Gæðamál og sala fersks fisks

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 10:39:00 (3978)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Þetta er 33. mál þingsins sem hér er til umræðu. Það er farið að líða nokkuð á þingið og þess vegna ástæða til að vekja athygli á því hvað það hefur dregist að þetta mál kæmi til umræðu.
    Ég nefni það vegna þess að málunum sem er hreyft í tillögunni eru mál sem þyrfti að taka á og hefði auðvitað þurft að gera fyrir löngu. Í þessari tillögu og í annarri þáltill. sem við höfum flutt í vetur, sem ekki hefur komið til umræðu í þinginu, höfum við verið að hreyfa málum sem stefna í sömu átt, þ.e. að reyna að hamla gegn óæskilegri þróun í sjávarútvegi. Bæði eru þessi mál hugsuð til langs tíma og líka til styttri tíma, þ.e. á meðan þessi endurskoðun fiskveiðistefnunnar stendur yfir.
    Það kemur í ljós af þeim umsögnum sem liggja fyrir og bárust nefndinni að menn hafa mjög mismunandi skilning á því sem lagt er til. Menn telja sumir hverjir enga ástæðu til að setja reglur um t.d. hvað fiskur megi vera orðinn gamall þegar honum er landað. Það eigi kaupandinn að dæma um með verði. Þar er ég á algjörlega öðru máli. Sú skoðun er í raun og veru fáránleg fyrir þjóð sem lifir á því að selja fisk að hún eigi ekki að hafa reglur sem koma í veg fyrir að léleg vara sé seld á markaðina, jafnvel þótt einhver útgerðarmaður eða fiskkaupandi og seljandi telji sig hafa hag af því að selja lélega vöru er ekki þar með sagt að það eigi að gilda.
    Allar hömlur hafa auðvitað tvær hliðar. Annars vegar hafa þær þann tilgang að koma að almennum notum. Í þessu tilfelli til að auka álit á íslenskum fiski á erlendum mörkuðum. En þær hafa líka aðra hlið, þær eru hamlandi fyrir þá sem veiða fiskinn og selja hann. Og auðvitað er eðlilegt að þeir sem standa frammi fyrir því að verið er að skerða rétt þeirra á einhvern hátt til að haga sér eins og þeim hentar séu kannski á móti því. Þess vegna eru umsagnir sem nefndinni hafa borist með tvennum hætti. Annars vegar eru umsagnir þeirra sem hafa hagsmuna að gæta í atvinnulegu tilliti, t.d. fiskverkendur sem telja að ástæða sé til að hlutast til um að fiskurinn verði seldur innan lands, og svo aftur hinna sem telja að allar hömlur sem lagðar eru á að selja fiskinn beint til útlanda séu af hinu illa.
    Við höfum ekki lagt það til með þessari tillögu að það verði gert að skyldu að selja fiskinn á innanlandsmarkaði heldur eingöngu að það sé skylda að bjóða fiskinn til sölu, að það sé með ákveðnum, sannanlegum hætti boðið upp á að íslenskir kaupendur geti boðið í þann fisk sem viðkomandi veiðiskip hefur veitt. Það má gera með ýmsum hætti sem ég ætla ekki að fara út í að lýsa en minni á að töluverður hluti af fiski, sem seldur er í landinu, er t.d. seldur um tölvumarkað, þannig að það gæti verið ein af aðferðunum sem mætti nota til að uppfylla þetta skilyrði.
    Við erum í þessu tilfelli að mínu viti fyrst og fremst að fjalla um atvinnumál. Við erum að fjalla

um það sem hefur verið að gerast á undanförnum árum og er að gerast, að fiskur sem veiddur er á Íslandsmiðum er í meira og meira mæli unninn erlendis og úti á sjó. Það dregur úr þeirri vinnu sem er unnin af íslenskum höndum við íslenskan fisk vegna þess að sá fiskur sem er unninn úti á hafi er yfirleitt unninn með miklu ódýrari hætti en í fiskvinnslustöðvunum. Ég tel að þetta sé óheillaþróun að því leytinu til að atvinnutækifærum mun halda áfram að fækka í fiskiðnaði á Íslandi ef ekki verður brugðist við.
    Við þurfum að gefa frystihúsunum og fiskvinnslustöðvunum í landinu tækifæri til þess að laga sig að þessari þróun og tækifæri til þess að keppa við bæði útflutninginn og fiskvinnsluna í frystiskipunum úti á hafi.
    Það kom fram á fundi sjútvn. í gær að meðaltalsmunur á verði sem fæst fyrir fisk sem unninn er um borð í frystiskipum og fyrir fisk sem unninn er í frystihúsum er 4%. Það er meðaltalsmunur sem segir okkur að frystihúsin fá auðvitað langtum hærra verð fyrir þá bestu vöru sem þau eru að framleiða en frystiskipin fá. Þess vegna hlýtur að vera möguleiki fyrir frystihúsin að bregðast við þeirri samkeppni sem orðin er og er að verða meiri og meiri milli frystihúsanna og fiskvinnslunnar úti á sjó.
    Það hlýtur að gerast fyrst og fremst með tvennum hætti. Annars vegar að sókn þeirra skipa sem fiska fyrir fiskvinnsluna í landi verði breytt þannig að fiskurinn komi betri að landi, honum verði landað fyrr. Menn verða að horfast í augu við að það verður ekki framtíð íslensks sjávarútvegs til góðs að hér verði landað fiski sem búið er að geyma í ís í 10--12 daga eins og algengt er. Það er ekki framtíð í því. Og ef fiskvinnslan í landinu ætlar ekki að breyta út af þeirri braut sinni þá er hún dæmd til að tapa í samkeppninni við þá sem vinna fiskinn ferskan, frystiskipin og hina aðilana sem landa fiskinum eftir stuttan tíma.
    Mér finnst þetta ákaflega dapurleg þróun sem er í gangi vegna þess að ég tel að það sé mjög óeðlilegt að hún verði með slíkum hraða, þ.e. að atvinnan í fiskinum breytist svona. Við þurfum sem sagt að finna leið til að hægja á þróuninni og gefa fiskvinnslunni tækifæri til að bregðast við þessum nýju aðstæðum. Annars munum við sitja uppi með það að atvinnutækifærum fækkar enn þá meira í sjávarútvegi en orðið er.
    Eins og komið hefur fram varð samstaða um það í sjútvn. að málinu yrði vísað til ríkisstjórnarinnar vegna þess að þessi mál eru í deiglunni. Ég tel að út af fyrir sig geti ég ekki verið á móti því. Hins vegar finnst mér að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig nægilega vel í því á þeim tíma sem hún hefur setið að hamla á móti og reyna að koma í veg fyrir að óheillaþróunin haldi áfram í sambandi við þessa hluti. Ég hefði talið mjög eðlilegt að menn skoðuðu hreinlega þann möguleika að frysta þetta ástand sem nú er og banna að fleiri skip verði t.d. gerð að frystiskipum þar til menn hafa endurskoðað fiskveiðistefnuna. Eins og ég minnti á áðan höfum við lagt fram tillögu sem er hugsuð í þessu augnamiði.
    Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Það urðu verulegar umræður í haust, bæði í þinginu og einnig í fjölmiðlum, um þessi gæðamál þar sem það kom fram að gæðamál íslensks fisks eru að mörgu leyti ekki í því horfi sem þau ættu að vera. Það er verið að auka kröfurnar á öllum mörkuðum. Það er verið að auka kröfurnar í Ameríku, það er verið að auka kröfurnar í Evrópu og við erum nauðbeygðir að bregðast við. Og mér finnst út af fyrir sig að ekki eigi að þurfa að neyða okkur af okkar viðskiptamönnum til að bregðast við heldur eigi það að vera stöðu okkar vegna sem framleiðenda og fólks sem lifir fyrst og fremst á að selja fisk að vera okkar stóra markmið að það sé ævinlega besta hráefni sem kemur á markaðinn frá Íslandi. Og við megum ekki horfa upp á það að hér sé út af brugðið með því að fara illa með þá vöru sem fæst úr hafinu.