Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 14:23:00 (3964)

     Vilhjálmur Egilsson :
    Virðulegi forseti. Þegar þessa áætlun bar fyrst fyrir mín augu sem tillögu frá flugráði þá leitaði maður eins og gjarnan vill verða að framkvæmdum og framlögum til þeirra í sínu kjördæmi og það verður nú að segjast eins og er að ég fann varla að það ætti yfirleitt nokkuð að gera fyrir þá peninga sem veitt er til þessa málaflokks og menn sjá fyrir sér á næstu árum. Hlutur kjördæmisins er ansi rýr. Reiknað er með að hægt sé að sjá af heilum 2 millj. á þessu ári og miðað við 4,2 millj. á næsta ári, hvort tveggja til Sauðárkróksflugvallar. Þetta eru einu framkvæmdirnar sem fá einhverja náð frá þeim hugmyndasmiðum sem hafa hér lagt hönd á plóg. Siglufjörður fær nákvæmlega ekki neitt en síðan er hugmyndin að árið 1994 eigi að setja einar 3,3 millj. í það að athuga málið. En það vita allir að flugvöllurinn þar er því sem næst stórskemmdur ef ekki ónýtur. Ég veit nú ekki hvað á að taka sterkt til orða í þeim málum. Það er að sjálfsögðu afar bagalegt fyrir þetta kjördæmi. Eins og síðasti ræðumaður, hv. þm. Árni Johnsen, gat um var það inni í myndinni í sínum tíma að Sauðárkróksflugvöllur yrði fullkominn millilandaflugvöllur og við þingmenn kjördæmisins munum að sjálfsögðu berjast fyrir því máli eins kappsamlega og hægt er.
    Hins vegar rakti hann líka varðandi Siglufjarðarflugvöll að hann er afar mikilvægt samgöngutæki fyrir Siglfirðinga sem eins og allir vita eru oft einangraðir og flugsamgöngur hafa því afar mikla þýðingu fyrir þann stað. Það er mjög kostnaðarsamt að reka þangað áætlunarflug þegar völlurinn er eins illa farinn og nú er. Síðan er það auðvitað ekki bara spurning um farþega heldur líka um vöruflutninga.
    Það má segja sem svo að flugsamgöngur á staði sem liggja tiltölulega vel við bílaumferð eigi undir högg að sækja vegna þess að bíllinn veitir fluginu það mikla samkeppni nú orðið og ekki síst þegar vegirnir eru orðnir svo góðir sem raun ber vitni. En það náttúrlega hjálpar ekki í þessum efnum þegar flugvellirnir eru algjörlega vanræktir og margir erfiðleikar sem skapast af þeim ástæðum.
    Ég ætla ekki að segja að það sé úr meiri peningum að spila í sjálfu sér heldur en veitt er til þessa

málaflokks en ég verð að viðurkenna að mér finnst að bitinn sem hrekkur í kjördæmið þar nyrðra, í Norðurl. v., sé ansi lítill svo ekki sé dýpra í árinni tekið og væri æskilegt ef hægt væri að skera aðeins stærri bita af kökunni í það kjördæmi þannig að það sæist eitthvað og menn vissu af því að það væri flugvöllur í kjördæminu.