Vegáætlun 1991--1994

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 17:55:00 (3940)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Herra forseti. Það fyrsta sem ég ítreka síðan áðan: Vegáætlun mun verða opnuð á þeim tíma sem áður hefur verið ákveðið og auðvitað er næsta furðulegt að einstakir þingmenn skuli gagnrýna það að dregið hafi verið að taka lán til þeirrar gangagerðar úr því að ekki var þörf fyrir lánið nú á þessu ári.
    Í öðru lagi liggur ljóst fyrir að ef ég hefði ætlað mér að taka 250--300 millj. kr. til Skipaútgerðar ríkisins á þessu ári, til taprekstrar þar, hefði verið óhjákvæmilegt að skera eitthvað annað niður í staðinn því við ætluðum okkur að hafa hallann á ríkissjóði innan þeirra marka sem ég gerði grein fyrir. Þá hefði verið óhjákvæmilegt að taka það fé annaðhvort af vegagerð, hafnagerð eða flugvallagerð. Þetta liggur alveg ljóst fyrir og þarf ekki að hafa fleiri orð um það, sérstaklega þegar haft er í huga að útgjöld vegna flóabáta hafa vaxið stórkostlega nú á tveimur árum og engar horfur eru á að úr því dragi á næsta ári vegna þeirra ákvarðana sem teknar hafa verið í sambandi við nýjar ferjur og flóabáta.