Þorskeldi

95. fundur
Fimmtudaginn 05. mars 1992, kl. 11:38:00 (3993)


     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það hafa verið lögð fram þrjú mál sem öll snerta sjávarútveginn. Vissulega mjög þörf mál og ánægjulegt að samstaða skuli vera um þau í nefndinni. Það mál sem hér liggur fyrir um þorskeldi finnst mér eitt af því alþarfasta sem hér hefur verið rætt, þar sem talað er um tilraunir með seiðaeldi til eflingar þorskstofninum. Ég átti þess kost í sumar í ferð með fjárln. að skoða lúðueldi á Reykjanesi og fannst mér mjög fróðlegt og skemmtilegt að sjá hvernig þeir vinna úr því og það er enginn vafi að það er mikil framtíð í þessum málum. Þau eru mjög skammt á veg komin hjá okkur en þetta lúðueldi hefur skilað talsverðum tekjum í þjóðarbúið. Bæði hefur verið flutt út og selt innan lands. Samið er við bátana sem veiða þarna úti fyrir um að skila inn lifandi fiskum sem síðan eru fóðraðir áfram í stöðinni og seldir þegar þeir hafa annaðhvort náð tiltekinni stærð og/eða markaður krefst þess að meira komi inn.
    Það má líka benda á fleiri fiskstofna þó að hér hafi verið rætt um lúðu og þorskeldi í þessum umræðum. Það má einnig ræða um ýsu sem lítið er orðið um. Það þyrfti að auka rannsóknir á ýsustofninum með eldi í huga. Ég vil einnig nefna að það hefur lítið verið rannsakað af heitsjávarfiskum. Fyrir nokkrum árum fóru fram rannsóknir úti fyrir Norðurlandi á því hvaða lífverur fyndust þar sem heitar uppsprettur væru úr hafsbotninum. Það lífríki, sem kom þar í ljós þegar farið var að skoða það, reyndist mjög

athyglisvert, alls kyns fiskar lifðu þar við hitann. Enn eru þær rannsóknir á algeru frumstigi, þ.e. hvaða möguleikar gætu legið þarna. Þetta er algerlega ókönnuð auðlind, má segja.
    En því miður höfum við nú við afgreiðslu fjárlaga ekki tekið nægilega á því að styrkja rannsóknir. Þar má nefna það að verið er að koma upp aðstöðu fyrir fisksjúkdómarannsóknir á Keldum og þar stendur nú tilbúið hús til frekari rannsókna en það vantar útbúnað, innréttingar og þess háttar til þess að hægt sé að nýta það. Það er því tilvalið að gefa mönnum áminningu um að það þarf að huga að því þegar fjárlög ríkisins eru afgreidd að auka og efla rannsóknir hér á landi og ekki hvað síst í sjávarútveginum og í fiskeldi þannig að það geti skilað árangri á næstu árum. Því að vissulega erum við að huga til framtíðar með því að auka og efla rannsóknir og við þurfum að huga þar að fleiri þáttum en þorskinum þó að ég taki fyllilega undir það nál. sem hér liggur frammi um það mál.