Flugmálaáætlun 1992--1995

93. fundur
Þriðjudaginn 03. mars 1992, kl. 19:18:00 (3955)

     Þuríður Backman (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mig langar vegna orða hæstv. samgrh. um að við Austfirðingar megum vel við una þeirri upphæð sem við fáum til framkvæmda á Egilsstaðaflugvelli að taka það fram að ég hef ekki heyrt neitt annað en við séum mjög sátt við þann stóra hlut sem við fáum af því framkvæmdafé sem er til uppbyggingar flugvalla. Ég held að það sé líka stór spurning hvort ekki eigi að taka svona stóra verkhluta sérstaklega út úr og hafa þá á sérfjárveitingu. Við lítum á þessar 200 millj. sem á að framkvæma fyrir í ár, þ.e. að malbika. Við sitjum eftir með völl sem er tilbúinn til lendingar að öllu öðru leyti en því að ljós vantar og nokkur önnur öryggistæki og er talað um 20--30 millj. kr. til viðbótar. Þessar milljónir er ekki hægt að taka af því litla fé sem eftir er. Ég vildi koma því á framfæri hvort ekki væri hægt að taka af fjárframlagi næsta árs eftir að malbikun er lokið og þegar komið er fram á haustið og setja þennan öryggisbúnað svo að það sé hægt að taka þennan flugvöll í notkun þegar hann er í raun fullmalbikaður.