alvarlegur hlutur. Þess vegna er alveg ljóst að ég tek undir þá ósk og set fram þá kröfu að samgn. verði við þessari beiðni. Ég set fram þá kröfu að samgn. afli sér lögfræðilegrar umsagnar hjá formlegum lögfræðistofnunum og skili þeirri niðurstöðu hingað til þingsins og vegáætlunin komi ekki til afgreiðslu á Alþingi áfram fyrr en sú niðurstaða liggur fyrir. Það er alveg ljóst. Ég tek þetta ekki sem marklaus orð. Ég ætla mér að fá formlega úr þessu skorið. Ef það reynist vera rétt sem þingmaðurinn segir að þessi samningur hafi verið gerður í heimildarleysi (Forseti hringir.) --- ég er að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, en vona að forsetinn skilji að hér er ekki um létt mál að ræða. ( Forseti: Forseti gætir bara þingskapa.) Já, ég veita það, hann gerir það. Hér er um þungan áburð að ræða og er líka mjög mikilvægt mál vegna þess að Landsbankinn hefur minnkað skuld Reykjavíkurborgar við Landsbankann sem nemur, ef ég man rétt, 1,2 milljörðum af lausaskuld borgarinnar á yfirdráttareikningi við Landsbankann og gerði það í trausti þessa samnings vegna þess að Landsbankinn tók þennan samning sem ígildi greiðslu af hálfu Reykjavíkurborgar. Þannig að ef samningurinn er ógildur þá verður Landsbankinn umsvifalaust að hækka lausaskuld Reykjavíkurborgar við Landsbankann um 1,2--1,3 milljarða. Þess vegna, virðulegi forseti, fer ég formlega fram á að það verði orðið við þessari ósk og að vegáætlun verði ekki afgreidd á Alþingi fyrr en þetta liggur formlega fyrir.
    Svo ætti það að vera innanhússmál í Sjálfstfl. hvort hv. þm. Einar K. Guðfinnsson verður til þess að auka skuld Reykjavíkurborgar við Landsbankann um 1,2 milljarða.