Flugmálaáætlun 1992--1995

94. fundur
Miðvikudaginn 04. mars 1992, kl. 15:58:00 (3974)

     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Þessar deilur sem nú hafa risið í þingsalnum undirstrika þau mismunandi sjónarmið sem á undanförnum árum hafa komið fram hér í þinginu á þessum málum, hvar æskilegast sé að hafa varaflugvöllinn. Nú hefur lítið verið barist fyrir þeim flugvelli sem talinn er vænsti kosturinn og heppilegastur til slíkra hluta, sem er Aðaldalsflugvöllur þegar allt er lagt saman. En það var ákvörðun forvera míns að ýta honum til hliðar og taka fremur Egilsstaðaflugvöll sem varaflugvöll hér á landi eins og hann hefur sjálfur gert grein fyrir og ég sé ekki að ég geti þar neinu bætt við og hef ekki löngun til þess.
    Ég ætla ekki á þessu stigi að blanda mér inn í þessar hugmyndir, inn í þessar deilur. Það hefur líka komið til tals hvort rétt sé að lengja Akureyrarflugvöll til suðurs þannig að það er um ýmislegt rætt í þessu sambandi og nauðsynlegt að ætla sér tíma til þess að yfirfara þær áætlanir sem uppi hafa verið. En auðvitað er mikill misskilningur ef einhver heldur að þær framkvæmdir sem nú eru ákveðnar á Egilsstaðaflugvelli komi ekki að fullum notum. Það er mikill misskilningur, þær koma að fullum notum og nýtast bæði innanlandsflugi sem varaflugvöllur og til millilandaflugs. Um það þarf ekki að fjölyrða, svo augljóst sem það nú er.
    Það er líka nauðsynlegt að það komi fram að ekki hafa tekist samningar á milli Flugmálastjórnar og landeigenda um nauðsynlegt land undir flugvöll, ef lengdur yrði, þannig að þau mál eru ekki öll jafnskýr og gefur hefur verið í skyn og raunar undarlegt að helstu ákafamenn flugvallarins skyldu ekki einmitt minnast á að þar sé þó atriði sem er óljóst, án þess að ég segi að það eigi að skipta sköpum þegar ákveðið er hvar nýr flugvöllur rísi.
    Ég stóð ekki upp að þessu sinni til að blanda mér í umræður þingmanna um hvar rétt sé að leggja helsta áherslu á flugvallargerð eftir tvö ár. Ég vil á hinn bóginn minna á líka þegar við tölum um Sauðárkróksflugvöll að það er sú nýja stefna í samgöngumálum, sem ég hélt raunar að væri samstaða um milli þingmanna, að reyna að nýta vel þá fjármuni sem fara til samgöngumála og þá verður að taka tillit til þeirra hugmynda sem uppi eru bæði varðandi flugvallagerð, hafnir og vegi, en fyrir okkur er óhjákvæmilegt svo fá sem við erum að reyna að nýta fjármunina þannig að á þeim flugvöllum sem umferð er mest vegna innanlandsflugs sé reynt að halda uppi mestri gæslu og lengstum vöktum. Ég skal svo ekki orða þetta frekar, aðeins skjóta því að í lokinn að þeir sem báru ábyrgð á stefnu síðasta samgrh. í flugvallarmálum voru auðvitað ekki þeir menn sem þá voru í stjórnarandstöðu og þýðir lítið fyrir hv. þm. Framsfl. að varpa skotum af því tilefni til manns sem var í stjórnarandstöðu við Steingrím J. Sigfússon, hv. þm. og þá hæstv. ráðherra einmitt í flugvallarmálum eins og ég hef aðeins vikið að áður.
    Ég stóð annars aðallega upp vegna fyrirspurnar hv. 2. þm. Vestf. Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér hvaða áhrif jarðgöngin fyrir vestan muni hafa á þróun samgöngumála og þá auðvitað líka flugmála. Það er á dagskrá hjá Flugmálastjórn að fram fari tæknilegar athuganir varðandi flugvallarstæði á Sveinseyri, m.a. varðandi möguleika á aðflugi og blindflugi og ýmsu öðru. Þessi mál eru á athugunarstigi en auðvitað óhjákvæmilegt að endurskoða öll samgöngumál, bæði hafnamál og flugmál í ljósi þeirra framkvæmda sem nú eiga sér stað á Norðurfjörðum fyrir vestan.