Flugmálaáætlun 1992--1995

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 18:06:00 (3945)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem hér er lögð fram er í samræmi við samþykkt flugráðs með þeim breytingum að liður til leiðréttinga og brýnna verkefna er hækkaður um 66,2 millj. kr. á árinu 1994 og um 139 millj. kr. á árinu 1995. Aðrir liðir eru lækkaðir til samræmis. Þetta er eðlilegt þar sem lög mæla fyrir um að flugmálaáætlun skuli endurskoðuð á tveggja ára fresti. Ég tel nauðsynlegt að menn taki sér nokkurn umhugsunarfrest um hvað rétt sé að leggja mesta áherslu á þegar þar að kemur.
    Samkvæmt I. kafla, 1. gr. laga nr. 31/1987, um flugmálaáætlun og fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, er þessi tillaga lögð fram. Áætlunin er í samræmi við frv. til fjárlaga fyrir þetta ár og spá Flugmálastjórnar um verðlagsþróun til ársloka 1995. Sjálfgert er að fjárln. fari yfir þessar tölur og þær verða samræmdar þeirri verðlagsspá sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv.
    Hér er gert ráð fyrir útgjöldum til framkvæmda samkvæmt mörkuðum tekjustofnum, þ.e. flugvallagjaldi og eldsneytisgjaldi.
    Afkoma Flugmálastjórnar á undanförnum árum hefur verið mjög góð. Önnur rekstrargjöld og stofnkostnaður hafa nánast verið í samræmi við fjárlagaheimildir en laun hafa farið talsvert fram úr þeim og er skýringin fyrst og fremst sú að stofnunin hefur þurft að inna af hendi ýmsa þjónustu án þess að stöðuheimildir hafi verið til staðar og yfirvinna hefur verið talsvert meiri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Hins vegar hafa sértekjur vegna reksturs orðið nokkru hærri en fjárlög ætluðu og hefur það bjargað afkomunni á undanförnum árum.
    Markaðar tekjur Flugmálastjórnar eru almennar rekstrartekjur og tekjur af flugvallagjaldi og eldsneytissölu sem bundnar eru til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 31/1987, um flugmálaáætlun. Tekjurnar eru því mjög háðar flutningum og umferð um flugvelli landsins.
    Árið 1990 var metár í farþegaflutningum innan lands en alls fóru 696.999 farþegar um innanlandsflugvellina og hafa flutningar verið jafnt og þétt stígandi frá árinu 1985.
    Á sl. ári urðu farþegaflutningar um 2% minni en árið áður.
    Vöru- og póstflutningar virðast vera á undanhaldi, þeir voru 12.000 tonn árið 1980 en aðeins 7.500 tonn á sl. ári.
    Þróun farþegaflutninga á undanförnum sex árum er misjöfn eftir flugvöllum. Flutningarnir eru svipaðir undanfarin sex ár á stærri flugvöllum að Vestmannaeyjaflugvelli undanskildum þar sem flutningar hafa vaxið mjög og Vestmannaeyjaflugvöllur er nú orðinn þriðji stærsti innanlandsflugvöllurinn. Flugvellirnir á Snæfellsnesi, Stykkishólmi og Rifi, virðast vera á undanhaldi og skýringin er vafalaust bætt vegasamband við höfuðborgarsvæðið.
    Við skiptingu útgjalda vegna framkvæmda var í meginatriðum stuðst við þá reglu sem skýrsla flugmálanefndar gerir ráð fyrir um forgangsröðun verkefna. Örfáar breytingar eru þó gerðar til hagræðis að ljúka þeim verkefnum sem þegar er byrjað á. Þá er einnig gert ráð fyrir að flýta endurbótum og aðflutningsbúnaði einstakra flugvalla.
    Vegna mikillar aukningar í flugumferð yfir norðanvert Atlantshaf er nú svo komið að húsnæði flugstjórnarmiðstöðvarinnar í Reykjavík er orðið of lítið og stendur starfseminni fyrir þrifum. Af þeim sökum var ákveðið sl. ár að hefjast handa við byggingu nýrrar flugstjórnarmiðstöðvar og hefur fengist samþykki Alþjóðaflugmálastofnunarinnar eða þeirra erlendu aðila sem þjónustuna nota um að standa undir 82% af byggingarkostnaði. 18% kostnaðar er greiddur af innlendu fjármagni en það er hlutur innanlandsflugsins í þjónustu flugstjórnarmiðstöðvarinnar. Þessi innlendi kostnaður er áætlaður 165 millj. kr. og greiðist af flugmálaáætlun næstu þrjú árin, 1992--1994.
    Flugvellir eru flokkaðir í fjóra flokka:
    Áætlunarflugvöllur I yfir 1.800 m að lengd.
    Áætlunarflugvöllur II 1.200--1.799 m að lengd.
    Áætlunarflugvöllur III 800--1.199 m að lengd.
    Aðrir flugvellir og lendingarstaðir án áætlunarflugs.
    Frá síðustu flugmálaáætlun hafa orðið nokkrar breytingar á flokkun flugvalla. Hætt er að fljúga áætlunarflug á flugvellina á Grundarfirði, Fáskrúðsfirði, Ólafsfirði og Suðureyri. Færist það því yfir á aðra flugvelli og lendingarstaði.
    Hafið er áætlunarflug yfir sumarmánuðina á Reykjahlíðarflugvöll og færist hann því upp í áætlunarflugvöll III.
    Þá hafa verið teknir út af flokknum aðrir flugvellir og lendingarstaðir af ýmsum ástæðum, Hólakot, Hrauneyjafoss, Sandur, Selárdalur, Seyðisfjörður og Svínafell.
    Forgangsröðun framkvæmda byggist á niðurstöðu sem öryggsnefnd Félags ísl. atvinnuflugmanna, Flugmálastjórn og flugráð urðu sammála um og flugmálanefnd ákvað að gera að sinni tillögu. Í greinargerð með tillögunni er gerð nánari grein fyrir því eftir hvaða reglum er farið í forgangsröðun. Enn fremur var áætlunarflugvöllum raðað í forgangsröð eftir því hve mikilvægu hlutverki einhver tiltekinn flugvöllur gegnir í flugsamgöngukerfinu eins og gert er grein fyrir í grg.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta en legg til að málinu verði vísað til samgn. og 2. umr.