Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 14:21:00 (3963)

     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Þetta var nokkuð góð ræða hjá hv. 3. þm. Suðurl., nema að hún byggðist á einum alvarlegum misskilningi, sem ég vil leiðrétta og það er að hvorki 2.400 m braut né 2.700 m braut fer út í Lagarfljót. (Gripið fram í.) 2.700 m brautin nær að fljótinu, 2.400 m brautin nær nokkuð inn fyrir veginn og það þarf að færa hann, mér er það alveg ljóst. Það kom fram í ræðu hv. 3. þm. Suðurl. að reiknað hefur verið með þessari lengingu í uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar og meira að segja var flugvöllurinn endurhannaður til að þessi 2.400 m lenging gæti átt sér stað eins og kom fram í hans ræðu. Það var vegna stefnumörkunar um að þarna yrði varavöllur og það er það sem ég hef verið að reyna að fá fram trekk í trekk í þessari umræðu, hvort við þá stefnumörkun er staðið. En ég er búinn að fá alveg nægilega vitneskju um að það er ekkert ákveðið um það. Það er sá lærdómur sem ég dreg af þessari umræðu.