Flugmálaáætlun 1992--1995

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 19:01:00 (3950)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Ég hafði raunar sjálfur tekið eftir því að þessi örstutti inngangur sem kemur að greinargerð flugráðs hefði betur orðið örlítið öðruvísi og eru það mistök af minni hálfu sem ég biðst afsökunar á. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að tekin var ákvörðun um að láta það í bili liggja milli hluta hvernig staðið yrði að frekari framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli. Það er búið að verja mjög myndarlegu fé til þess flugvallar nú á síðustu árum og hugmyndin er að halda því áfram. Ég sé satt að segja ekki að þingmenn Egilsstaða hafi séð neina sérstaka ástæðu til að gera athugasemdir við það að sá flugvöllur hafi ekki fullkomlega fengið til sín það sem við var að búast. Þessi flugmálaáætlun fyrir árin 1992--1993 er nákvæmlega eins og flugráð gerir ráð fyrir og óhjákvæmilegt er auðvitað að ljúka við að leggja bundið slitlag á flugvöllinn, það verður að gera það allt saman samtímis en ekki við því að segja þótt fjármunir séu ekki til þess að gera allt í einu. Þannig var skilið við fjárhag ríkissjóðs að óhjákvæmilegt var fyrir þá sem við tóku að fara gætilegar en áður hafði verið gert og auðvitað verðum við að horfa á flugmálaáætlun í því ljósi og það var m.a. skýringin á því að við tókum þá ákvörðun að verja fé til flugstjórnarmiðstöðvarinnar hinnar nýju af flugmálaáætlun.
    Á hinn bóginn voru ekki tök á því að hækka tekjur til flugmálaáætlunar meira en raun ber vitni af skiljanlegum ástæðum þar sem innanlandsflugið hefur verið rekið með halla en á því hvíla þegar verulegar opinberar álögur.
    Endalaust er hægt að deila um það hvað við eigum að fara nákvæmlega í að marka útgjöld vegna einstakra flugvalla fjögur og fimm ár fram í tímann. Ég geri ráð fyrir því að það megi draga í efa að sumar smáfjárhæðir sem er að finna í þessari þáltill. til flugvalla á árunum 1994 og 1995 komi að fullu gagni. Ég kaus á hinn bóginn að láta þetta standa eins og flugráð hafði gengið frá því og ég kaus líka að láta þá greinargerð fylgja tillögunni sem flugráð hafði sent mér vegna þess að hún er einföld og skýr. Hins vegar hefði nákvæmara orðalag af minni hálfu verið í innganginum að hér væri um tilfærslu frá Egilsstöðum að ræða, en ég sé ekki ástæðu til að óska eftir því að þetta verði leiðrétt og tillagan prentuð upp af þeim sökum. Hv. þm. er þetta kunnugt og það þskj. sem hér liggur fyrir öllum þingmönnum skiljanlegt.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á því sem hv. 3. þm. Vestf. sagði um flugvöllin í Bíldudal og taldi að honum væri ekki gerður mikill sómi. Má vera að það sé rétt og satt. Gert er ráð fyrir því á árinu 1994 að 81 millj. kr. sé varið til flugvallar á Patreksfirði og ef við ætlum okkur að halda við þau markmið sem flugráð setti í sambandi við Egilsstaðaflugvöll --- ég tala nú ekki um sem hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur sett fram varðandi Egilsstaðaflugvöll að hann eigi að vera 2.700 m langur og við eigum að láta það sitja fyrir öðru, ég skildi það svo, a.m.k. var minnst á þá tölu --- þá er óhjákvæmilegt að velta því fyrir sér hvaða staðir aðrir eigi að sitja á hakanum. Það var talað um 2.700 m þegar fyrir því var þvælst að kannað yrði með hvaða hætti hugsanlegt yrði að Mannvirkjasjóður Atlantshafsbandalagsins stæði að uppbyggingu á nauðsynlegum varaflugvelli hér á landi sem auðvitað veldur því að við þurfum af þeim sökum nú að verja meira fjármagni til flugvalla úti á landi en við hefðum ella gert. Þetta vita hv. þm. Við stæðum auðvitað betur að öðrum kosti. Það þarf ekki um það að ræða.
    Í greinargerð flugráðs segir með leyfi hæstv. forseta: ,,Á árinu 1994 er gert ráð fyrir að hefjast handa við fyrsta áfanga að lengingu Egilsstaðaflugvallar í 2.400 m. Áður hafði verið mörkuð sú stefna að flugvöllurinn yrði 2.700 m.``
    Ég skal ekki halda því til streitu að hv. 4. þm. Norðurl. e. sé þeirrar skoðunar nú en þessi tala,

2.700 m, hefur verið nefnd í sambandi við Egilsstaðaflugvöll eins og okkur er báðum kunnugt. Mig minnir að hv. þm. hafi vikið að því áðan --- það hefur þá verið hv. 2. þm. Austurl. sem það hefur gert, sem er ekki aðalatriðið í mínum huga heldur hitt að vera má að ýmsum þyki óhjákvæmilegt að endurskoða þau markmið sem við höfum í flugvallarmálum að einu eða tveimur árum liðnum. Ég held að ekki sé neitt óeðlilegt við það þegar ný ríkisstjórn tekur við að hún vilji hafa visst svigrúm til þess að endurskoða markmið og leiðir í samgöngumálum. Það hlýtur að eiga jafnt við um flugvelli sem vegi og annað. Í þessu felst með öðrum orðum ekki viljayfirlýsing um að framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll þurfi endilega að dragast á langinn en ég get þó ekki stillt mig um að benda á að það eru ýmsir aðrir flugvellir sem vaxandi fólksflutningar eru til. Ég get nefnt sem dæmi Hornafjörð. Ég get líka nefnt Húsavík og auðvitað væri æskilegt ef hægt yrði að standa betur að flugvallargerð þar. Það er jafnframt ljóst að ýmsir í Norðurl. v. telja að Sauðárkróksflugvöllur hafi um sinn verið settur til hliðar. Við heyrðum áðan frá þingmanni Vestfirðinga að hann vakti máls á því að æskilegt væri að reyna að standa svo að flugvallargerð á Þingeyri að hægt yrði að koma við beinum útflutningi á fiski loftleiðis frá Vestfjörðum. Á hinn bóginn er ljóst að ef öllum fjármunum næstu fjögur árin yrði nákvæmlega varið með þeim hætti sem flugráð hefur lagt til er Alþingi náttúrlega í fyrsta lagi að ávísa því ákvörðunarvaldi frá sjálfu sér út í bæ og hins vegar erum við að lítt athuguðu máli að spá nákvæmlega fyrir um framtíðina með þeim hætti sem við eftir á kysum e.t.v. að við hefðum ekki gert. Auðvelt er að benda á mjög alvarlegar skyssur sem hafa verið gerðar hér í flugvallagerð og í mannvirkjagerð flugvalla þar sem við sitjum uppi með dýr mannvirki sem mikið kostar að halda við, en ekkert áætlunarflug til viðkomandi staða. Það kemur m.a.í veg fyrir að hægt sé að hagræða í rekstri Flugmálastjórnar eins og æskilegt væri af öðrum sökum.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég legg áherslu á að að samgn. flýti því að afgreiða þetta mál. Það er nauðsynlegt að fara að undirbúa framkvæmdir, ég tala ekki um ef hugur hennar stendur til þess að breyta áherslum með einhverjum hætti. Ég vil endurtaka það sem ég sagði áðan að ég tel eðlilegt að fjárln. gangi úr skugga um að sá rammi sem í flugmálaáætlun er settur sé í samræmi við markmið fjárlaga en að öðru leyti óska ég eftir því að samgn. taki málið til athugunar samkvæmt þingsköpum og því verði vísað til 2. umr.