Þorskeldi

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:18:00 (3987)


     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. Hann þagði vendilega yfir þátttöku Byggðastofnunar í þeim rannsóknum sem hafa farið fram á Hjalteyri og þagði jafnframt vendilega yfir því að framlög hennar voru framlög sem hlutafé. En nú er sú stefna upp tekin að það sé eitt af því illa og stofnunin eigi ekki að taka þátt í starfi fyrirtækja með hlutafé. Ég vil að þetta komi hér fram vegna þess að það er út af fyrir sig góðra gjalda vert að hampa öðrum hlutum en ég hygg engu að síður að verulega sé höggvið að framþróunarstarfi víðs vegar úti á landi ef Byggðastofnun á í framtíðinni ekki að leggja hlutafé til slíkra hluta. Vel má vera að það verði gert í gegnum þróunarfélög en þá er í reynd verið að fara í kringum málið og aðrir aðilar sem taka ákvörðun um það. En stefnumörkunin, að það sé af hinu illa að Byggðastofnun taki þátt í rekstri hlutafélaga, segir sína sögu um viðhorf núverandi stjórnenda í þessu landi.
    Varðandi hitt atriðið, sem kom hér fram hjá Össuri Skarphéðinssyni, hv. 17. þm. Reykv., og ég vil nefna, en það er að því leyti merkilegt að þingmaðurinn staðfestir að þorskurinn við Ísland hegði sér svipað og þorskurinn við Noreg og hefðu flestir leikmenn trúað því að svo væri að óreyndu og að menn þyrftu að hafa mikil rök fyrir sínu máli ef skepnan ætti að hegða sér á annan veg hér. En það leiðir líka hugann að því hvar ofveiðin á þorski hefur verið við Ísland. Hvar hefur hún verið, hv. 17. þm. Reykv.? Hvar eru hrygningarstöðvarnar sem hafa verið eyðilagðar og hafa ekki skilað þeim stofni sem þær hefðu átt að skila? Er hugsanlegt að eitthvað af drauganetunum út af Reykjanesi eigi þátt í því að menn fá ekki þann þorsk á Íslandsmið sem ætti að koma hér? Er hugsanlegt að umhvrh. snúi sér að því að láta skoða þetta mál? Ég held nefnilega að það sé tímabært að menn átti sig á því að þorskurinn hér hegðar sér nákvæmlega eins og í Noregi. Auðvitað gengur hann á hin staðbundnu svæði eftir því hvar hrygningin hefur átt sér stað. Ég hygg líka að þá hljóti menn að verða að taka afstöðu til þess hvort Íslendingar hafi með gáleysislegum hætti, með því að skilja veiðarfæri eftir í sjó lengur en annars staðar er liðið, átt þátt í því að skaða hrygningarsvæði.