Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:16:00 (3936)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það má vel vera að hv. þm. hafi ekki fullyrt að samningurinn væri ólöglegur, en hins vegar fór ekkert á milli mála að að hann telur að hann hafi verið gerður án þess að heimildum hafi verið fullnægt. Við skulum ekki kveða upp neinn dóm í því máli. Það er hins vegar mikill misskilningur hjá hv. þm. að málið sé eitthvað viðkvæmt fyrir mig. Alls ekki. Ég lýsti því yfir í síðustu viku að ég tæki því fagnandi að þetta væri skoðað. Ég hvet samgn. til að skoða það. Ég hvet samgn. til að leita sér álits færustu lögfræðinga, ég hvet hana eindregið til þess. Það eina sem ég var að gera hér var bara að gera það alveg ljóst að ég mun ganga eftir því síðar á Alþingi að það komi fram niðurstaða í því máli frá samgn. Það sem ég var að gera þingmanninum ljóst var að ég ætla að taka mark á orðum hans. Ég ætla ekki að láta honum haldast það uppi að vera með einhvern pólitískan leikaraskap til þess að geta spilað svo einhverja plötu úti í kjördæmunum. Nei, akkúrat ekki. Ég mun gera kröfu til þess að málið verði tekið fyrir og því fylgt til enda. Komist samgn. að þeirri niðurstöðu að samningurinn hafi verið gerður í heimildarleysi verður honum bara skilað. Þá er ekki hægt að taka hann upp og fara núna til fjárln. og biðja hana

að fjalla um hann. Það er ekki hægt því að lögin eru útrunnin og fjárlagaárið liðið og fjárveitinganefnd aflögð. Og þá er bara samningnum skilað. Þá skilar Landsbankinn samningnum til Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborg skilar honum til ríkisins. Þá það. Þá stöndum við bara frammi fyrir því að það hafi gerst.
    Krafa mín er þess vegna einfaldlega sú að í þessu máli komi formleg niðurstaða frá samgn. sem leiti sér álits lögfræðilegra aðila og gerir þinginu grein fyrir þeirri niðurstöðu.