Útfærsla togveiðilandhelginnar

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:04:00 (3983)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með síðasta ræðumanni. Ég ætla ekki að endurtaka hans orð en ég tel að menn þurfi að setjast yfir þessi mál og reyna að ná samstöðu meðal allra stjórnmálaflokka um aðgerðir. Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða það.
    Ég kom hér aðallega upp til að nota tækifærið til að fagna því framtaki sjútvrh. að færa út togveiðilandhelgi með suðurströndinni og við Vestmannaeyjar. Mér finnst ástæða til þess að nefna það sem hefur verið vel gert. Og ég vona að það sem hann hefur haft við orð verði að efndum, þ.e. að það verði skoðað allt í kringum landið hve mikið á að auka friðun fyrir ýmsum veiðarfærum. Mér finnst að það eigi að skoðast ævinlega og alltaf hvaða áhrif veiðarfæri hafa á lífríkið í sjónum. Það eru ekki bara togveiðarfæri heldur þarf að skoða öll önnur veiðarfæri og áhrif þeirra og friða fyrir þeim. Þetta eru auðvitað sóknartakmarkanir sem þarf að taka upp. Og það verða menn að muna að þótt þeir hafi kannski þá skoðun að hér eigi að ríkja kerfi þar sem menn skammta veiðina eftir tonnum þá komast þeir ekki undan því til lengdar að taka tillit til lífríkisins í sjónum og taka þess vegna upp sóknartakmarkanir líka. Þetta er auðvitað viss dómur um að aflamarkskerfið dugar auðvitað ekki eitt og sér. Það er útilokað mál.