Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 15:16:00 (3969)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Ég held að það sé sáralítill ágreiningur milli mín og hv. síðasta ræðumanns. Það sem ég var ósköp einfaldlega að segja í minni ræðu hér áðan var að rekja þá röð ákvarðanatöku varðandi málefni Egilsstaðaflugvallar sem liggur fyrir. Það er rétt sem hann segir að auðvitað var strax þegar flugmálaáætlunin var á sínum tíma lögð fyrir í fyrsta sinn gert ráð fyrir að Egilsstaðaflugvöllur yrði í röð fremstu flugvalla þar sem uppbygging yrði hafin, enda lélegur flugvöllur með mikla umferð. Og til að skjóta því að í leiðinni, þá hef ég svo oft úr þessum ræðustóli hrósað því framtaki þegar flugmálaáætlunin og tekjuöflunin til flugvallaruppbyggingar var á sínum tíma unnin af ágætum þáv. hæstv. samgrh., Matthíasi Bjarnasyni, að mig munar ekkert um að bæta því við einu sinni enn. Ég tel að þetta hafi verið eitt allra þarfasta verk sem lengi hefur verið unnið í okkar samgöngumálum og sé að skila okkur miklum árangri.
    Ákvarðanir um stöðu Egilsstaðaflugvallar í samhengi við varaflugvallarmálin komu til sögunnar síðar, eftir hina margfrægu þáltill. Egils Jónssonar og félaga, og það nægir vonandi til að eyða alveg þessum misskilningi.
    Það er svo að sjálfsögðu rétt hjá hv. 3. þm. Austurl. að mikilvægi Egilsstaðaflugvallar er og verður auðvitað mest vegna flugsamgangna til þess svæðis og þess landshluta. Hitt er nauðsynlegt af bæði rekstrarlegum og tæknilegum ástæðum að ákveðinn flugvöllur gegni varaflugvallarhlutverki umfram aðra og þar sé þá lagt í rekstur og búnað sem því svarar. Varaflugvöllur er síðan bara hver sá flugvöllur sem flugstjóri kýs að lenda á ef hans upphaflegi ákvörðunarstaður lokast og það er reyndar svo í fluginu að það er flugstjórinn sjálfur sem ræður því hvert hann snýr ef flugvél hans getur ekki lent á upphaflegum ákvörðunarstað. Þess vegna mun það örugglega fara svo í mörgum tilvikum, þó svo að Egilsstaðaflugvöllur heiti varaflugvöllur, að flugstjórar muni t.d. velja að lenda á Akureyri af því að það er e.t.v. lítið eitt styttra frá Keflavík, fleiri hótel á því svæði eða annað því um líkt. Þannig munu auðvitað í fyllingu tímans standa til boða nokkrir valkostir í þessum efnum sem flugstjórar geta valið úr og hef ég oft sagt að þá mun þessi varaflugvallarumræða sem vafðist svo mjög fyrir mönnum uppi á Íslandi á níunda áratugnum þykja brosleg.