Flugmálaáætlun 1992--1995

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 19:11:00 (3951)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég verð að segja að svör hæstv. samgrh. í sambandi við Egilsstaðaflugvöll valda mér nokkrum vonbrigðum. Ég hef ekki haldið því fram að illa hafi verið staðið að málum varðandi flugvöllinn. Raunar var ræða mín í umræðunum áðan mjög hógvær. Hins vegar stend ég við það að náttúrlega væri afar æskilegt að geta tekið þennan flugvöll í notkun á þessu ári og a.m.k. komið á hann ljósum, þó ekki væri meira. Þangað eru komin ný og dýr tæki og þetta er einn af þessum aurbleytuvöllum og það er vont að hann standi malbikaður og ónothæfur vegna ljósleysis í marga mánuði. En þetta er kannski ekki stærsta málið heldur að ég heyri ekki annað af svörum hæstv. ráðherra en þetta lengingarmál sé stórhættu og þar með það stefnumark að Egilsstaðaflugvöllur verði varavöllur í millilandaflugi. Hæstv. ráðherra sagði reyndar að ég ætli ekki að segja það, ef ég hef tekið rétt eftir orðum hans, að framkvæmdum verði frestað. Hins vegar get ég ekki annað en bent á ýmsa aðra flugvelli hér og þar að mér er fullkomlega ljóst að það eru ýmsir aðrir flugvellir þar sem þarf að framkvæma ýmislegt. Ekki ætla ég að fara að mæla á móti því og ég veit að takmarkaðir fjármunir eru til skiptanna. En þá verður að liggja ljóst fyrir að frá þessari stefnumörkun hafi verið horfið. Ég sé ekki á svörum hæstv. ráðherra að hann hafi tekið að nokkru leyti af skarið um það að ekki verði horfið algerlega frá þessari lengingu eftir tvö ár.