Flugmálaáætlun 1992--1995

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 19:15:00 (3953)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Í skýrslu sem var unnin um það hvernig bæri að leysa varaflugvallarmál okkar Íslendinga og eigin þarfir okkar í þeim efnum og þarfir almenns og borgaralegs flugs á þessum heimshluta, þá var það niðurstaðan í fyrstu úttekt að æskilegast væri að flugbraut aðalvaraflugvallar fyrir suðausturhornið, sem yrði á norðan- eða austanverðu landinu yrði hið minnsta 2.700 m, þannig að unnt væri að fullnýta afkastagetu tveggja hreyfla flugvéla og velflestar ef ekki allar tegundir gætu lent þar og flestar tekið af með nokkurn veginn fulla hleðslu.
    Endurskoðun á þessum málum og frekari vinna að þessu leyti í flugráði og hjá öryggisnefnd flugmanna og víðar leiddi menn síðan að þeirri niðurstöðu, einnig í ljósi ákvarðana sem Flugleiðir höfðu þá tekið um endurnýjun á flugvélaflota sínum, að 2.400 m braut væri fullnægjandi frá öryggissjónarmiðum séð. Þá var mat manna að ekki væri réttlætanlegt að leggja út í þann viðbótarkostnað til þess að ná þessari nýtingu á afkastagetu vélanna úr því að öryggissjónarmiðunum væri fullnægt með 2.400 m braut. Hins vegar bryddaði hæstv. samgrh. upp á hlutum sem kannski gefa fullt tilefni til þess að taka nokkra lotu í þessari umræðu aftur þegar hún heldur áfram þar sem eru varaflugvallarmál okkar að öðru leyti. Hæstv. ráðherra hélt því fram af því að menn hefðu þvælst fyrir eins og hann orðaði það varðandi athugun á því að byggja herflugvöll norður í landi þá væri staðan núna verri í íslenskum flugmálum og þyrfti að verja meiru fé til uppbyggingar varaflugvallar. Þetta er beinlínis rangt. Núna væri staðan sú ef farið hefði verið að þeim óviturlegu ráðum manna sem vildu setja allt sitt traust á hernaðarframkvæmdir að menn hefðu ekki hafið þá uppbyggingu á Egilsstöðum sem nú er komin vel á veg og er að leysa þessi varaflugvallarmál fyrir okkur heldur setið með hendur í skauti og beðið eftir hernaðarmannvirkinu. Nú væri svo komið á daginn að hernaðaraðilar væru fallnir frá áformum um þessa uppbyggingu eins og augljóst er vegna breyttra aðstæðna og menn sætu þar af leiðandi eftir hafandi tapað 2--3 árum. Varðandi það sem hæstv. ráðherra sagði um lengd Egilsstaðaflugvallar þá hlýtur maður að spyrja: Hvar eru ræðumennirnir frá undangengnum árum sem töldu að varaflugvöllurinn væri ekki nógu góður nema hann væri minnst 3.000 m?