Þorskeldi

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:06:01 (3984)

     Frsm. sjútvn. (Matthías Bjarnason) :
    Herra forseti. Þessi till. til þál. um þorskeldi er flutt af Ragnari Arnalds og er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela sjávarútvegsráðuneytinu og Hafrannsóknastofnun að láta hefja tilraunir með seiðaeldi í stórum stíl til eflingar þorskstofninum við Ísland.``
    Þessari tillögu fylgir greinargerð um þorskeldi, um það sem gert hefur verið hjá nágrannaþjóðum okkar, í Noregi og Danmörku og víða komið við.
    Sjútvn. ræddi þessa tillögu ítarlega á sínum fundum. Menn voru þar almennt sammála um að hér væri hreyft mikilvægu máli sem nauðsynlegt væri að gefa frekari gaum.
    Eldi á seiðum laxfiska hefur verið stundað hér á landi áratugum saman og með góðum árangri en matfiskeldi til útflutnings hófst um miðjan síðasta áratug. Erlendis hefur tilraunaeldi verið hafið síðustu árin

á fjölmörgum tegundum botnfiska, hryggleysingja og þörunga og í kjölfarið hefur vaknað hér áhugi á eldi annarra tegunda en laxfiska. Þannig hófst tilraunaeldi á lúðu við Eyjafjörð og á Reykjanesi í lok síðasta áratugar. Tilraunir með krækling í Hvalfirði skiluðu einnig góðum árangri og hafnar eru tilraunir með ræktun hörpudisks í Breiðafirði. Kannanir hafa verið gerðar á eldi hryggleysingjans sæeyra í heitu vatni og fyrirhugaðar eru tilraunir með eldi á heitsjávartegundum hér á landi.
    Eins og menn eflaust vita á Ísland aðild að samnorrænu verkefni um hafbeit á þorski en tilraunir með þorskeldi í Noregi og Danmörku lofa nokkuð góðu. Því telja flestir sem fylgst hafa með þessum málum það áhugavert að hefja þessar tilraunir með eldi á þorski hér á landi. Mörg fiskeldisfyrirtæki sem hafa hætt starfsemi hafa möguleika á að nýta þá aðstöðu sem komið hafði verið upp þar. Sú nýting mundi væntanlega geta orðið framlag ýmissa opinberra sjóða sem nú eiga þessa aðstöðu.
    Í ljósi þess sem aðhafst hefur verið og í trausti þess að möguleikar á eldi þorsks og annarra sjávarfiska verði áfram kannaðir leggur nefndin til að þessari tillögu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Fulltrúi Kvennalistans hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi, Anna Ólafsdóttir Björnsson, og er hún samþykk áliti nefndarinnar. Tveir nefndarmenn, Árni R. Árnason og Guðmundur Hallvarðsson, voru fjarstaddir afgreiðslu málsins. Magnús Jónsson sat fund nefndarinnar þegar málið var afgreitt í stað Össurar Skarphéðinssonar.