Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 14:00:00 (3961)

     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að leiðrétta málflutning hæstv. samgrh. Mér þykir leitt að ráðherrann skuli ekki einu sinni geta verið mér sæmilega sammála þegar ég hef lýst því yfir að ég sé í meginatriðum sammála þessari tillögu.
    Hann tók þannig til orða að það væri verið að gera flugvöll fyrir Egilsstaði. Út af fyrir sig má segja það en í mínum huga eru menn ekki að gera flugvöl fyrir Austfirðinga eða Egilsstaðabúa, menn eru að koma upp millilandaflugvelli fyrir Íslendinga og það flug sem Íslendingar hafa umsjón með og þeim flugvelli var valinn staður að lokinni ítarlegri athugun þar sem fagleg sjónarmið réðu mestu.
    Ráðherra stillti því þannig upp að annaðhvort yrði veitt fé til þess að standa við tillögu flugráðs um að lenging flugbrautarinnar í 2.400 m færi fram 1994 eða 1995 eins og til stendur samkvæmt till., stillti þessu upp á móti því að skera niður aðra liði í áætluninni. Það er rangt, virðulegur ráðherra, vegna þess að því fé sem ráðherrann sker af ver hann ekki í aðrar framkvæmdir heldur safnar hann því saman í lið sem heitir til leiðréttinga og brýnna verkefna, gerir það sem sagt að óráðstöfuðu fé, fé sem er þá fyrir ráðherrann til að ráðstafa. Það er verið að auka miðstýringuna í ráðstöfun fjármagns með því að láta Alþingi ráðstafa minna fé og halda meira fé eftir handa ráðherra svo að hann geti ráðstafað því eins og honum hentar.